English Icelandic
Birt: 2020-12-17 21:08:47 CET
Eimskipafélag Íslands hf.
Innherjaupplýsingar

Eimskip: Upplýsingar varðandi afkomu fjórða ársfjórðungs 2020 og afkomuspá ársins 2021

Samkvæmt stjórnendauppgjöri fyrir október og nóvember, sem nú liggur fyrir, ásamt áætlun fyrir desember, lítur út fyrir að EBITDA á fjórða ársfjórðungi 2020 verði á bilinu 14 til 15,5 milljónir evra samanborið við 11,2 milljónir evra á sama ársfjórðungi síðasta árs. Miðað við vænta afkomu á fjórða ársfjórðungi þá verður EBITDA afkoma ársins 2020 á bilinu 60,7 til 62,2 milljónir evra, samanborið við 60,5 milljónir evra árið 2019. Félaginu þykir rétt að upplýsa um þetta þar sem afkomuspá hefur ekki verið í gildi fyrir árið 2020.

Vakin er athygli á því að afkoma desember liggur ekki fyrir en sögulega er afkoma þess mánaðar sveiflukennd. Þá getur afkoman tekið breytingum þar til vinnu við uppgjör og endurskoðun ársins 2020 er lokið.

Afkomuspá 2021

Á fundi stjórnar félagsins í dag var áætlun næsta árs samþykkt og hefur félagið samhliða ákveðið að gefa út EBITDA afkomuspá fyrir árið 2021 sem er á bilinu 68 til 77 milljónir evra.

Afkomuspáin er háð fjölda áhættu- og óvissuþátta sem geta þýtt að raunverulegur árangur í framtíðinni verði umtalsvert frábrugðinn því sem greint er frá í þessari spá. Þá má sérstaklega nefna að áhrif COVID-19 faraldursins á alþjóðahagkerfið eru áfram óljós fyrir komandi mánuði og eins er óvissa um áhrif BREXIT á flutninga.

Nánari upplýsingar veitir Edda Rut Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Mannauðs- og samskiptasviðs í síma 825-3399 eða á investors@eimskip.is