English Icelandic
Birt: 2020-09-04 06:01:15 CEST
Marel hf.
Aðrar upplýsingar sem birtar eru í samræmi við reglur Kauphallarinnar

Marel undirritar samning um kaup á TREIF, þýskum framleiðanda skurðtæknilausna

Marel tilkynnir undirritun samnings um kaup á þýska félaginu TREIF Maschinenbau GmbH („TREIF“) sem sérhæfir sig í skurðtæknilausnum í matvælaiðnaði. Starfsemi Marel og TREIF fellur vel saman bæði hvað varðar vöruframboð og staðsetningu á mörkuðum, sem skapar sterkan grundvöll fyrir áframhaldandi vöxt.

Um TREIF
TREIF er fjölskyldufyrirtæki sem á sér langa sögu nýsköpunar og vaxtar, með höfuðstöðvar í Oberlahr í Þýskalandi, og er leiðandi í skurðtæknilausnum og þjónustu (e. portioning, slicing and dicing) í matvælaiðnaði. Félagið var stofnað árið 1948 með áherslu á skurðarlausnir fyrir kjötiðnaðinn, sem enn í dag er þeirra stærsta starfssvið. TREIF er með yfir 80 milljónir evra í árstekjur og um 13 milljónir evra í EBITDA. Starfsmenn félagsins eru um 500 á starfsstöðvum í Evrópu, Bandaríkjunum og Kína. Traustur viðskiptavinahópur TREIF er fjölbreyttur, allt frá smásöluaðilum til stórra alþjóðlegra matvælaframleiðenda.

Áhersla á nýsköpun og samstarf við viðskiptavini
TREIF er frábær viðbót við Marel sem styrkir vöruframboð á heildarlausnum og styður við sölu staðlaðra lausna. Þá mun alþjóðlegt sölu- og þjónustunet Marel skapa tækifæri til frekari vaxtar í þjónustutekjum með þessari viðbót. Eins og Marel, leggur TREIF mikla áherslu á nýsköpun og leiðandi tæknilausnir, en hjá TREIF starfar fjölmennt og öflugt teymi við nýsköpun í samstarfi við trausta viðskiptavini. Vöruframboð félaganna falla vel saman og munu kaupin einkum styrkja vöruframboð Marel á heildarlausnum í kjötiðnaði sem og öðrum iðnuðum með áherslu á aukna sjálfvirkni, matvælaöryggi og sveigjanleika í vörum fyrir neytendamarkað. Sameinuð verða fyrirtækin í sterkari stöðu til að styðja við vöxt og virðisaukningu fyrir núverandi og framtíðarviðskiptavini.

Helstu atriði og tímasetningar viðskiptanna
Marel hefur samþykkt að kaupa allt hlutafé TREIF Maschinenbau GmbH. Kaupverðið, sem byggist á heildarvirði (e. enterprise value), er greitt með 128 milljónum evra í reiðufé og 2,9 milljónum hluta í Marel sem Uwe Reifenhäuser, fráfarandi eigandi og forstjóri TREIF, hefur skuldbundið sig til að eiga í 18 mánuði frá kaupunum hið minnsta. Kaupin eruð háð hefðbundnum fyrirvörum, þ.m.t. fyrirvara um samþykki samkeppnisyfirvalda, og áætlað er að gengið verði frá kaupunum síðar á árinu.

Fjárhagsstaða Marel er sterk og kaupin eru fjármögnuð með núverandi lánalínum og eigin hlutum sem Marel aflaði í þeim tilgangi að nýta til fyrirtækjakaupa. Pro forma skuldahlutfall eftir kaupin mun verða um 1,2x, samanborið við 0,6x við lok annars ársfjórðungs 2020 og markmið félagsins um skuldahlutfall milli 2-3x (nettó skuldir/EBITDA). Kaupin eru í samræmi við vaxtarstefnu Marel um 12% árlegan meðalvöxt yfir tímabilið 2017-2026, sem byggir á bæði innri vexti og fyrirtækjakaupum.

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel:
„Það er okkur sönn ánægja að tilkynna um kaup Marel á TREIF, sem er sannkallaður leiðtogi á sínu sviði í okkar iðnaði. Með þessum kaupum koma saman fyrirtæki sem hvort um sig eru leiðtogar á sviði nýsköpunar og vöruþróunar og deila framtíðarsýn um umbyltingu í vinnslu matvæla.

Við höfum fylgst með TREIF árum saman og hrifist af framúrskarandi tækni félagsins, hæfileikaríku teymi og öflugum hópi viðskiptavina, sem telur allt frá minni verslunum til leiðandi alþjóðlegra matvælafyrirtækja. Saman erum við betur í stakk búin til að mæta þörfum viðskiptavina okkar þegar kemur að sjálfvirknivæðingu, sveigjanleika og afhendingartíma á vörum fyrir neytendamarkað. Tæknilausnir TREIF styðja vel við vöruframboð Marel. Stærstu tekjusvið TREIF í dag eru í kjötiðnaði og bökuðum vörum, en með því að nýta þá tækni og þekkingu má hraða vöruþróun og styðja við frekari vöxt í kjúklinga- og fiskiðnaði Marel. TREIF á víðtækan og dyggan viðskiptavinahóp og með því að nýta stafrænar lausnir Marel og alþjóðlegt sölu- og þjónustunet í öllum heimsálfum getum við stutt við frekari vöxt og aukið þjónustutekjur.

Kaupin á TREIF eru í samræmi við vaxtarmarkmið okkar fyrir árin 2017-2026. Það eru mörg sóknarfæri til ytri vaxtar og Marel býr yfir bæði fjárhagslegum styrk og getu til þess að sækja fram í samræmi við metnaðarfull vaxtarmarkmið okkar um að ná þremur milljörðum evra í árstekjur árið 2026.“

Uwe Reifenhäuser, forstjóri TREIF:
„Ég er sannfærður um að við höfum fundið TREIF góðan stað hjá Marel og að með þessu skrefi sé áframhaldandi velgengni okkar framúrskarandi tæknilausna, viðskiptavina og traustu starfsmanna tryggð. Fyrir rúmum 70 árum stofnaði faðir minn TREIF með þá sýn að bjóða hágæða skurðarlausnir fyrir kjötiðnað, sem síðar þróaðist yfir í vinnslu annarra matvæla þar sem nákvæmrar skurðtækni er þörf. Okkar sýn hefur ávallt verið að afhenda áreiðanlegar og samkeppnishæfar hátæknilausnir. Þannig höfum við byggt upp framúrskarandi vöruframboð í skurðtæknilausnum og tryggan viðskiptavinahóp bæði í smásölu og í matvinnsluiðnaði.

Það er góð samlegð með starfsemi TREIF og Marel,  bæði hvað varðar vöruframboð og staðsetningu á mörkuðum. Kynni okkar ná langt aftur og viðræður okkar undanfarna mánuði hafa staðfest sameiginlega sýn á nýsköpun og þjónustu við viðskiptavini. Ef litið er til framtíðar er alþjóðlegur matvælaiðnaður í sífelldri þróun í átt að flóknari stafrænum lausnum og til að tryggja hámarksafköst þurfa viðskiptavinir um heim allan áreiðanleg þjónustuteymi í öllum heimsálfum með stuttan viðbragðstíma. Marel hefur byggt upp víðtækt sölu- og þjónustunet um heim allan og fjárfest í stafrænum lausnum sem gerir félagið að frábærum kosti að þessu leyti. Enn fremur fá starfsmenn okkar tækifæri til að verða hluti af stóru alþjóðlegu fyrirtæki sem er jafnframt leiðtogi á heimsvísu í okkar iðnaði.“

Fjárfestatengsl
Nánari upplýsingar veitir Tinna Molphy í gegnum netfangið IR@marel.com og í síma 563 8001. 

Um Marel
Marel (NASDAQ: MAREL; AEX: MAREL) er í fararbroddi á heimsvísu í þróun og framleiðslu tækja, heildarlausna, hugbúnaðar og þjónustu fyrir matvælavinnslu á kjúklingi, kjöti og fiski. Hjá félaginu starfa um 6.300 manns í yfir 30 löndum, þar af um 720 á Íslandi. Marel velti um 1,3 milljarði evra árið 2019 en árlega fjárfestir Marel um 6% af veltu í nýsköpun og vöruþróun sem styður við aukna hagkvæmni, öryggi og sjálfbærni í matvælavinnslu. Félagið var skráð í Kauphöll Íslands árið 1992, en í júní 2019 fór fram tvíhliða skráning á hlutabréfum í félaginu í Euronext kauphöllinni í Amsterdam.

Um Treif
TREIF er fjölskyldufyrirtæki með höfuðstöðvar í Oberlahr, Þýskalandi og er leiðandi í skurðtæknilausnum í matvælaiðnaði. Árstekjur félagsins nema um 80 milljónum evra og starfsmannafjöldi er um 500. TREIF hefur lagt mikla áherslu á nýsköpun og þróun og býr yfir breiðum og traustum viðskiptavinahópi. Síðan fráfarandi eigandi og forstjóri, Uwe Reifenhäuser, tók yfir rekstur félagsins árið 1989 hefur TREIF vaxið jafnt og þétt og opnað starfsstöðvar í Evrópu, Bandaríkjunum og Kína. Viðskiptavinahópurinn er breiður og telur allt frá sérvöruverslunum til alþjóðlegra fyrirtækja í matvinnsluiðnaði, sérstaklega í kjötvörum, mjólkurvörum og bökuðum vörum. Frekari upplýsingar er að finna á heimasíðu félagsins: treif.de/en