Icelandic
Birt: 2020-08-27 15:00:00 CEST
Reykjavíkurborg
Árshlutareikningur - 6 mán.

Reykjavíkurborg – Árshlutareikningur janúar – júní 2020


Árshlutareikningur Reykjavíkurborgar fyrir tímabilið janúar - júní 2020 var afgreiddur í borgarráði í dag, fimmtudaginn 27. ágúst.

Rekstrarniðurstaða A-hluta var neikvæð um 3.111 mkr en áætlun gerði ráð fyrir að hún yrði jákvæð um 736 mkr á tímabilinu. Niðurstaðan er því 3.847 mkr lakari en gert var ráð fyrir.  Lakari rekstrarniðurstaða skýrist einkum af lægri skatttekjum og lægri tekjum af sölu byggingarréttar en áætlun gerði ráð fyrir.  Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði var neikvæð um 2.648 mkr eða 4.731 mkr undir áætlun en áætlun gerði ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu um 2.083 mkr.

Rekstrarniðurstaða samstæðu Reykjavíkurborgar, A- og B-hluta, var neikvæð um 4.504 mkr en áætlanir gerðu ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu um 5.917 mkr.
Rekstrarniðurstaðan er því 10.421 mkr lakari en gert var ráð fyrir.  Lakari rekstrarniðurstöðu má einkum rekja til áhrifa lækkaðs álverðs og gjaldfærslu gengismunar vegna veikingu krónunnar frá áramótum hjá Orkuveitu. Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði var jákvæð um 6.381 mkr sem er 6.625 mkr lakari niðurstaða en áætlun gerði ráð fyrir.

Heildareignir samstæðunnar samkvæmt samanteknum efnahagsreikningi námu í lok júní 724.530 mkr, heildarskuldir ásamt skuldbindingum voru 378.064 mkr og eigið fé var 346.466 mkr en þar af var hlutdeild meðeigenda 18.859 mkr.  Eiginfjárhlutfall samstæðunnar er nú 47,8% en var 49,9% um síðustu áramót.

Ljóst er að rekstur A-hluta Reykjavíkurborgar verður mun lakari en fjárhagsáætlun 2020 gerði ráð fyrir.  Tekjur eru að dragast saman en útgjöld eru að aukast vegna þeirra aðstæðna sem skapast hafa vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.  Samkvæmt breytingu á sveitarstjórnarlögum er sveitarstjórn heimilt að víkja frá skilyrðum 1. og 2. töluliðar 2 m.gr. 64 gr. við stjórn sveitarfélagsins árin 2020-2022.   Þessi skilyrði varða jafnvægis- og skuldareglu sveitarfélaga.

Efnahagsáfallið sem gengur yfir heimsbyggðina sökum heimsfaraldurs kórónuveiru er farið að birtast í rekstri samstæðu Reykjavíkurborgar. Þannig hefur veiking krónunnar umtalsverð áhrif á erlend lán Orkuveitu og álverð hefur lækkað með neikvæðum áhrifum á álafleiðu Orkuveitu.  Mikill tekjusamdráttur hefur orðið hjá Faxaflóahöfnum og Strætó auk Sorpu bs. sökum samdráttar í ferðaþjónustu og minni umsvifa innanlands.  Gera má ráð fyrir áframhaldandi samdrætti næstu misseri.

Reykjavík, 27. ágúst 2020.

Nánari upplýsingar veitir
Halldóra Káradóttir
sviðsstjóri fjármála- og áhættustýringarsviðs
halldora.karadottir@reykjavik.is

Viðhengi


Reykjavikurborg - arsrhlutareikningur jan. - juni 2020.pdf
Reykjavikurborg - Skyrsla Fjarmala- og ahttustyringarsvis me arshlutareikningi januar - juni 2020.pdf