English Icelandic
Birt: 2020-07-30 17:53:32 CEST
Landsbankinn hf.
Árshlutareikningur - 6 mán.

Landsbankinn hf.: Uppgjör Landsbankans fyrir fyrri helming ársins 2020

  • Hagnaður Landsbankans á öðrum ársfjórðungi 2020 nam 341 milljón króna.
  • Afkoma bankans var neikvæð um 3,3 milljarða króna eftir skatta á fyrri helmingi ársins 2020.
  • Landsbankinn færði 13,4 milljarða króna í virðisrýrnunarsjóð á fyrri helmingi ársins.
  • Rekstrarkostnaður lækkar milli ára.
  • Landsbankinn hefur aldrei lánað jafn mikið til heimila eins og á fyrri árshelmingi 2020 og hefur bætt verulega við markaðshlutdeild sína í íbúðalánum.
  • Innlán jukust um 51 milljarð króna frá áramótum, sem er 7,2% aukning.
  • Landsbankinn er með sterka eiginfjár- og lausafjárstöðu sem eru vel umfram kröfur eftirlitsaðila.

Afkoma Landsbankans var neikvæð um 3,3 milljarða króna eftir skatta á fyrri helmingi ársins 2020 samanborið við 11,1 milljarðs króna hagnað á sama tímabili árið 2019. Virðisrýrnun útlána nam 13,4 milljörðum króna á tímabilinu sem jafngildir um 1,1% af útlánasafni bankans, samanborið við virðisrýrnun upp á 2,4 milljarða króna á sama tímabili í fyrra. Arðsemi eigin fjár á tímabilinu var -2,7% á ársgrundvelli, samanborið við arðsemi upp á 9,1% á sama tímabili 2019.

Á fyrri árshelmingi voru hreinar vaxtatekjur bankans 18,9 milljarðar króna samanborið við 20,5 milljarða króna á sama tímabili árið á undan, sem er 7% lækkun á milli tímabila. Hreinar þjónustutekjur námu 3,6 milljörðum króna og lækkuðu um 13% frá sama tímabili árið áður.

Virðisrýrnun útlána var 13,4 milljarðar króna á fyrri helmingi ársins samanborið við 2,4 milljarða króna á sama tímabili 2019. Mat á væntu útlánatapi í lok fyrri helmings ársins 2020 byggir á uppfærðri hagspá Hagfræðideildar Landsbankans. Áhrif uppfærðrar hagspár skýrir aukningu upp á 6,6 milljarða króna í væntu útlánatapi á fyrri helmingi ársins en Hagfræðideild bankans telur nú útlit fyrir 8,7% samdrátt í landsframleiðslu og 9,1% atvinnuleysi á árinu 2020. Vænt útlánatap lána á áhættustigi 1 og 2, þ.e. lána sem eru ekki í vanefnd, hefur hækkað verulega frá áramótum eða um 9,6 milljarða króna. Mat á  væntu útlánatap byggist m.a. á ítarlegu mati á áhrifum COVID-19 á útlánasafn bankans, sem fór fram á öðrum ársfjórðungi, en viðskiptavinir sem eru með 16% af útlánum bankans hafa nýtt sér tímabundna frestun afborgana og vaxta.

Vaxtamunur eigna og skulda nam 2,1% á fyrri helmingi ársins 2020 en var 2,4% á sama tímabili árið áður.

Rekstrarkostnaður bankans lækkaði um 1,1 milljarð króna á milli tímabila og nam 13,2 milljörðum króna á fyrri helmingi ársins 2020, samanborið við 14,3 milljarða króna á sama tímabili árið áður, sem er lækkun um 8%. Þar af var launakostnaður 7,6 milljarðar króna samanborið við 7,4 milljarða króna árið áður. Annar rekstrarkostnaður var 4,6 milljarðar króna samanborið við 4,9 milljarða króna á sama tímabili árið áður.

Kostnaðarhlutfall á fyrri helmingi ársins 2020 var 54,1%, samanborið við 40,4% á sama tímabili árið 2019.

Útlán til einstaklinga og fyrirtækja jukust um 5,1% frá áramótum, eða um rúma 58 milljarða króna, en þar af voru um 30 milljarðar króna vegna gengisbreytinga. Landsbankinn hefur aldrei lánað jafnmikið til heimila eins og á fyrri árshelmingi 2020. Alls tóku 3.963 einstaklingar og fjölskyldur íbúðalán hjá bankanum á fyrri árshelmingi að fjárhæð 36 milljarðar króna. Innlán hjá Landsbankanum jukust um 51 milljarð króna frá ára­mótum, sem er 7,2% aukning.

Eigið fé Landsbankans var 244,4 milljarðar króna hinn 30. júní sl. og eiginfjárhlutfallið var 24,9%.

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir:

„Mat á væntu útlánatapi sem fært er sem framlag í virðisrýrnunarsjóð er ráðandi í uppgjöri bankans á fyrri helmingi ársins og er í samræmi við versnandi efnahagshorfur. Sterkur efnahagur bankans er gott veganesti inn í þá óvissu sem er fram undan, þótt vissulega sé arðsemin á þessu ári verulega undir markmiðum bankans til lengri tíma.

Þess utan er árangur bankans á fyrri árshelmingi góður sem endurspeglast meðal annars í hárri markaðshlutdeild, mikilli aukningu íbúðalána, aukinni ánægju viðskiptavina og alþjóðlegum viðurkenningum.

Landsbankinn hefur lagt áherslu á að bjóða samkeppnishæfa vexti og einfalt útlánaferli vegna íbúðalána. Þessi stefna hefur skilað sér í mikilli eftirspurn eftir nýjum íbúðalánum sem og endurfjármögnun eldri lána og hafa margir nýir viðskiptavinir bæst í hóp ánægðra viðskiptavina bankans. Markaðshlutdeild bankans í íbúðalánum hefur aukist umtalsvert og í júlí hefur velta íbúðalána slegið enn eitt metið og verið sú mesta frá upphafi. Kannanir sýna mikla ánægju með þjónustu bankans og ljóst er að vel útfærð stafræn framsetning á vörum og þjónustu hefur mælst vel fyrir meðal viðskiptavina.

Á öðrum ársfjórðungi, líkt og þeim fyrsta, lagði bankinn umtalsverðar fjárhæðir í virðisrýrnunarsjóð til að mæta mögulegum áföllum vegna heimsfaraldursins. Efnahagshorfur versnuðu töluvert frá lokum mars til júníloka sem hafði áhrif á mat stjórnenda og aðgerðir til að mæta væntum útlánatöpum. Spá bankans um hagvöxt lækkaði verulega eða úr 2% hagvexti í 8,7% samdrátt. Líkur eru á auknu atvinnuleysi og gerum við nú ráð fyrir 9,1% atvinnuleysi í stað 4%. Mat stjórnenda bankans leiddi til þess að bankinn færir nú 8,2 milljarða króna í virðisrýrnunarsjóð til viðbótar við 5,2 milljarða króna virðisrýrnun á fyrsta ársfjórðungi. Þetta er fimm- til sexfalt meiri virðisrýrnun en búast má við í eðlilegu árferði og endurspeglar hversu mikil óvissa er um afleiðingar heimsfaraldursins.

Hagnaður var af rekstri bankans á öðrum ársfjórðungi, jákvæð arðsemi var af rekstrinum og kostnaðarhlutfall var aðeins 42,7%.

Rekstur Landsbankans er traustur og sem stærsti banki landsins skiptir verulegu máli að hann sé í stakk búinn að styðja við atvinnulífið, einstaklinga og fjölskyldur. Við kappkostum sem fyrr að veita framúrskarandi þjónustu, horfum raunsætt á breyttar efnahagsforsendur og búum okkur undir áframhaldandi óvissu.“

Föstudaginn 31. júlí kl. 10.00, mun bankinn bjóða upp á símafund á ensku þar sem farið verður yfir uppgjör bankans fyrir fyrri helming ársins 2020. Vinsamlegast skráið ykkur á símafundinn með því að senda tölvupóst á netfangið ir@landsbankinn.is.

Nánari upplýsingar veita:               

Rúnar Pálmason, upplýsingafulltrúi, samskipti@landsbankinn.is og í síma 410 6263

Hanna Kristín Thoroddsen, fjárfestatengsl, ir@landsbankinn.is og í síma 410 7310

Viðhengi


Landsbankinn_frettatilkynning_30.06.2020.PDF
Landsbankinn_samandreginn_arshlutareikningur_samstu_30.6.2020.pdf
Landsbankinn_uppgjorskynning_30.06.2020.pdf