English Icelandic
Birt: 2020-07-29 19:47:47 CEST
Íslandsbanki hf.
Árshlutareikningur - 6 mán.

Islandsbanki hf.: Afkoma á fyrri árshelmingi 2020

Helstu atriði í afkomu annars ársfjórðungs 2020 (2F20)

  • Hagnaður af rekstri Íslandsbanka eftir skatta nam 1,2 ma. kr. á 2F20 samanborið við 2,1 ma. kr. á 2F19. Arðsemi eigin fjár var 2,8% á ársgrundvelli (2F19: 4,9%).
  • Vaxtatekjur drógust saman um 2,1% á 2F20 sem skýrist af mestu leyti af 2% lækkun stýrivaxta Seðlabankans seint á 1F20 og á 2F20. Þóknanatekjur drógust saman um 16,4% að stærstu leyti vegna minni kortaveltu.
  • Stjórnunarkostnaður lækkaði um 5,6% sem ber vott um að kostnaðarhagræðing síðastliðna ára sé farin að skila árangri.
  • Neikvæð virðisbreyting útlána á 2F20 nam 2,4 ma. kr. sem skýrist að stærstu leyti af endurmati á mögulegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru á útlán á stigi 2 til fyrirtækja í ferðaþjónustu.
  • Útlán til viðskiptavina jukust um 9,5 ma. kr. að mestu vegna útlána til einstaklinga. Innlán til viðskiptavina jukust um 33,4 ma. kr. aðallega vegna aukningar í innánum frá lífeyrissjóðum og einstaklingum.

Helstu atriði í afkomu á fyrri helmingi ársins 2020 (1H20)

  • Tap var af rekstri Íslandsbanka á fyrri helmingi ársins sem nam 131 m.kr. samanborið við 4,7 ma. kr. hagnað á 1H19. Tapið skýrist aðallega af neikvæðri virðisbreytingu útlána að fjárhæð 5,9 ma. kr. sem orsakast af áhrifum af COVID-19 faraldrinum. Fjármagnsgjöld námu 1,9 ma. kr. sem má að mestu leyti rekja til óhagfelldra aðstæðna á mörkuðum. Arðsemi eigin fjár var -0,1% á ársgrundvelli samanborið við 5,4% á 1H19.
  • Hreinar vaxtatekjur jukust um 2,9% samanborið við 1H19. Vaxtamunur hélst stöðugur og var 2,7%. Hreinar þóknanatekjur drógust saman um 11,2% miðað við sama tíma í fyrra sem má helst rekja til minni kortaveltu í kjölfar COVID-19. Stjórnunarkostnaður dróst saman um 7,0% frá 1H19 sökum fækkunar stöðugilda á árinu 2019, hóflegra launahækkana og lækkunar á flestum kostnaðarliðum.
  • Útlán til viðskiptavina námu 933 ma. kr. í lok 1H20 og jukust um 3,7% frá áramótum en þar af eru 19,2 ma. kr. tilkomnir vegna gengisbreytinga. Húsnæðislán jukust um 12,3 ma. kr. og má merkja aukna eftirspurn vegna lægra vaxtaumhverfis. Hlutfall lána með laskað lánshæfi á stigi 3 nam 3,6% (vergt bókfært virði) í lok 1H20.
  • Innlán frá viðskiptavinum námu 681 ma. kr. í lok 1H20 og jukust um 10,2% frá áramótum sem stafar að töluverðu leyti af auknum innlánum lífeyrissjóða. Sterk lausafjárhlutföll í gjaldmiðlum og takmörkuð fjármögnunarþörf hafa gert það að verkum að endurkaup eigin skuldabréfa voru hagkvæm á tímabilinu.
  • Heildareiginfjárhlutfall bankans var sterkt og nam 22,2% í lok 1H20, eiginfjárhlutfall þáttar 1 var 19,4% og vogunarhlutfall var 13,4%.
    1H20 1H19 2F20 2F19 2019
             
REKSTUR Hagnaður (tap) eftir skatta, ISKm   (131) 4,709   1,245 2,120 8,454
  Arðsemi eigin fjár (eftir skatta) -0.1% 5.4% 2.8% 4.9% 4.8%
  Vaxtamunur (af heildareignum) 2.7% 2.7% 2.6% 2.8% 2.8%
  Kostnaðarhlutfall¹ 60.1% 58.0% 57.5% 56.5% 62.4%
             
    30 06 2020 31 03 2020 31 12 2019 31 12 2018 31 12 2017
             
EFNAHAGUR Útlán til viðskiptavina, ISKm 933,320 923,850 899,632 846,599 755,175
  Eignir samtals, ISKm 1,303,256 1,255,691 1,199,490 1,130,403 1,035,822
  Áhættuvegnar eignir, ISKm 923,133 911,375 884,550 845,949 775,492
  Innlán frá viðskiptavinum, ISKm 681,223 647,795 618,313 578,959 567,029
  Útlán til viðskiptavina / innlán frá viðskiptavinum 137.0% 142.6% 145.5% 146.2% 133.2%
  Hlutfall lána með laskað lánshæfi² 3.6% 2.8% 3.0% 2.0% 1.0%
        
             
LAUSAFÉ Lausafjárhlutfall (LCR), allir gjaldmiðlar 179% 177% 155% 172% 142%
  Hlutfall stöðugrar fjármögnunar (NSFR), allir gjaldmiðlar 117% 120% 119% 114% 117%
        
             
EIGIÐ FÉ Eigið fé samtals, ISKm 179,722 179,542 180,062 176,313 181,045
  Eiginfjárhlutfall þáttar 1 19.4% 19.2% 19.9% 20.3% 22.6%
  Eiginfjárhlutfall 22.2% 21.9% 22.4% 22.2% 24.1%
  Vogunarhlutfall 13.4% 13.5% 14.2% 14.6% 16.2%
       
1. Reiknað sem: (stjórnunarkostnaður + framlag í Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta – einskiptisliðir) / (heildarrekstrartekjur – einskiptisliðir)
2. Stig 3, útlán til viðskiptavina, vergt bókfært virði      

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka

Hagnaður Íslandsbanka á öðrum ársfjórðungi ársins nam 1,2 milljarði króna. Virðisrýrnun útlána, sem er einkum tilkomin vegna áhrifa af COVID-19 heimsfaraldrinum, hafði mikil áhrif á afkomu fjórðungsins sem og á afkomu fyrstu sex mánaða ársins. Kostnaður dróst saman um 7,0% á milli ára og þar sáum við aðgerðir sem gripið var til á síðasta ári skila árangri.

Við höfum áfram unnið að lausnum með okkar viðskiptavinum og má þar til dæmis nefna að umsóknir um stuðningslán nema nú rúmlega 1,5 milljarði króna. Allmargar umsóknir hafa þegar verið afgreiddar og fleiri bíða úrvinnslu. Góður gangur var í nýjum útlánum á tímabilinu. Töluverður vöxtur var í húsnæðislánum og margir viðskiptavinir nýttu sér bílafjármögnun Ergo á tímabilinu, sem átti sitt stærsta tímabil um árabil. Grænum lánum, sem kynnt voru í byrjun sumars, var sömuleiðis vel tekið. Innlán frá viðskiptavinum jukust mikið á tímabilinu eða um 10,2%. Lausa- og eiginfjárhlutföll eru áfram sterk og er bankinn því í einkar góðri stöðu til að vinna áfram með sínum viðskiptavinum. 

Við sjáum ýmsar breytingar í hegðun og óskum okkar viðskiptavina og starfsfólks í kjölfar heimsfaraldursins. Heimsóknum í útibú hefur fækkað og notkun stafrænna lausna aukist mikið. Við kynntum til leiks fyrstu útgáfu af spjallmenninu Fróða, en hann leiðbeinir einstaklingum með bankaþjónustu á einfaldan hátt. Við ætlum jafnframt að nýta okkur þá reynslu sem fékkst af því að vinna heima og höfum því m.a. sett af stað tilraunaverkefni þar sem hluti starfsfólks vinnur heima einn dag í viku. Ef vel gengur mun ferðum starfsfólks til og frá vinnu fækka og kolefnaspor bankans þar með dragast saman.

Við munum halda áfram að styðja við viðskiptavini okkar í gegnum óvissutíma, með bjartsýni að leiðarljósi og kappkostum að veita þeim bestu bankaþjónustuna nú sem aldrei fyrr.

 

COVID-19 faraldurinn á Íslandi og aðgerðir Íslandsbanka til að styðja við viðskiptavini

  • Virk smit á Íslandi eru nú 28 talsins og sóttvarnaraðgerðir halda áfram.
  • Landamæri Íslands voru opnuð 15. júní og hafa komufarþegar val um sýnatöku eða sóttkví. Farþegar frá löndum sem ekki eru talin áhættulönd þurfa ekki að fara í sýnatöku.
  • Útibú Íslandsbanka voru opnuð að nýju þann 11. maí eftir tímabundnar lokanir. Þjónusta var veitt í gegnum stafrænar lausnir og síma á tímabilinu.
  • Íslandsbanki hefur meðal annars gefið kost á tímabundinni frestun afborgana og vaxta af lánum í allt að sex mánuði.
  • Úrræði fyrir fyrirtæki miða að því að útfæra þau úrræði sem ríkið hefur veitt. Þar má helst nefna stuðningslán og viðbótarlán sem eru með 70-100% ríkisábyrgð og eru ætluð fyrirtækjum sem uppfylla ákveðin skilyrði.
  • Í lok 1H20 voru um 1600 lán til fyrirtækja á tímabundnum fresti á greiðslu afborgana og vaxta eða um 150 ma. kr. sem samsvarar um 26% af útlánum til fyrirtækja.
  • Í lok 1H20 voru rúmlega 2500 lán til einstaklinga á tímabundnum fresti á greiðslu afborgana og vaxta eða um 30 ma. kr. sem samsvarar um 8% af útlánum til einstaklinga.

Helstu atriði úr rekstri á fyrri helmingi ársins 2020 (1H20)

  • Þann 7. júlí 2020 var tilkynnt að sölu væri lokið á 63,5% eignarhlut bankans í Borgun hf. til Salt Pay Co Ltd., en tilkynnt hafði verið um undirritun kaupsamnings í mars.
  • Með aukinni notkun stafrænna lausna og tilkomu nýrra lausna eins og endurfjármögnunarferli fyrir húsnæðislán, stofnun verðbréfaviðskipta og spjallmenninu Fróða fyrir einstaklinga, fékk útibúið í Laugardal aukna áherslu á einstaklingsþjónustu. Samhliða þessum breytingum sameinuðust  útibúin á Höfða og Granda útibúinu í Laugardal, Suðurlandsbraut. Eftir þessar breytingar þjónustar Íslandsbanki viðskiptavini sína í gegnum skilvirkt útibúanet sem samanstendur af 12 útibúum.
  • Þjónusta við lítil og meðalstór fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu var sameinuð í eina Fyrirtækjamiðstöð í Norðurturni, höfuðstöðvum Íslandsbanka. Fyrirtæki geta þó nú sem fyrr leitað í öll útibú fyrir einfalda bankaþjónustu.
  • Íslandsbanki hóf tilraunaverkefni þar sem starfsfólk vinnur heima einn dag í viku. Bankinn kynnti einnig nýjar áherslur sem hvetja til umhverfisvænni samgöngumáta.
  • Bankinn kynnti uppfærða þjóðhagsspá fyrir árin 2020-2022 þar sem m.a. er spáð að þjóðarframleiðsla dragist saman um 9,1% á árinu 2020 en að efnahagsbati verði á árinu 2021.
  • Íslandsbanki og Payday skrifuðu undir samstarfssamning. Payday býður upp á þjónustu sem einfaldar reikningagerð, launagreiðslur, bókhald og skil á virðisaukaskatti og öðrum opinberum gjöldum. Lausnin er ætluð sjálfstæðum atvinnurekendum og smærri fyrirtækjum.
  • Bankinn úthlutaði 30 m.kr. úr Frumkvöðlasjóði Íslandsbanka. Við úthlutun styrkja var horft til verkefna sem stuðla að þeim fjórum heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem Íslandsbanki hefur ákveðið að styðja sérstaklega við í stefnu sinni. Samtals hlutu 13 verkefni styrk.
  • Ergo kynnti betri kjör á grænni fjármögnun vegna bílalána og bílasamninga. Ergo býður nú jafnframt upp á fjármögnun á rafmagnshjólum og hleðslustöðvum fyrir vistvænar bifreiðar.
  • Íslandsbanki hélt endurkaupum á eigin skuldabréfum áfram á tímabilinu. Til viðbótar við SEK 350m endurkaupin í apríl keypti bankinn SEK 75m af almennu skuldabréfi, á gjalddaga í febrúar 2021, á öðrum ársfjórðungi. Bankinn mun áfram skoða endurkaup á eigin skuldabréfum ef tækifæri og aðstæður gefast.

Fjárfestatengsl

Símafundur með fjárfestum á ensku kl. 9.30
Símafundur með markaðsaðilum vegna uppgjörs verður haldinn 30. júlí kl. 9.30. Farið verður yfir helstu atriði í íslenskum efnahagsmálum, afkomu bankans og spurningum svarað. Fundurinn verður á ensku.
Vinsamlegast skráið ykkur á símafundinn með að senda póst á: ir@islandsbanki.is. Fundargögn og aðgangsorð vegna símafundar verða send út til skráðra aðila fyrir fundinn.

Öll gögn tengd uppgjöri ásamt upplýsingum um fjárhagsdagatal og þögul tímabil má finna hér: https://www.islandsbanki.is/is/flokkur/bankinn/fjarfestatengsl

Nánari upplýsingar veita:

Póstlisti Íslandsbanka
Ef þú vilt gerast áskrifandi að kauphallarfréttum Íslandsbanka þá vinsamlegast skráðu þig hér: https://www.islandsbanki.is/is/grein/postlisti_ir 

Um Íslandsbanka
Íslandsbanki er leiðandi fjármálafyrirtæki á Íslandi með heildareignir að fjárhæð 1.199 milljarðar króna, eiginfjárhlutfall sem nam 22,4% og markaðshlutdeild á bilinu 25-40%  á innanlandsmarkaði í árslok 2019.
Með hlutverkið „saman erum við hreyfiafl til góðra verka svo að þú náir árangri” og framtíðarsýnina að vera #1 í þjónustu að leiðarljósi vinna þrjú viðskiptasvið þétt saman til þess að tryggja góð sambönd við viðskiptavini bankans.
Til að koma enn betur til móts við síbreytilegar þarfir viðskiptavina hefur Íslandsbanki þróað margvíslegar stafrænar lausnir svo sem app Íslandsbanka og Kass. Á sama tíma rekur bankinn skilvirkasta útibúanetið með 12 útibú staðsett á lykilstöðum um land allt.
Lánshæfismat Íslandsbanka er BBB/A-2 frá S&P Global Ratings. www.islandsbanki.is

Fyrirvari
Framangreind fréttatilkynning gæti vísað til spár um framtíðarhorfur sem er háð áhættu- og óvissuþáttum og getur þýtt að raunverulegur árangur verði umtalsvert frábrugðinn því sem spáð er í þessari fréttatilkynningu. Íslandsbanki hf. hefur ekki skyldu til að, og mun ekki, uppfæra þessar spár um framtíðarhorfur félagsins til að endurspegla atburði og aðstæður sem eiga sér stað eftir útgáfu þessarar fréttatilkynningar. Það er ábyrgð fjárfestis að reiða sig ekki seinna meir á spár um framtíðarhorfur sem eru settar fram í þessari  fréttatilkynningu  þar sem þær eiga eingöngu við á þeim tíma sem hún er gefin út. Spár um framtíðarhorfur gefa ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur og eru allar yfirlýsingar um framtíðarhorfur félagsins fullgildar í heild sinni með tilliti til þessa fyrirvara.

Viðhengi


2020.07.29_ISB_Condensed Consolidated Interim Financial Statements_First half 2020.pdf
2020.07.29_ISB_Factsheet_2Q20.pdf
2020.07.29_ISB_Financial Factbook_2Q20.pdf
2020.07.29_ISB_Investor Presentation_2Q20.pdf
2020.07.29_ISB_Press_Release_2Q20.pdf