English Icelandic
Birt: 2020-07-22 20:04:25 CEST
Marel hf.
Árshlutareikningur - 6 mán.

Marel 2F 2020: Góð rekstrarafkoma og sterkt sjóðstreymi

Helstu atriði:

Annar ársfjórðungur 2020 (2F20)

  • Pantanir námu 280,1 milljónum evra (2F19: 311,2m).
  • Pantanabókin stóð í 439,0 milljónum evra (1F20: 464,6m og 2F19: 459,4m).
  • Tekjur námu 305,7 milljónum evra (2F19: 326,5m).
  • EBIT* nam 45,0 milljónum evra (2F19: 49,6m), sem var 14,7% af tekjum (2F19: 15,2%).
  • Einskiptiskostnaður vegna hagræðingar, sem ekki er sérstaklega leiðrétt fyrir, er um 1 milljón evra. Hagræðingaraðgerðir á öðrum ársfjórðungi munu skila sér að fullu árið 2021, sem nemur 2 milljónum evra lækkun á kostnaðargrunni á ársgrundvelli.
  • Hagnaður nam 30,7 milljónum evra (2F19: 34,3m).
  • Hagnaður á hlut (EPS) var 4,07 evru sent (2F19: 5,16 evru sent).
  • Handbært fé frá rekstri fyrir fjármagnsliði og skatta nam 63,1 milljónum evra (2F19: 22,3m).
  • Frjálst sjóðstreymi nam 47,6 milljónum evra (2F19: -1,7m).
  • Skuldahlutfall (nettó skuldir/EBITDA) nam x0,6 í lok júní (1F20: x0,4). Markmið félagsins um fjármagnsskipan er að halda skuldahlutfalli á milli x2-3.
  • Á öðrum ársfjórðungi endurgreiddi Marel 500 milljónir evra af sambankalánalínu sem dregið var 600 milljónir evra á á fyrsta ársfjórðungi.

Hálfsársuppgjör 2020 (1H20)

  • Pantanir námu 631,9 milljónum evra (1H19: 634,5m).
  • Tekjur námu 607,3 milljónum evra (1H19: 651,1m).
  • EBIT* nam 70,4 milljónum evra (1H19: 97,1m), sem var 11,6% af tekjum (1H19: 14,9%).
  • Einskiptiskostnaður vegna hagræðingar, sem ekki er sérstaklega leiðrétt fyrir, er um 4 milljón evra. Hagræðingaraðgerðir á fyrri helmingi ársins munu skila sér að fullu árið 2021, sem nemur 8 milljónum evra lækkun á kostnaðargrunni á ársgrundvelli.
  • Handbært fé frá rekstri fyrir fjármagnsliði og skatta nam 124,6 milljónum evra (1H19: 81,9m).

*Rekstrarniðurstaða aðlöguð fyrir afskrift á óefnislegum eignum sem tengjast yfirtökum (PPA).

Ítarlegri umfjöllun um rekstur og afkomu félagsins má finna í enskri útgáfu fréttatilkynningarinnar (íslenska útgáfan veitir aðeins yfirlit yfir helstu þætti uppgjörsins, horfur, fjárfestafund og fjárhagsdagatal).

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri:

Fyrri helmingur ársins hefur sannarlega verið viðburðarríkur og mikill prófsteinn á viðskiptamódel okkar. Okkar metnaðarfulla starfsfólk um allan heim hefur staðið undir orðspori okkar sem lausnarmiðaður og áreiðanlegur þjónustuaðili í krefjandi aðstæðum. Í samvinnu við viðskiptavini og birgja höfum við tryggt stöðugt framboð á öruggum og hagkvæmum matvælum og þar með haldið einni mikilvægustu virðiskeðju heimsins gangandi. Ég er afar stoltur af því að tilheyra samheldnum hópi starfsmanna undir flaggi Marel. 

Á sama tíma og við höfum lagt höfuðáherslu á að tryggja öryggi og velferð starfsmanna okkar og viðskiptavina, höfum við sýnt útsjónarsemi og afgreitt á réttum tíma pantanir á lausnum og varahlutum. Við höfum notað okkar sterka fjárhag til að byggja markvisst upp öryggisbirgðir af íhlutum til framleiðslu og varahluti. Allar framleiðslueiningar okkar hafa verið samfellt í rekstri, en nýtingarhlutfall og afköst litast nokkuð af heimsfaraldrinum og eru undir því sem við þekkjum, sem og markmiðum okkar. 

Afkoman á öðrum ársfjórðungi batnar milli fjórðunga. Tekjur voru 306 milljónir evra og EBIT framlegð nærri 15%. Framlegð (e. gross profit) lækkar á milli ára sökum lægri tekna á móti föstum kostnaði en á móti vinnur hagstæð samsetning vara og góð verkstýring í stærri verkefnum. Annar rekstarkostnaður, einkum sölu-, markaðs- og stjórnunarkostnaður var lægri vegna þess að fjarskiptatækni og stafrænar sýningar (e. virtual showrooms) koma í stað ferðalaga og hefðbundinna vöru- og iðnaðarsýninga. Að auki hefur kostnaðargrunnur félagsins lækkað vegna hagræðingaraðgerða sem gripið var til.

Yfir 2.500 manns starfa í sölu- og þjónustuneti félagsins í 30 löndum og þjónusta viðskiptavini í 140 löndum sem skapar okkur verulegt samkeppnisforskot. Það er óhugsandi hvernig við hefðum getið staðið við skuldbindingar okkar um allan heim án þess uppbyggingarstarfs. Í gegnum þjónustunet Marel komu 38% af heildartekjum í formi varahluta og þjónustutekna á öðrum ársfjórðungi.

Sé horft til fyrri helmings ársins má sjá að mótteknar pantanir eru á pari við sama tímabil í fyrra, en metpantanir voru á fyrsta ársfjórðungi en lægri á öðrum ársfjórðungi þegar faraldurinn stóð sem hæst. Tekjur námu 607 milljónum evra, niður um 7% á milli ára, og EBIT-framlegð var um 12%. Sjóðstreymi var firnasterkt og skuldahlutfall var áfram lágt eða x0.6 (nettó skuldir/EBITDA). Á síðustu sex mánuðum höfum við skilað um 100 milljónum evra til hluthafa okkar í gegnum arðgreiðslur og endurkaupaáætlun. Fjárhagstaða félagsins er afar sterk og styður við áframhaldandi fjárfestingar í innri og ytri vöxt. 

Heimsfaraldurinn hefur hraðað tækifærum til aukinnar sjálfvirkni og stafrænnar þróunar. Kauphegðun neytenda er að taka miklum og sennilega varanlegum breytingum. Á síðustu 4-6 mánuðum höfum við merkt aukna spurn eftir matvælum í verslunum í stað heimsókna á veitingastaði. Neytendur huga nú meira að gæðum, sjálfbærni í framleiðslu og verðlagi. Meðan faraldurinn stóð sem hæst var meira um stórinnkaup þar sem eftirspurn eftir frosinni matvöru var mikil, en nú má merkja að viðskiptavinir fari tíðar í smásöluverslanir og leiti í auknum mæli eftir ferskri matvöru.

Í þessum kviku aðstæðum er mikilvægt að geta aðlagað framleiðslu og dreifingu hratt að breyttu markaðsumhverfi. Þeir viðskiptavinir okkar sem hafa fjárfest í aukinni sjálfvirknivæðingu og hafa sveigjanleika í vöruframboði hafa styrkt markaðsstöðu sína á þessum umbrotatímum. Sömu sögu má segja um Marel. Þó geri megi ráð fyrir áframhaldandi sveiflum í rekstri stendur Marel við birt vaxtar- og rekstrarmarkmið sín til meðallangs- og langs tíma.

Endurkaupaáætlun og arðgreiðsla

Á aðalfundi félagsins þann 18. mars 2020 var samþykkt arðgreiðsla til hluthafa að upphæð 43,9 milljón evra fyrir rekstrarárið 2019. Vegna þessa voru greiddar út 38,1 milljónir evra á öðrum ársfjórðungi og 5,8 milljónir evra munu verða greiddar út á þriðja ársfjórðungi vegna skattskuldbindinga.

Þann 10. júní tilkynnti Marel um lok endurkaupaáætlunar félagsins. Marel keypti 14,3 milljónir eigin hluta samkvæmt endurkaupaáætluninni fyrir 55,9 milljónir evra, þar af voru 9,9 milljónir hluta keyptir á öðrum ársfjórðungi fyrir 41,4 milljónir evra.

COVID-19 – Breytt vinnulag og snjallari leiðir

  • Marel er í flokki þeirra fyrirtækja sem eru talin í framlínu (e. critical infrastructure) til að tryggja áframhaldandi matvælaframleiðslu í heiminum. Fyrr á árinu voru framleiðslueiningar félagsins endurskipulagðar til að tryggja samfellu í starfsemi sem og öryggi viðskiptavina og starfsfólks.
  • Framleiðslueiningar Marel um heim allan hafa haldist opnar, en starfsemi þeirra hefur þó verið undir hefðbundnum afköstum og markmiðum félagsins um nýtingarhlutföll.
  • Marel leitast við að geta framleitt staðlaðir lausnir á tveimur til þremur framleiðslustöðvum til að auka sveigjanleika í framleiðslu og draga úr áhættu.
  • Afhending á varahlutum, íhlutum og tækjum hefur gengið vel en félagið hefur markvisst byggt upp öryggisbirgðir til að tryggja stöðugt framboð og skamman afhendingartíma.
  • Framsækið og víðfeðmt sölu- og þjónustunet í yfir 30 löndum gerir Marel kleift að þjónusta viðskiptavini um allan heim á þessum umrótatímum.
  • Reynslan á tíma heimsfaraldursins hefur sýnt að nálægð við viðskiptavini skiptir sköpum. Viðskiptavinir Marel starfa um heim allan og á öllum tímum sólarhringsins – rétt eins og Marel.
  • Góð þátttaka hefur verið í Marel Live, sem er nýr stafrænn vettvangur til að kynna vörur og þjónustu félagsins fyrir viðskiptavinum.
  • Marel stendur við vaxtarmarkmið sín til meðallangs- og langs tíma.

Horfur

Markaðsaðstæður hafa verið krefjandi í ljósi umróts á heimsmörkuðum og núverandi COVID-19 heimsfaraldurs. Marel býr að góðri dreifingu tekna á milli markaða og iðnaða í gegnum alþjóðlegt sölu- og þjónustunet sitt ásamt breiðu og framsæknu vöru- og þjónustuframboði. Sem stendur er ekki vitað hver fjárhagsleg áhrif COVID-19 munu verða á Marel.
Marel stendur við vaxtarmarkmið sín til meðallangs- og langs tíma.

Marel stefnir að um 40% framlegð (e. gross profit), 18% sölu-, markaðs- og stjórnunarkostnaði og 6% þróunarkostnaði, til meðallangs tíma.

Marel stefnir að 12% meðalvexti árlega yfir tímabilið 2017-2026 sem byggir á öflugri markaðssókn og nýsköpun, samstarfi við lykilaðila og yfirtökum á fyrirtækjum.

  • Marel gerir ráð fyrir að almennur markaðsvöxtur nemi 4-6% til lengri tíma. Með sterkri markaðssókn og nýsköpun stefnir Marel að innri vexti umfram almennan markaðsvöxt.
  • Gera má ráð fyrir að áframhaldandi traustur rekstur og sterkt sjóðstreymi geti stutt við 5-7% ytri meðalvöxt á ári.
  • Marel gerir ráð fyrir að hagnaður á hlut vaxi hraðar en tekjur.

Áætlaður vöxtur er háður hagsveiflum og þeim tækifærum sem eru í boði hverju sinni og því má gera ráð fyrir að hann verði ekki línulegur. Reikna má með breytilegri afkomu á milli ársfjórðunga vegna efnahagsþróunar, sveifla í pöntunum og tímasetningu stærri verkefna.

Afkomuefni

Ítarlegri umfjöllun um rekstrarafkomu má finna í enskri útgáfu fréttatilkynningar sem er í viðhengi. Sé misræmi á milli uppgjörstilkynninga félagsins á íslensku annars vegar og ensku hins vegar, skal enska útgáfan gilda þar sem tilkynningar eru þýddar af ensku yfir á íslensku.

Rafrænn afkomufundur með markaðsaðilum

Fimmtudaginn 23. júlí 2020 kl. 8:30 verður haldinn afkomufundur fyrir markaðsaðila og fjárfesta. Fundurinn verður eingöngu rafrænn en þar munu Árni Oddur Þórðarson forstjóri og Linda Jónsdóttir fjármálastjóri kynna afkomu félagsins og helstu atriði úr rekstri á öðrum ársfjórðungi.

Fundinum verður vefvarpað beint á www.marel.com/webcast og upptaka verður aðgengileg á www.marel.com/ir eftir fundinn.

Markaðsaðilar geta einnig hringt inn á fundinn:

  • IS: +354 800 7520
  • NL: +31 10 712 9163
  • UK: +44 33 3300 9261
  • US: +1 833 526 8381

Fjárhagsdagatal

Marel mun birta árshluta- og ársuppgjör félagsins samkvæmt neðangreindu fjárhagsdagatali:

  • 3F 2020 – 20. október 2020
  • 4F 2020 – 3. febrúar 2021

Birting fjárhagsupplýsinga mun eiga sér stað eftir lokun markaðar. Vinsamlegast athugið að dagsetningarnar eru birtar með fyrirvara um breytingar.

Fjárfestatengsl

Nánari upplýsingar veita Fjárfestatengsl Marel í gegnum netfangið IR@marel.com og í síma 563 8001. 

Um Marel

Marel (NASDAQ: MAREL; AEX: MAREL) er í fararbroddi á heimsvísu í þróun og framleiðslu tækja, heildarlausna, hugbúnaðar og þjónustu fyrir matvælavinnslu á kjúklingi, kjöti og fiski. Hjá félaginu starfa um 6.300 manns í yfir 30 löndum, þar af um 720 á Íslandi. Marel velti um 1,3 milljarði evra árið 2019 en árlega fjárfestir Marel um 6% af veltu í nýsköpun og vöruþróun sem styður við aukna hagkvæmni, öryggi og sjálfbærni í matvælavinnslu. Félagið var skráð í Kauphöll Íslands árið 1992, en í júní 2019 fór fram tvíhliða skráning á hlutabréfum í félaginu í Euronext kauphöllinni í Amsterdam.

Athygli fjárfesta er vakin á eftirfarandi:

Sumar staðhæfingar í þessari fréttatilkynningu kunna að vera byggðar á mati og áætlunum stjórnenda félagsins en ekki á staðreyndum sem hægt er að sannreyna við birtingu hennar. Í eðli sínu fela slíkar staðhæfingar því í sér óvissu. Við vekjum þess vegna athygli fjárfesta á því að margir þættir geta haft þau áhrif að rekstrarumhverfi og afkoma verði með öðrum hætti en forsendur gera ráð fyrir í þessari tilkynningu. Tilkynningin verður ekki endurskoðuð eftir birtingu hvað þetta varðar.

Gögn um markaðshlutdeild

Yfirlýsingar um markaðshlutdeild, þar með taldar þær sem varða samkeppnisstöðu Marel, byggjast á utanaðkomandi heimildum og gögnum, svo sem gögnum frá rannsóknastofnunum, iðnaðar- og sölunefndum og hópum, ásamt mati stjórnenda Marel. Séu upplýsingar ekki tiltækar fyrir Marel kunna slíkar yfirlýsingar að vera byggðar á áætlunum og mati utanaðkomandi aðila og/eða stjórnenda. Markaðsstaða er byggð á sölutölum nema annað sé tekið fram.

Sé misræmi á milli uppgjörstilkynninga félagsins á íslensku annars vegar og ensku hins vegar, skal enska útgáfan gilda þar sem tilkynningar eru þýddar af ensku yfir á íslensku.

Viðhengi


Marel Q2 2020 Condensed Consolidated Interim Financial Statements_vF.pdf
Marel Q2 2020 Condensed Consolidated Interim Financial Statements - Excel.xlsx
Marel Q2 2020 Press Release_vF.pdf