English Icelandic
Birt: 2020-07-07 12:19:14 CEST
Íslandsbanki hf.
Aðrar upplýsingar sem birtar eru í samræmi við reglur Kauphallarinnar

Islandsbanki hf.: Íslandsbanki hf. selur eignarhluti í Borgun hf.

Íslandsbanki hefur í dag lokið sölu á 63,5% hlut bankans í Borgun hf. til Salt Pay Co Ltd. Samhliða sölu Íslandsbanka kaupir Salt Pay Co einnig eignarhlut Eignarhaldsfélagsins Borgunar slf. og mun í kjölfar kaupanna fara með 95,9% hlutafjár í Borgun.

Kaupverðið er trúnaðarmál en salan mun hafa óveruleg áhrif á rekstur bankans. Leiðrétt fyrir rekstri Borgunar hefðu þóknanatekjur samstæðu Íslandsbanka fyrir árið 2019 dregist saman um 13%, rekstrargjöld lækkað um 13% og kostnaðarhlutfall lækkað um fjögur prósentustig. Salan hefur jákvæð áhrif á eiginfjárhlutföll bankans og lausafjárhlutföll lækka lítillega, en eru þó enn vel yfir markmiðum bankans og kröfum eftirlitsaðila.

Formlegt söluferli á hlut bankans í Borgun hófst í upphafi árs 2019, sbr. tilkynningu Íslandsbanka dags. 11. janúar 2019 og var kaupsamningur undirritaður 11. mars síðastliðinn. Um var að ræða opið og gagnsætt söluferli í umsjón svissneska ráðgjafarfyrirtækisins Corestar Partners og fyrirtækjaráðgjafar Íslandsbanka.

Íslandsbanki óskar Borgun og nýjum eigendum velfarnaðar í framtíðarrekstri félagsins.

Um Borgun:
Borgun hf. var stofnað árið 1980 og gaf út fyrsta kreditkortið á Íslandi. Stöðugildi hjá fyrirtækinu eru nú tæplega 130 og skiptist starfsemin í þrennt. Í fyrsta lagi kortaútgáfa en fyrirtækið gefur út greiðslukort fyrir Íslandsbanka og Aur. Í öðru lagi í færsluhirðingu en starfsemin fer einkum fram í sex löndum; Íslandi, Bretlandi, Ungverjalandi, Tékklandi, Slóvakíu og Króatíu. Og í þriðja lagi í útlán, en þau fara m.a. fram með vöru- og þjónustukaupalánum í gegnum fjölda seljenda. Í kjölfar kaupanna munu Ali Mazanderani og Daniela Mastrorocco taka sæti í stjórn Borgunar.

Um Salt Pay Co.
Salt Pay er alþjóðlegt greiðslumiðlunarfyrirtæki með starfsemi í fjórtán löndum. Fyrirtækið sérhæfir sig í vörum og þjónustu er tengjast vildarþjónustu og CRM lausnum. Núverandi starfsemi Salt Pay styður því vel við starfsemi Borgunar.
Forsvarsmenn Salt Pay hafa víðtæka reynslu af rekstri fyrirtækja í greiðslumiðlun og fjártækni.

Nánari upplýsingar veita:
Fjölmiðlar: Edda Hermannsdóttir, samskiptastjóri Íslandsbanka
pr@islandsbanki.is  og í síma 844-4005.

Fjárfestar: Margrét Lilja Hrafnkelsdóttir, fjárfestatengsl
ir@islandsbanki.is og í síma 844-4033.

Póstlisti Íslandsbanka
Ef þú vilt gerast áskrifandi að kauphallarfréttum Íslandsbanka þá vinsamlegast skráðu þig hér: https://www.islandsbanki.is/is/grein/postlisti_ir

Um Íslandsbanka
Íslandsbanki er leiðandi fjármálafyrirtæki á Íslandi með heildareignir að fjárhæð 1.199 milljarðar króna, eiginfjárhlutfall sem nam 22,4% og markaðshlutdeild á bilinu 25-40%  á innanlandsmarkaði í árslok 2019.
Með hlutverkið „saman erum við hreyfiafl til góðra verka svo að þú náir árangri” og framtíðarsýnina að vera #1 í þjónustu að leiðarljósi vinna þrjú viðskiptasvið þétt saman til þess að tryggja góð sambönd við viðskiptavini bankans.
Til að koma enn betur til móts við síbreytilegar þarfir viðskiptavina hefur Íslandsbanki þróað margvíslegar stafrænar lausnir svo sem app Íslandsbanka og Kass. Á sama tíma rekur bankinn skilvirkasta útibúanetið með 12 útibú staðsett á lykilstöðum um land allt.
Lánshæfismat Íslandsbanka er BBB/A-2 frá S&P Global Ratings. www.islandsbanki.is

Fyrirvari
Framangreind fréttatilkynning gæti vísað til spár um framtíðarhorfur sem er háð áhættu- og óvissuþáttum og getur þýtt að raunverulegur árangur verði umtalsvert frábrugðinn því sem spáð er í þessari fréttatilkynningu. Íslandsbanki hf. hefur ekki skyldu til að, og mun ekki, uppfæra þessar spár um framtíðarhorfur félagsins til að endurspegla atburði og aðstæður sem eiga sér stað eftir útgáfu þessarar fréttatilkynningar. Það er ábyrgð fjárfestis að reiða sig ekki seinna meir á spár um framtíðarhorfur sem eru settar fram í þessari  fréttatilkynningu  þar sem þær eiga eingöngu við á þeim tíma sem hún er gefin út.  Spár um framtíðarhorfur gefa ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur og eru allar yfirlýsingar um framtíðarhorfur félagsins fullgildar í heild sinni með tilliti til þessa fyrirvara.