English Icelandic
Birt: 2020-05-27 16:51:00 CEST
Lánamál ríkisins
Aðrar upplýsingar sem birtar eru í samræmi við reglur Kauphallarinnar

Ríkissjóður gefur út skuldabréf í evrum

 Ríkissjóður Íslands gaf í dag út skuldabréf að fjárhæð 500 milljónir evra, jafnvirði um 76 milljarða króna. Skuldabréfin bera 0,625% fasta vexti og voru gefin út til 6 ára á  ávöxtunarkröfunni 0,667%.

Fjárfestar sýndu útgáfunni mikinn áhuga og nam eftirspurn um 3,4 milljörðum evra eða nærri sjöfaldri fjárhæð útgáfunnar. Fjárfestahópurinn samanstendur af seðlabönkum og öðrum fagfjárfestum, aðallega frá Evrópu. Umsjón útgáfunnar var í höndum Citi,  JP Morgan og Morgan Stanley. 

„Þessi lántaka er staðfesting á greiðum aðgangi ríkissjóðs að fjármagni á alþjóðamörkuðum og sýnir tiltrú fjárfesta á þann viðnámsþrótt sem byggður hefur verið upp á síðustu árum. Hún eykur getu okkar til að mæta afleiðingum heimsfaraldurs kórónuveiru og endurspeglar mikinn styrk og getu til að sigrast á efnahagslegum afleiðingum hans.“ segir Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra. 

Í útboðsferlinu bötnuðu kjör ríkissjóðs um 30 punkta vegna mikillar eftirspurnar. Vel yfir 200 aðilar sýndu útgáfunni áhuga, eða um helmingi fleiri aðilar en í síðustu útgáfu ríkissjóðs, og heildareftirspurn nam um sjöfaldri útboðsfjárhæðinni.

„Útgáfan er í samræmi við stefnu ríkissjóðs í lánamálum, auðveldar aðgengi annarra innlendra aðila að erlendum lánsfjármörkuðum og staðfestir greiðan aðgang ríkissjóðs að stórum og fjölbreyttum hópi fjárfesta. Markaðir hafa verið líflegir að undanförnu enda eru mörg ríki í sömu sporum, að tryggja sér fjármagn til lengri tíma," segir Bjarni Benediktsson.