English Icelandic
Birt: 2020-05-06 18:24:15 CEST
Íslandsbanki hf.
Árshlutareikningur (Q1 og Q3)

Islandsbanki hf.: Afkoma fyrsta ársfjórðungs 2020

Afkoma fyrsta ársfjórðungs 2020

Helstu atriði í afkomu Íslandsbanka á fyrsta ársfjórðungi ársins 2020 (1F20)

  • Tap af rekstri Íslandsbanka var 1,4 ma. kr. á 1F20 samanborið við 2,6 ma. kr hagnað á 1F19 og arðsemi eigin fjár var -3,0% á ársgrundvelli samanborið við 5,9% á 1F19.

  • Hreinar vaxtatekjur voru 8,6 ma. kr. (1F19: 7,9 ma. kr.) sem er 8,1% hækkun milli ára og var vaxtamunur 2,8% (1F19: 2,7%).

  • Hreinar þóknanatekjur voru 2,5 ma. kr. (1F19: 2,6 ma. kr.) sem er 5,9% lækkun milli ára.

  • Virðisbreyting útlána var neikvæð um 3.490 m.kr. á tímabilinu samanborið við 907 m.kr. á 1F19.

  • Stjórnunarkostnaður lækkaði um 8,4% milli ára og nam 5,7 ma. kr. (1F19: 6,2 ma. kr.).

  • Kostnaðarhlutfall samstæðu á tímabilinu var 62,9% samanborið við 59,6% á sama tímabili 2019, en kostnaðarhlutfall móðurfélags var 61,5% samanborið við 58,1% á 1F19.

  • Útlán til viðskiptavina jukust um 2,7% á tímabilinu og voru 924 ma. kr. í lok 1F20. Ný útlán voru 57 ma. kr. á ársfjórðungnum samanborið við 51 ma. kr. á 1Q19. Endurfjármögnuð lán voru 16 ma. kr.
    Breytingin er að mestu tilkominn vegna veikingar íslensku krónunnar eða 20,8 ma. kr.

  • Innlán frá viðskiptavinum námu 648 ma. kr. í lok 1F20 sem er 4,8% aukning frá 2019.

  • Lausafjárstaða bankans er sterk, bæði í íslenskum krónum og erlendum gjaldmiðlum, og umfram kröfur eftirlitsaðila sem og innri viðmið.
    Lausafjárhlutfall (LCR) var 177% og hlutfall stöðugrar fjármögnunar (NSFR) var 120% í öllum gjaldmiðlum fyrir samstæðuna í lok mars.

  • Heildareiginfjárhlutfall bankans er sterkt og var 21,9% í lok mars, samanborið við 22,4% í lok árs 2019, sem er vel umfram 17% kröfu eftirlitsaðila. Eiginfjárhlutfall þáttar 1 var 19,2% á sama tíma samanborið við 19,9% í lok árs.

  • Vogunarhlutfall var 13,5% við lok 1F20 samanborið við 14,2% við lok árs 2019, sem telst hóflegt bæði í innlendum og erlendum samanburði.

  • Þrátt fyrir langtímastefnu Íslandsbanka hf. um 40-50% arðgreiðsluhlutfall var samþykkt á aðalfundi Íslandsbanka að ekki verði greiddur arður til hluthafa vegna ársins 2019 í ljósi óvissu af völdum fordæmalausra aðstæðna á fjármálamörkuðum.
    Jafnframt var samþykkt að stjórn bankans mætti kalla til sérstaks hluthafafundar síðar á árinu 2020 þar sem tillaga um greiðslu arðs af hagnaði fyrri rekstrarára kynni að vera lögð fram.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka

Íslandsbanki hefur með hlutverki sínu að vera hreyfiafl til góðra verka skuldbundið sig til að vinna náið með viðskiptavinum og styðja við þá í þeim áskorunum sem alheimsfaraldur veldur.
Nú þegar hafa aðgerðir eins og tímabundin frestun afborgana og vaxta af lánum verið kynntar. Ríkisstjórnin hefur einnig kynnt fjölmargar aðgerðir sem vinna gegn atvinnuleysi og tímabundnum tekjumissi og munu stuðla að viðspyrnu hagkerfisins þegar faraldurinn gengur niður.

Rekstrarniðurstaða Íslandsbanka á fjórðungnum er lituð af neikvæðri virðisrýrnun og tapi af veltubók verðbréfa og niðurfærsla eigna í fjárfestingarbók. Arðsemi eigin fjár er undir markmiði sem skýrist af aðstæðum í kjölfar COVID-19 faraldursins sem eiga sér enga hliðstæðu.
Það er þó ánægjulegt að sjá að rekstrarkostnaður á fyrsta ársfjórðungi lækkar um 8,4% á milli ára og einnig jukust vaxtatekjur um 8,1% á milli ára. Íslandsbanki hélt áfram að styðja við viðgang efnahagslífsins á fjórðungnum þar sem ný útlán námu 57 ma. kr.
Innlán jukust um 4,8% frá árslokum og eru enn sem áður meginstoð fjármögnunar bankans.

Fjárhagsstaða Íslandsbanka er sterk og eru lausafjárhlutföll í erlendum og innlendum gjaldmiðlum vel yfir innri og ytri markmiðum. Endurfjármögnunarþörf Íslandsbanka í erlendri mynt fyrir árið 2020 er lítil sem engin.
Eigið fé er hátt, eða 22,3%, sem gerir bankanum kleift að styðja við viðskiptavini sína.

Á fjórðungnum voru kynntar þrjár nýjar stafrænar lausnir sem auðvelda viðskiptavinum okkar lífið. Viðskiptavinir geta nú endurfjármagnað húsnæðislán sín með rafrænum hætti, stofnað til verðbréfaviðskipta á örfáum mínútum á vefnum og undirritað skjöl rafrænt þar sem það er heimilt.

Breyttar aðstæður í þjóðfélaginu vegna COVID-19 hafa valdið því að við höfum þurft að hugsa í lausnum gagnvart okkar viðskiptavinum. Við viljum þakka okkar viðskiptavinum fyrir að hafa aðlagast hratt að breyttum aðstæðum og sýnt þolinmæði á krefjandi tímum.
Starfsfólk bankans hefur stundað vinnu sína heima og sýnt mikla aðlögunarhæfni í breyttum aðstæðum.

Sterkur efnahagur heimila og fyrirtækja sem og styrkur íslenska bankakerfisins og mikil aðlögunarhæfni íslensks efnahagslífs gerir Íslendingum kleift að komast í gegnum atburði líðandi stundar.
Íslandsbanki kappkostar að veita viðskiptavinum Íslandsbanka bestu þjónustuna og með samvinnu og eldmóði höldum við áfram veginn.

Aðgerðir í kjölfar COVID-19  

  • Ríkisstjórnin hefur kynnt fjölda aðgerða til að stemma stigu við COVID-19 faraldrinum sem stuðla að því að vinna gegn atvinnuleysi, vernda fyrirtæki og viðhalda nýsköpun.

  • Seðlabankinn hefur brugðist við til að styðja við efnahagslífið og meðal annars lækkað stýrivexti og sveiflujöfnunarauka.

  • Nánar er fjallað um aðgerðir hins opinbera í fréttatilkynningu
  • Íslandsbanki hefur stutt við einstaklinga með því að heimila greiðslufresti á húsnæðislánum. Til þessa hafa yfir 1.000 umsóknir verið samþykktar.
    Viðskiptavinir eru hvattir til að nýta sér stafrænar lausnir, ráðgjöf er í boði í gegnum síma og sérstakt símanúmer er í boði fyrir eldri borgara.

  • Fyrirtæki hafa kost á tímabundinni frestun afborgana og vaxta of lánum í allt að sex mánuði. Þær taka mið af samkomulagi sem aðilar á lánamarkaði hafa gert með sér.
    Einnig hefur verið lögð áhersla á frumkvæðissímtöl til viðskiptavini til að hlusta á þeirra áskoranir og bjóða ráðgjöf ef við á. Úthlutun úr frumkvöðlasjóði Íslandsbanka mun fara fram fyrr en áætlað var.

  • Rafrænar undirritanir hafa gert bankanum kleift að veita viðskiptavinum hraðari þjónustu og minnkað þörf á heimsóknum í útibú. Einnig hefur stuðningur við notkun á rafrænum dreifileiðum skipt sköpum.

  • Útibú bankans hafa verið lokuð á meðan faraldurinn hefur staðið yfir, en þjónusta veitt viðskiptavinum sem þurfa þjónustu í vegna brýnna erinda. Útibúin munu opna aftur 11.maí.

  • Samfelldur rekstur hefur verið tryggður þar sem um 85% starfsfólks Íslandsbanka hefur unnið heima. Bæði er bankinn vel búinn tæknilausnum og starfsfólk með þekkingu og vilja til að nýta lausnirnar.

Fjárfestatengsl

Símafundur með fjárfestum á ensku kl. 9.30
Símafundur með markaðsaðilum vegna uppgjörs verður haldinn 7. maí kl. 9.30. Farið verður yfir helstu atriði í íslenskum efnahagsmálum, afkomu bankans og spurningum svarað. Fundurinn verður á ensku.
Vinsamlegast skráið ykkur á símafundinn með að senda póst á: ir@islandsbanki.is. Fundargögn og aðgangsorð vegna símafundar verða send út til skráðra aðila fyrir fundinn.

Öll gögn tengd uppgjöri ásamt upplýsingum um fjárhagsdagatal og þögul tímabil má finna hér: https://www.islandsbanki.is/is/flokkur/bankinn/fjarfestatengsl

Nánari upplýsingar veita:


Póstlisti Íslandsbanka
Ef þú vilt gerast áskrifandi að kauphallarfréttum Íslandsbanka þá vinsamlegast skráðu þig hér: https://www.islandsbanki.is/is/grein/postlisti_ir 

Um Íslandsbanka
Íslandsbanki er leiðandi fjármálafyrirtæki á Íslandi með heildareignir að fjárhæð 1.199 milljarðar króna, eiginfjárhlutfall sem nam 22,4% og markaðshlutdeild á bilinu 25-40% á innanlandsmarkaði í árslok 2019. Með hlutverkið „saman erum við hreyfiafl til góðra verka svo að þú náir árangri” og framtíðarsýnina að vera #1 í þjónustu að leiðarljósi vinna þrjú viðskiptasvið þétt saman til þess að tryggja góð sambönd við viðskiptavini bankans.
Til að koma enn betur til móts við síbreytilegar þarfir viðskiptavina hefur Íslandsbanki þróað margvíslegar stafrænar lausnir svo sem app Íslandsbanka og Kass. Á sama tíma rekur bankinn skilvirkasta útibúanetið með 14 útibú staðsett á lykilstöðum um land allt. Íslandsbanki hefur BBB/A-2 lánshæfismat frá S&P Global Ratings. www.islandsbanki.is

Fyrirvari
Framangreind fréttatilkynning gæti vísað til spár um framtíðarhorfur sem er háð áhættu- og óvissuþáttum og getur þýtt að raunverulegur árangur verði umtalsvert frábrugðinn því sem spáð er í þessari fréttatilkynningu. Íslandsbanki hf. hefur ekki skyldu til að, og mun ekki, uppfæra þessar spár um framtíðarhorfur félagsins til að endurspegla atburði og aðstæður sem eiga sér stað eftir útgáfu þessarar fréttatilkynningar. Það er ábyrgð fjárfestis að reiða sig ekki seinna meir á spár um framtíðarhorfur sem eru settar fram í þessari fréttatilkynningu þar sem þær eiga eingöngu við á þeim tíma sem hún er gefin út. Spár um framtíðarhorfur gefa ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur og eru allar yfirlýsingar um framtíðarhorfur félagsins fullgildar í heild sinni með tilliti til þessa fyrirvara.

Viðhengi


2020.05.06_ISB_Condensed Consolidated Interim Financial Statements_1Q2020.pdf
2020.05.06_ISB_Factsheet_1Q20.pdf
2020.05.06_ISB_Financial Factbook_1Q20.pdf
2020.05.06_ISB_Frettatilkynning_1Q20.pdf
2020.05.06_ISB_Investor Presentation_1Q20.pdf