Icelandic
Birt: 2020-03-24 17:33:26 CET
Brim hf.
Boðun hluthafafundar

Endanleg dagskrá og tillögur fyrir aðalfund Brims hf. 31. mars 2020

Aðalfundur Brims hf. verður haldinn þriðjudaginn 31. mars 2020 og hefst hann klukkan 17:00. Fundurinn fer fram á íslensku.

Dagskrá

  1. Skýrsla stjórnar félagsins um starfsemina síðastliðið ár.
  2. Endurskoðaður ársreikningur lagður fram til staðfestingar.
  3. Tillaga stjórnar um greiðslu arðs.
  4. Tillaga stjórnar um starfskjarastefnu.
  5. Ákvörðun um þóknun stjórnarmanna.
  6. Kosning stjórnar félagsins.
  7. Kosning endurskoðenda.
  8. Tillaga um að stjórn fái heimild til kaupa á eigin bréfum.
  9. Skýrsla stjórnar um kosti og galla tilnefningarnefnda skv. samþykkt síðasta aðalfundar
  10. Tillaga stjórnar vegna samþykktar á hluthafafundi 12. desember 2019 um að fela stjórn félagsins að leggja fram til samþykktar eða synjunar tillögur sem miða að því að auka möguleika erlendra aðila til óbeinnar fjárfestingar í félaginu.
  11. Önnur mál, löglega upp borin.

Þar sem heilbrigðisráðherra hefur ákveðið, í samræmi við tillögu sóttvarnarlæknis, að takmarka samkomur vegna útbreiðslu Covid-19 veirunnar hefur verið lagt bann við því að halda fjölmennan fund. Því hafa forsendur breyst verulega frá því að aðalfundur Brims hf. var auglýstur og ekki lengur tækt að safna hluthöfum saman til fundar á einn stað. Í ljósi þess og ábendingum frá hluthöfum félagsins  beinir stjórnin því til hluthafa að mæta ekki á aðalfundinn heldur kjósa fyrirfram skriflega um tillögur fundarins og fela fundarstjóra umboð til að kjósa á fundinum fyrir sína hönd. Gert er ráð fyrir að einungis mæti á fundarstað starfsmenn fundarins, forstjóri og stjórnarformaður.

Skrifleg kosning

Eyðublað fyrir skriflega kosningu og leiðbeiningar er að finna á heimasíðu félagsins: https://www.brim.is/brim/fjarfestar/adalfundur2020/ . Skulu hluthafar senda útfyllt eyðublöð á netfangið: adalfundur@brim.is og verður tekið við þeim þar til fundurinn hefst kl. 17:00 á aðalfundardaginn.

Skriflegt umboð

Jafnframt má senda þeim sem koma til með að sitja fundinn umboð með saman hætti og greinir hér að framan. Eyðublað  og leiðbeiningar um það er að finna á heimasíðu félagsins: https://www.brim.is/brim/fjarfestar/adalfundur2020/
 Frestur hluthafa til að senda félaginu umboð og skrifleg atkvæði er þar til fundurinn hefst kl. 17:00 á aðalfundardaginn á netfangið: adalfundur@brim.is

Fundurinn verður sendur út gegnum heimasíðu félagsins: https://www.brim.is/brim/fjarfestar/adalfundur2020/ Þar verður útbúinn sérstakur hlekkur áður en fundur hefst. Aðgangsorð inná fundinn verður sent við móttöku atkvæðaseðils með umboði.

Nánari upplýsingar veita:
Inga Jóna Friðgeirsdóttir, fjármálastjóri í síma 858-1170 eða á netfangið ingajona@brim.is
Jón Þór Andrésson í síma 858-1030 eða á netfangið jonthor@brim.is

Tillögur

Tillaga um greiðslu arðs

„Stjórn félagsins leggur til að á árinu 2020 verði vegna rekstrarársins 2019 greiddar 1,0 kr. á hlut í arð til hluthafa, eða 1.899 millj. kr. (um 14,0 millj. evra á lokagengi ársins 2019), eða 2,6% af markaðsvirði hlutafjár í lok árs 2019.  Arðurinn verði greiddur 30. apríl 2020.  Síðasti viðskiptadagur þar sem arður fylgir bréfunum er 31. mars 2020 og arðleysisdagur því  1. apríl 2020.

Arðsréttindadagur er 2. apríl 2020.  Arður greiðist þeim sem skráðir eru í hlutaskrá félagsins í lok arðsréttindadags.“

Tillaga félagsstjórnar um starfskjarastefnu

Sjá viðhengi.

Tillaga um þóknun til stjórnarmanna

„Stjórn félagsins leggur til að þóknun næsta árs til stjórnarmanna verði 300.000 kr. á mánuði, varaformaður fái einn og hálfan hlut og formaður tvöfaldan hlut.“

Kosning endurskoðanda

Stjórn félagsins leggur til að Deloitte ehf. verði kjörið endurskoðandi félagsins.         

Tillaga um að stjórn fái heimild til kaupa á eigin hlutum

„Aðalfundur veitir stjórn félagsins heimild til að kaupa eigin hluti í félaginu. Heimild þessi stendur í 18 mánuði og takmarkast við að samanlögð kaup fari ekki yfir 10% af heildarhlutafé félagsins á hverjum tíma. Kaupgengi má eigi vera hærra en í síðustu óháðu viðskiptum eða hæsta fyrirliggjandi óháða kauptilboð í þeim viðskiptakerfum þar sem viðskipti með hlutina fara fram, hvort sem hærra er. Aðrar eldri heimildir til kaupa á eigin bréfum falla úr gildi við samþykkt heimildar þessarar.“

Skýrsla stjórnar um kosti og galla tilnefningarnefndar skv. samþykkt síðasta aðalfundar

„Stjórn félagsins leggur til að halda áfram að vega og meta kosti og galla tilnefningarnefnda sem og að fylgjast með framkvæmdinni hjá öðrum skráðum félögum. Því telur stjórn ekki rétt á þessum tímapunkti að leggja til við hluthafafund að koma á fót tilnefningarnefnd.“

Meðfylgjandi er skýrsla stjórnar vegna tilnefningarnefnda.

Tillaga vegna samþykktar á hluthafafundi 12. desember 2019

„Stjórn félagsins leggur til að stjórn félagins verði falið að kanna nánar þær leiðir sem nefndar eru í niðurstöðu hluthafafundar félagsins frá 12. desember 2019 og að þeirri athugun lokinni, að leggja fram tillögur fyrir hluthafafund félagsins um þær.“

Framboð til stjórnar

Hluthöfum er bent á að skv. 63. gr. hlutafélagalaga skal tilkynna skriflega, minnst fimm dögum fyrir hluthafafund, um framboð til stjórnar. Framboðum skal skila á skrifstofu Brims, Norðurgarði 1 eða á netfangið adalfundur@brim.is.

Tilkynnt verður um framkomin framboð tveimur dögum fyrir aðalfundinn.

Aðrar upplýsingar

Á hluthafafundum fylgir eitt atkvæði hverri einni krónu í hlutafé.  Eigin bréf félagsins njóta ekki atkvæðisréttar.

Heildarhlutafé félagsins nemur kr. 1.955.979.606 og fylgir eitt atkvæði hverjum hlut. Eigin bréf félagins eru nú kr. 56.999.853 og virkt hlutafé félagins því 1.898.979.753.

Dagskrá og öll skjöl sem lögð verða fyrir aðalfundinn, þ.m.t. ársreikningur félagsins og tillögur eru hluthöfum tiltæk á íslensku og á heimasíðu félagsins.

Allar nánari upplýsingar um aðalfundinn má finna á vefsíðu félagsins https://www.brim.is/brim/fjarfestar/adalfundur2020/

Reykjavík 24. mars 2020

Stjórn Brims hf.

Viðhengi


Atkvaseill_umbo.pdf
Skyrsla vegna tilnefningarnefnda.pdf
Tillaga felagsstjornar a starfskjarastefnu.pdf