English Icelandic
Birt: 2020-03-17 20:28:57 CET
Arion banki hf.
Niðurstöður hluthafafundar

Aðalfundur Arion banka 2020

Aðalfundur Arion banka 2020 var haldinn í dag, þriðjudaginn 17. mars, í höfuðstöðvum bankans í Borgartúni. Á dagskrá fundarins voru hefðbundin aðalfundarstörf þar sem ársreikningur bankans var samþykktur. Einnig var starfskjarastefna bankans samþykkt, breytingar á starfsreglum tilnefningarnefndar og breytingar á samþykktum bankans. Jafnframt var ákveðið að Deloitte ehf. gegni áfram hlutverki sínu sem endurskoðandi Arion banka.

Á fundinum voru eftirfarandi aðilar endurkjörnir í stjórn í samræmi við tillögu tilnefningarnefndar: Brynjólfur Bjarnason, Herdís Dröfn Fjeldsted, Gunnar Sturluson, Liv Fiksdahl, Paul Richard Horner, Renier Lemmens og Steinunn Kristín Þórðardóttir. Brynjólfur Bjarnason var endurkjörinn formaður stjórnar og Herdís Dröfn Fjeldsted endurkjörin varaformaður. Ólafur Örn Svansson, Sigurbjörg Ásta Jónsdóttir og Þröstur Ríkharðsson voru endurkjörin varamenn í stjórn. Júlíus Þorfinnsson var kjörinn nýr í tilnefningarnefnd bankans og Sam Taylor var endurkjörinn í tilnefningarnefnd. Breytingar voru samþykktar á launum stjórnar og tilnefningarnefndar sem fela í sér um 3% hækkun á milli ára.

Tillaga stjórnar um arðgreiðslu var frestað um tvo mánuði að beiðni hluthafa sem ráða yfir meira en þriðjungi hlutafjár bankans. Frestunin er í takt við tilmæli Seðlabanka Íslands um að fjármálafyrirtæki endurskoði arðgreiðslutillögur í ljósi óvissu í efnahagsumhverfinu vegna COVID-19.

Stjórn var veitt heimild til að samþykkja kaupréttaráætlun og gera kaupréttarsamninga við starfsfólk Arion banka um kaup á hlutum í bankanum að fjárhæð allt að 600.000 kr. að markaðsvirði á ári hverju næstu fimm ár. Jafnframt var stjórn veitt heimild fram til aðalfundar árið 2022 til að gefa út áskriftarréttindi fyrir allt að 54.000.000 nýjum hlutum í félaginu. Stjórn er heimilt í fimm ár að framkvæma nauðsynlega hlutafjárhækkun í tengslum við nýtingu áskriftarréttinda.

Fundurinn samþykkti að lækka hlutafé bankans um 84.000.000 kr. að nafnvirði til jöfnunar eigin hluta, úr 1.814.000.000 kr. í 1.730.000.000 kr. að nafnvirði. Heimild til stjórnar til að kaupa allt að 10% af hlutafé bankans var endurnýjuð.

Nánar má lesa um samþykktir aðalfundar á vef bankans.

Skýrsla stjórnar 2019
Brynjólfur Bjarnason, stjórnarformaður Arion banka, flutti skýrslu stjórnar. Eftirfarandi er úr hans skýrslu:

„Á svona tímum erum við sem störfum í fjármálakerfinu minnt á mikilvægt hlutverk banka. Þeir stuðla að atvinnusköpun, hagvexti og fjölbreyttu efnahagslífi. Í ljósi aðstæðna nú þurfa bankar að koma til móts við viðskiptavini sína – heimilin og fyrirtækin. Arion banki hefur kynnt úrræði fyrir heimilin til að mæta fyrirsjáanlegum erfiðleikum vegna Covid-19 og í tilfelli fyrirtækja munum við gera það sem þarf til að aðstoða þau fyrirtæki sem hafa átt gott viðskiptasamband við bankann en lenda nú í tímabundnum erfiðleikum. Við sem samfélag njótum þess í dag að fjármálakerfið hefur á undanförnum árum verið byggt upp þannig að það geti tekist á við áföll. Arion banki er þar engin undantekning. Fjárhagslegur styrkur bankans er mikill og bankinn reiðubúinn að styðja við viðskiptavini sína.”

„Margvíslegar breytingar hafa átt sér stað á undanförnum áratug á því regluverki sem fjármálafyrirtæki starfa eftir. Þær breytingar byggja að miklu leyti á tilskipunum Evrópusambandsins og innleiðingu þeirra í íslensk lög. Við þá innleiðingu settu íslensk stjórnvöld ýmis íþyngjandi sérákvæði, vegna aðstæðna sem uppi voru hér á landi á sínum tíma – og njótum við í dag góðs af mörgum þeirra. Hins vegar eru hér á landi lagðir ofurskattar á fjármálafyrirtæki langt umfram það sem þekkist í Evrópu. Um er að ræða skatta eins og  sérstakan fjársýsluskatt og bankaskatt. Þrátt fyrir fyrirhugaða lækkun bankaskattsins verður hann enn margfaldur á við það sem þekkist annars staðar í Evrópu. Þessir sérstöku skattar tengjast ekki tekjum eða hagnaði heldur kostnaði og leggjast t.a.m. á fjármögnun og launakostnað. 

Það er einfaldlega svo að sértækir íslenskir skattar auka rekstrarkostnað íslenskra banka og veikja samkeppnisstöðu þeirra gagnvart öðrum lánveitendum. Stefna stjórnvalda leiðir þannig með beinum hætti til þess að lánakjör sem innlendir bankar bjóða eru óhagstæðari en ella sem aftur hefur neikvæð áhrif á hagvöxt og atvinnusköpun – og gerir bönkum erfiðara fyrir að styðja við viðskiptavini sína. Ýmsar aðgerðir stjórnvalda á undanförnum áratug hamla þannig útlánagetu íslenskra banka og draga úr getu þeirra til að styðja við verðmætasköpun og atvinnulífið.  Stjórnvöld þurfa því – og ekki síst nú þegar verulega þrengir að hjá íslenskum fyrirtækjum – að endurskoða sína stefnu og horfa til hlutverks banka í að stuðla að fjölbreyttu atvinnulífi, velsæld og lífsgæðum hér á landi.“

„Til nokkurs er að vinna með að gera íslenskum bönkum kleift að vinna saman í ríkari mæli þegar kemur að innviðum eins og upplýsingatækni, vörnum gegn peningaþvætti og rekstri hraðbanka, án þess að það hafi neikvæð áhrif á samkeppni þeirra á milli. Það felst mikil sóun í því að örþjóð eins og Ísland haldi úti þreföldu kerfi – þreföldum innviðum. Við þurfum að skapa hér aðstæður þar sem samstarf um innviði er litið jákvæðum augum en ekki hornauga. Kerfislega mikilvæg fyrirtæki eiga að vinna saman að innviðauppbyggingu öllum til hagsbóta, með blessun samkeppnisyfirvalda og án þess að eiga það á hættu að fá á sig ávirðingar og fjársektir síðar meir.“

Brynjólfur lauk máli sínu með því að þakka Höskuldi H. Ólafssyni, sem gegndi starfi bankastjóra í níu ár, sem og þeim framkvæmdastjórum og því starfsfólki sem hélt á ný mið á árinu mikilvægt framlag til bankans og uppbyggingar hans á undanförnum árum. Jafnframt þakkaði hann starfsfólki Arion banka, stjórnendum og stjórn fyrir gott samstarf á árinu og óskaði öllum góðs gengis á þessum sérstöku tímum.

Uppgjör Arion banka á árinu 2019
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, hóf mál sitt á að fara yfir stöðu efnahagsmála hér á landi og þann samdrátt sem blasir við vegna Covid-19 veirunnar. Benedikt telur að áhrifin geti orðið umtalsverð hér á landi vegna vægis ferðaþjónustunnar. Hann lagði þó áherslu á það í máli sínu að íslenskt efnahagslíf og ekki síst fjármálakerfið væru vel í stakk búin að takast á við verkefnið. Benedikt benti á að Seðlabankinn eigi í dag gjaldeyrisvaraforða upp á 800 milljarða króna og hefði fjölda tækja til að styðja við efnahagslífið. Íslenskt fjármálakerfi standi sterkara en nokkru sinni enda hafi það á síðasta áratug verið byggt upp til að geta tekist á við áföll sem þetta. Eiginfjárhlutföll fjármálafyrirtækja eru yfir 20%, sem í öllu samhengi telst mjög hátt og lausafjárstaða vel yfir viðmiðunum. Jafnframt er skuldastaða heimila, fyrirtækja og ríkisins sögulega lág og íslenska ríkið rekið með afgangi síðust ár. Benedikt fór jafnframt ítarlega yfir lánasafn bankans, veðhlutföll og tryggingastöðu, hlut ferðaþjónustunnar í útlánaáhættu bankans og þróun safnsins á síðustu árum.

Benedikt gerði grein fyrir afkomu og starfsemi Arion banka á árinu 2019 og sagði árið um margt hafa einkennst af breytingum á yfirstjórn og skipulagi bankans. Sagði Benedikt að jákvæðra áhrifa breytinganna hafi gætt á afkomu fjórða ársfjórðungs, bæði á tekju- og kostnaðarhliðinni. Hagnaður af áframhaldandi starfsemi bankans var um 14 milljarðar króna ár árinu 2019 og arðsemi 7,2%. Félög sem bankinn er með í söluferli höfðu aftur á móti neikvæð áhrif á afkomu ársins sem var aðeins um 1,1 milljarður króna. Efnahagur bankans dróst saman á árinu í takt við nýjar áherslur í útlánastarfsemi þar sem ríkari áhersla er lögð á arðsemi en vöxt. Benedikt nefndi sérstaklega mikilvægi eignastýringar í starfsemi bankans en eignastýring Arion banka ásamt Stefni, dótturfélagi bankans, er sem fyrr leiðandi hér á landi með um 1.013 milljarða króna í stýringu í árslok. Árið 2019 var hagfellt og almennt góð ávöxtun eigna í stýringu. Jafnframt kom Benedikt inn á það að Arion banki aðstoðaði Marel þegar fyrirtækið var skráð í kauphöllina í Amsterdam og sá um vel heppnað hlutafjárútboð TM. Fjórða árið í röð var Arion banki með mestu veltuna í kauphöllinni þegar kemur að hlutabréfaviðskiptum.

Benedikt sagði jafnframt frá því að stjórn Arion banka hefði í desember samþykkt metnaðarfulla umhverfis- og loftslagsstefnu og markmið fyrir næstu ár. Í stefnunni felst viðurkenning á því að fjármálafyrirtæki gegna mikilvægu hlutverki í að sporna gegn loftlagsbreytingum með lánveitingum sínum og fjárfestingum og að bankinn vilji leggja sitt af mörkum til að Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart Parísarsamkomulaginu og öðrum innlendum og erlendum loftslagssáttmálum. 

Benedikt ræddi að auki mikilvægi stafrænna og snertilausra lausna og ekki síst í dag þegar við sem samfélag glímum við útbreiðslu Covid-19. Hann sagði stafrænar lausnir gegna mikilvægu hlutverki í þjónustuframboði og framtíðarsýn bankans.

Nánari upplýsingar um aðalfund Arion banka hf. má nálgast á vef bankans og hjá Theódóri Friðbertssyni, forstöðumanni fjárfestatengsla Arion banka, theodor.fridbertsson@arionbanki.is, s. 856 6760, og Haraldi Guðna Eiðssyni, forstöðumanni samskiptasviðs Arion banka, haraldur.eidsson@arionbanki.is, s: 856 7108.

Viðhengi


Avarp stjornarformanns.pdf
Avarp stjornarformanns.pdf
Kynning bankastjora_CEO presentation.pdf