Published: 2020-02-20 17:01:33 CET
Síminn hf.
Ársreikningur

Síminn hf. - Tekjur aukast um 4,7%

4F 2019

Samanburðarfjárhæðir á fjórða ársfjórðungi 2018 hafa verið uppfærðar í samræmi við breytta meðhöndlun á sýningarrétti sjónvarpsefnis.

  • Tekjur á fjórða ársfjórðungi (4F) 2019 námu 7.896 milljónum króna samanborið við 7.544 milljónir króna á sama tímabili 2018 og hækka um 4,7% milli tímabila.
  • Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði EBITDA nam 2.728 milljónum króna á 4F 2019 samanborið við 2.124 milljónir króna á sama tímabili 2018 og hækkar því um 604 milljónir króna eða 28,4% frá sama tímabili í fyrra. EBITDA hlutfallið er 34,5% fyrir fjórða ársfjórðung 2019 en var 28,2% á sama tímabili 2018. Að teknu tilliti til breytinga vegna IFRS 16 þá nam EBITDA á 4F 2018 2.586 milljónum króna og EBITDA hlutfall  var 34,3%.
  • Hagnaður á 4F 2019 nam 760 milljónum króna samanborið við 2.436 milljónir króna tap á sama tímabili 2018. Á 4F 2018 var viðskiptavild afskrifuð um 2.990 milljónir króna sem skýrir tap á 4F 2018. Án afskriftar hefði hagnaður á 4F 2018 verið 554 milljónir króna.
  • Handbært fé frá rekstri án vaxta og skatta nam 2.092 milljónum króna á 4F 2019 en var 2.333 milljónir króna á sama tímabili 2018. Eftir vexti og skatta nam handbært fé frá rekstri 1.471 milljón króna á 4F 2019 en 2.184 milljónum króna á sama tímabili 2018.
  • Vaxtaberandi skuldir námu 16,2 milljörðum króna í árslok 2019 en voru 17,2 milljarðar króna í árslok 2018. Hreinar vaxtaberandi skuldir voru 16,0 milljarðar króna í árslok 2019 sem er sambærilegt við stöðu í árslok 2018.
  • Hrein fjármagnsgjöld námu 231 milljón króna á 4F 2019 en voru 205 milljónir króna á sama tímabili 2018 þar af eru áhrif af breytingum vegna IFRS 16 66 milljónir króna á 4F 2019. Fjármagnsgjöld námu 274 milljónum króna, fjármunatekjur voru 45 milljónir króna og gengistap var 2 milljónir króna.
  • Eiginfjárhlutfall Símans hf. var 55,9% í lok árs 2019 og eigið fé 36,6 milljarðar króna.

Orri Hauksson, forstjóri:

„Rekstur Símasamstæðunnar var traustur í fyrra og efldist eftir því sem leið á árið. Sala á helstu þjónustuþáttum okkar var vel ásættanleg og munar miklu að Síminn höfðar á ný til yngri kynslóða. Því til viðbótar jókst eftirspurn eftir upplýsingatæknivörum Sensa á síðasta fjórðungnum. Slíkan vöxt má þó ekki framreikna til næstu ársfjórðunga, þar sem sala, innleiðing og ráðgjöf í upplýsingatækni getur verið sveiflukennd.

Sjónvarpsþjónusta Símans var í talsverðri sókn í fyrra, sérstaklega á síðari hluta ársins. Slíkur vöxtur var að stórum hluta fyrirséður þar sem áhrifa af nýrri vöru Símans, Síminn Sport naut í fyrsta sinn allan fjórðunginn. Þó er annað sjónvarp en fótbolti sem viðskiptavinir okkar verja mestum tíma í að horfa á. Vinsælast er íslenskt efni, barnaefni og erlent raunveruleikasjónvarp um ungt fólk í leit að ástinni. Í janúar 2020 var svo komið að fjöldi stakra spilana í Sjónvarpi Símans Premium var í heild yfir milljón á viku, sem er nýtt met og sýnir áhugann á fjölbreyttu efnisframboði Símans. Fjárfestingar í ljósleiðara hjálpuðu tekjum í gagnaflutningi að vaxa með sínum markvissa rólega takti og tekjur farsímaþjónustu á einstaklingsmarkaði eru komnar í gott jafnvægi á ný eftir miklar breytingar síðustu ár, svo sem í heildsölu og reiki. Áfram er þó barist hart um viðskiptavini í fjarskiptum, sérstaklega á fyrirtækjamarkaði.

Síminn hélt aftur af kostnaði á árinu með ýmsum ráðstöfunum. Launakostnaður er langstærsti einstaki kostnaðarliður félagsins, en stöðugildum fækkaði um 52 milli ára. Ánægja viðskipta­vina jókst á sama tíma markvert samkvæmt Íslensku ánægjuvoginni, ásamt því að mælingar frá öðrum aðilum sýna sömu jákvæðu þróunina um mat viðskiptavina á þjónustu félagsins, sem gleður okkur mjög. Margir samverkandi þættir skapa þennan árangur. Má þar nefna aukinn stöðugleika í rekstri grunnkerfa, nýtt þjónustuapp Símans sem auðveldar sjálfsafgreiðslu og ýmsar ráðstafanir til að minnka ófyrirséðan kostnað viðskiptavina. 4G farsímakerfi okkar nær nú til 99,4% heimila landsins og áfram heldur þróunin yfir í 5G. Síminn stefnir þannig markvisst að áframhaldandi aukningu í ánægju viðskiptavina. Áherslan árið 2020 er meðal annars að treysta enn betur áreiðanleika þjónustu til handa núverandi viðskiptavinum og bjóða upp á ýmsar nýjungar í sjónvarpi.

Fjarskiptakerfi samstæðunnar stóðust vel próf óveðranna og rafmagnsleysisins fyrir jól. Tæknifólk okkar var vel undirbúið, enda vond veður engin nýlunda á Íslandi. Varaafl sem við höfum sjálf yfir að ráða, ásamt nýtingu slíks afls hjá hýsingaraðilum, sá til þess að fjarskipti héldust að mestu virk í þéttbýli. Eins og þekkt er þvarr afl á nokkrum svæðum, sem slökkti á búnaði. Verja þurfti tugum milljóna í ófyrirséð útgjöld í desember til að tryggja betur samband víða um land og halda grunnfjarskiptum gangandi. Fjarskiptafélögin ásamt Neyðarlínunni og Ríkisútvarpinu hafa nú stofnað til samstarfs um að styrkja fjarskipti í byggðakjörnum og dreifðari byggðum. Þar við bætist að Síminn, Sýn og Nova hafa hleypt af stokkunum viðræðum um mögulegt samstarf um fjarskiptainnviði í víðum skilningi. Markmiðið er að nýta fjárfestingafé næstu missera og ára á sem hagkvæmastan hátt og skoða hvort og hvernig hægt sé að samnýta núverandi og komandi innviði. Þá verður athugað að flýta uppbyggingu á nýrri tækni, auka almannaöryggi, minnka sóun og draga úr umhverfisraski við framkvæmdir.

Ljósleiðaravæðing Mílu gekk vel á síðasta ári og 17 þúsund ný heimili gátu tengst við ljósleiðara Mílu. Aukning í ljósleiðaratengingum var sérstaklega mikil úti á landi, sem er ný og jákvæð þróun. Ljósleiðari Mílu nær nú til meirihluta heimila landsins og fjárfestingar í lagningu slíkra tenginga hafa náð hámarki. Mun draga úr þeim á þessu ári og aftur á því næsta. Eftirspurn eftir sérfræðiþjónustu Sensa í skýjalausnum jókst hröðum skrefum á síðasta ári. Félagið hefur nú keypt upplýsingatæknifélagið HUX til að styðja enn frekar við lausnaframboð á því sviði, svo sem í gervigreind, öryggi og flæði gagna í skýinu.

Í heild kemur samstæðan því sterk til leiks árið 2020. Þrátt fyrir kólnandi efnahag landsins spá stjórnendur bættri EBITDA framlegð milli ára og sterkara fjárflæði.“

Nánari upplýsingar um uppgjörið veita:

Orri Hauksson, forstjóri Símans, s. 550 6003 (orri@siminn.is)

Óskar Hauksson, fjármálastjóri Símans, s. 550 6003 (oskarh@siminn.is)


Viðhengi


Síminn 31.12.2019.pdf
Síminn hf - Afkomutilkynning 4F 2019.pdf
Fjárfestakynning 4F 2019.pdf