Published: 2020-02-05 13:29:04 CET
Sýn hf.
Innherjaupplýsingar

Sýn hf.: Virðisrýrnun viðskiptavildar

Í tengslum við gerð ársreiknings fyrir árið 2019 hjá Sýn hf., sem nú er unnið að, komu fram vísbendingar um að færa þyrfti niður viðskiptavild vegna kaupa á eignum og rekstri 365 miðla. Í samræmi við kröfur reikningsskilastaðla hefur verið framkvæmt virðisrýrnunarpróf sem gefur þá niðurstöðu að færa þurfi niður viðskiptavild félagsins um 2.500 milljónir króna.

„Við erum að hreinsa úr efnahagsreikningi áhrif sem byggðu ekki á raunhæfum áætlunum.  Þetta hefur engin áhrif á reksturinn, hvorki í dag né í framtíðinni, heldur er einungis til merkis um að við viljum gera efnahagsreikninginn heilbrigðari.  Þeir sem greina fyrirtækið eru löngu búnir að átta sig á þessu en nú er verið að uppfæra efnahagsreikninginn í takt við raunhæf rekstrarplön.“ Segir Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar.

Við framkvæmd virðisrýrnunarprófs var endurheimtanlegt virði metið út frá nýtingarvirði. Nýtingarvirðið byggir á nokkrum meginforsendum sem innihalda mat stjórnenda á framtíðarhorfum sjóðskapandi eininga þar sem stuðst er við sögulega þróun og mat á framtíðarhorfum. Lykilforsendur á bak við mat á virðisrýrnunni eru hægari framgangur samlegðar í sameinuðum rekstri félaganna og breytingar á samkeppnismarkaði félagsins.

Stjórnendur félagsins hafa farið í ýmsar aðgerðir síðustu mánuði til takast á við þær tímabundnu áskoranir sem hafa verið í rekstri félagsins m.a. með endurgerð á stefnu félagsins, innra skipulagi, innri ferlum og hagræðingaraðgerðum. Þessum verkefnum verður haldið áfram á árinu 2020 til að leggja grunn að viðsnúningi í rekstrinum og auknum samlegðaráhrifum.  

Niðurfærslan er eingöngu reikningshaldsleg og hefur ekki áhrif á sjóðstöðu félagsins, sjóðstreymi þess eða lánaskilmála. Þá hefur niðurfærslan engin áhrif á framtíðarhorfur eða stefnu félagsins. Niðurfærslan mun hafa þau áhrif að viðskiptavild félagsins er færð úr 10.646 milljónum króna í 8.146 milljónir króna og lækkar viðskiptavild sem því nemur. Miðað við bráðabirgðauppgjör félagsins fyrir árið 2019 þá mun EBITDA félagsins vera nálægt 5.505 milljónir króna og tekjur félagsins 19.810 milljónir króna. Afkoma félagsins og eigið fé lækka sem nemur afskriftinni.

Rétt er að benda á að um bráðabirgðatölur er að ræða hér að ofan þar sem unnið er að endurskoðun á ársreikningi félagsins. Þrátt fyrir það er það mat stjórnenda að ekki munu verða verulegar breytingar á bráðabirgðafjárhæðum.

Nánari upplýsingar veitir Fjárfestatengill: fjarfestatengsl@syn.is