English Icelandic
Birt: 2020-01-07 17:38:19 CET
TM hf.
Innherjaupplýsingar

TM lýkur við kaup á Lykli

Þann 21. júlí sl. gekk TM hf. (TM)  til einkaviðræðna við Klakka ehf., eiganda Lykils fjármögnunar hf. (Lykill), um kaup TM á öllum eignarhlutum í Lykli. Þeim viðræðum lauk þann 10. október sl. með undirritun samnings um kaup á 100% hlutafjár í Lykli. Kaupverðið er 9.250 m.kr. auk hagnaðar Lykils á árinu 2019, sem TM greiðir seljanda.

Viðskiptin voru háð þremur fyrirvörum; samþykki hluthafafundar TM, samþykki Fjármálaeftirlitsins og samþykki Samkeppniseftirlitsins. Kaupin voru samþykkt á hluthafafundi í TM þann 13. nóvember sl., af hálfu Samkeppniseftirlitsins þann 15. nóvember sl. og þann 23. desember sl. féllst Fjármálaeftirlitið á að TM færi með virkan eignarhlut í Lykli. Öllum fyrirvörum hefur því verið aflétt.

Í dag, 7. janúar 2020, var lokið við kaupin með greiðslu kaupverðsins, að undanskildu því sem nemur hagnaði Lykils árið 2019 og Lykill því orðinn hluti af samstæðu TM.

Kaupin á Lykli eru í samræmi við stefnu TM og eftirleiðis mun starfsemi félagsins skiptast í þrjár jafn mikilvægar stoðir, vátryggingar, fjármögnun og fjárfestingar. Fjölmörg tækifæri felast í kaupunum til að bæta arðsemi, ná fram samlegðaráhrifum í tekjum og kostnaði, fjölga fjármögnunarkostum, lækka fjármagnskostnað og gera fjármagnsskipan hagkvæmari. Margvísleg samþættingarverkefni til að ná markmiðum um samlegðaráhrif eru þegar hafin.

Starfsemi Lykils verður á næstu vikum færð í höfuðstöðvar TM að Síðumúla 24 og stefnt er að því að öll starfsemi verði komin þangað í febrúar.

Ráðgjafar TM í viðskiptunum voru BBA // Fjeldco, Deloitte og KPMG.

Sigurður Viðarsson, forstjóri TM:

„Það er góð byrjun á árinu að stíga það skref að ljúka við kaupin á Lykli eins og stefnt var að. Kaupin munu styrkja samstæðuna, auka hagnað til hluthafa og skapa spennandi tækifæri í vátrygginga- og fjármálaþjónustu á næstu misserum. Við erum þakklát fyrir þann stuðning sem við fengum frá hluthöfum í ferlinu og hlökkum til næstu skrefa í þróun samstæðunnar. Það er skemmtileg áskorun að leiða saman þessi tvö félög og markmið okkar er að nýta styrkleika hvors fyrir sig og með öflugum hópi starfsmanna sækja fram í fjármálaþjónustu til einstaklinga og fyrirtækja. Það eru spennandi tímar framundan.“

Jón Örn Guðmundsson, forstjóri Klakka:

„Þetta eru tímamót í sögu félags sem á meira en þriggja áratuga langa sögu í fjármögnun bíla- og atvinnutækja hér á landi. Lykill er mjög sterkt félag á íslenskum fjármögnunarmarkaði og það er ánægjulegt fyrir alla sem komu að endurskipulagningu þess á sínum tíma að sjá það vaxa og dafna. Þessi niðurstaða er góð fyrir kröfuhafa og hluthafa Klakka. Hún er auk þess ánægjuleg fyrir starfsfólk Lykils sem fær nú framtíðareiganda og hefur nýja og spennandi vegferð með TM. Þá munu viðskiptavinir TM og Lykils í kjölfar viðskiptanna fá aðgang að enn fjölbreyttari þjónustu tengdri bílatryggingum og fjármögnun, allri á einum stað.“