English Icelandic
Birt: 2019-11-22 15:38:21 CET
Landsvirkjun
Árshlutareikningur (Q1 og Q3)

Níu mánaða uppgjör Landsvirkjunar

Sterkur efnahagur í erfiðum ytri aðstæðum

Helstu atriði árshlutareiknings

  • Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði nam 127,6 milljónum USD (15,8 ma.kr.), en var 133,4 milljónir USD á sama tímabili árið áður og lækkar því um 4,4% milli tímabila.
  • Hagnaður tímabilsins var 89,0 milljónir USD (11,0 ma.kr.) en var 89,3 milljónir USD á sama tímabili árið áður.
  • Rekstrartekjur námu 372,4 milljónum USD (46,2 ma.kr.) og lækka um 26,4 milljónir USD (6,6%) frá sama tímabili árið áður.
  • Nettó skuldir lækkuðu um 171,8 milljónir USD (21,3 ma.kr.) frá áramótum og voru í lok september 1.712,8 milljónir USD (212,4 ma.kr.). 
  • Handbært fé frá rekstri nam 222,4 milljónum USD (27,6 ma.kr.) sem er 0,1% lækkun frá sama tímabili árið áður.


Hörður Arnarson, forstjóri:

„Rekstur aflstöðva gekk almennt vel á fyrstu níu mánuðum ársins. Gengið hefur vel að bæta nýjustu aflstöðvunum Búrfellsstöð II og Þeistareykjastöð við raforkukerfið og hlaut sú síðarnefnda nýlega gullverðlaun Alþjóðasamtaka verkefnastjórnunarfélaga. Ný og endurnýjuð Gufustöð í Bjarnarflagi hefur verið tekin í notkun og nýtir hún gufumagnið betur en sú eldri, sem er í samræmi við stefnu okkar um bætta nýtingu auðlindarinnar. Horfur í vatnsbúskap Landsvirkjunar í upphafi vatnsárs 1. október eru góðar.

Afkoma þriðja ársfjórðungs litast þó af erfiðum ytri aðstæðum, þar sem afurðaverð stórra viðskiptavina hefur verið lágt og þróun álverðs hefur haft neikvæð áhrif á tekjur. Þá varð tekjutap vegna tímabundinnar stöðvunar þriðja kerskálans hjá álveri Rio Tinto í Straumsvík upp á um 10 milljónir bandaríkjadala (1,24 milljarða króna) og sér þess merki í rekstrarniðurstöðum fjórðungsins.

Þrátt fyrir þetta hélt efnahagur fyrirtækisins áfram að styrkjast á þriðja ársfjórðungi og þau ánægjulegu tíðindi bárust nú í nóvember að Moody's staðfesti bætta fjárhagsstöðu Landsvirkjunar með því að hækka lánshæfiseinkunn fyrirtækisins. Nettó skuldir lækkuðu um tæplega 172 milljónir bandaríkjadala (21 milljarð króna) á fyrstu níu mánuðum ársins. Sjóðstreymi er áfram sterkt í rekstri Landsvirkjunar, en handbært fé frá rekstri nam 222,4 milljónum bandaríkjadala (27,6 milljörðum króna) á fyrstu níu mánuðum ársins, og var því að mestu varið í að lækka skuldir.“


Viðhengi


Arshlutareikningur januar-september 2019.pdf
Frettatilkynning.pdf