Icelandic
Birt: 2019-11-14 18:42:55 CET
Brim hf.
Árshlutareikningur (Q1 og Q3)

Uppgjör Brims hf. á þriðja ársfjórðungi 2019

  • Rekstrartekjur samstæðunnar á þriðja ársfjórðungi voru 67,7 m€ og 177,7 m€ á fyrstu níu mánuðum ársins (3F 2018: 49,2 m€, fyrstu níu mánuðum 2018: 149,2 m€)
  • EBITDA nam 28,1 m€ á þriðja ársfjórðungi og 51,3 m€ á fyrstu níu mánuðum ársins (3F 2018: 13,5 m€, fyrstu níu mánuðum ársins 2018: 24,1 m€)
  • Hagnaður á þriðja ársfjórðungi var 17,8 m€ og á fyrstu níu mánuðum ársins 28,5 m€ (3F 2018: 8,2 m€, fyrstu níu mánuði 2018: 11,2 m€)
  • Handbært fé frá rekstri nam 41,7 m€ á fyrstu níu mánuðum ársins (fyrstu níu mánuði 2018: 17,4 m€)


Rekstur fyrstu níu mánaða ársins 2019

Rekstrartekjur Brims hf. á fyrstu níu mánuðum ársins 2019 námu 177,7 m€, samanborið við 149,2 m€ árið áður.  Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 51,3 m€ eða 28,9% af rekstrartekjum, en var 24,1 m€ eða 16,2% árið áður.  Áhrif fjáreignatekna og fjármagnsgjalda voru neikvæð um 3,2 m€, en voru neikvæð um 1,4 m€ á sama tíma árið áður.  Áhrif hlutdeildarfélaga voru neikvæð um 0,1 m€, en voru jákvæð um 1,9 m€ árið áður.  Hagnaður fyrir tekjuskatt var 37,2 m€ og hagnaður tímabilsins var 28,5 m€. 

Efnahagur

Heildareignir félagsins námu 663,8 m€ í lok september 2019. Þar af voru fastafjármunir 533,6 m€ og veltufjármunir 130,2 m€.  Eigið fé nam 295,6 m€, eiginfjárhlutfall í lok september var 44,5%, en var 41,9% í lok árs 2018. Heildarskuldir félagsins voru í septemberlok 368,3 m€.

Sjóðstreymi

Handbært fé frá rekstri nam 41,7 m€ á tímabilinu, en nam 17,4 m€ á sama tíma fyrra árs.  Fjárfestingarhreyfingar voru jákvæðar um 20,5 m€.  Fjármögnunarhreyfingar voru neikvæðar um 50,6 m€.  Handbært fé hækkaði því um 11,6 m€ á tímabilinu og var í lok september 49,9 m€.

Meginniðurstöður færðar til íslenskra króna

Séu niðurstöður rekstrarreiknings reiknaðar til íslenskra króna á meðalgengi fyrstu níu mánaða árins 2019 (1 evra = 137,11 kr) verða tekjur 24,4 milljarðar króna, EBITDA 7,0 milljarður og hagnaður 3,9 milljarðar.  Séu niðurstöður efnahagsreiknings reiknaðar til íslenskra króna á gengi 30. september 2019 (1 evra = 134,72 kr) verða eignir samtals 89,4 milljarðar króna, skuldir 49,6 milljarðar og eigið fé 39,8 milljarðar.

 

Skipastóll og afli

Í skipastól félagsins voru í septemberlok átta skip.  Á fyrstu níu mánuðum ársins 2019 var afli skipa félagsins 40 þúsund tonn af botnfiski og 70 þúsund tonn af uppsjávarfiski.

Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims hf.:

„Okkur gekk vel á þriðja fjórðungi ársins.  Þorskveiði, makrílveiðar og vinnsla gengu vel og meira var framleitt á þessu tímabili af verðmætari afurðum.  Verð afurða á erlendum mörkuðum voru hagstæð og ekkert skip var í slipp á tímabilinu.  Þá eru auknar fjárfestingar félagsins á undanförnum misserum í nýjum skipum og aflaheimildum að skila sér með skýrum hætti í aukinni arðsemi.“

 

Önnur mál

Þann 15. október var hlutafé félagsins hækkað um 133.751 þúsund krónur í tengslum við kaup félagsins á öllu hlutafé í sölufélögum í Japan, Hong Kong og á meginlandi Kína, sem og þjónustufélagi á Íslandi.  Félögin verða hluti af samstæðureikningsskilum á fjórða ársfjórðungi. 

Í lok október var gerður samningur um kaup á tveimur sjávarútvegsfyrirtækjum, Fiskvinnslunni Kambi hf. og útgerðarfélaginu Grábrók ehf.  Samanlagt kaupverð félaganna nemur um 22 millj. evra og samþykkti stjórn félagsins kaupin á fundi sínum í dag.  Kaupin eru háð samþykki hluthafafundar, Samkeppniseftirlitsins og eftir atvikum annarra eftirlitsaðila.

Kynningarfundur þann 15. nóvember 2019

Opinn kynningarfundur um afkomu félagsins á þriðja ársfjórðungi verður haldinn föstudaginn 15. nóvember klukkan 8:30 í höfuðstöðvum félagsins að Norðurgarði 1. Guðmundur Kristjánsson forstjóri mun kynna uppgjörið og svara spurningum.


Viðhengi


Afkoma Brims hf 3Q2019.pdf
Brim Arshlutareikningur 30.09.2019.pdf