English Icelandic
Birt: 2019-10-30 20:19:42 CET
Arion banki hf.
Árshlutareikningur (Q1 og Q3)

Afkoma Arion banka á þriðja ársfjórðungi 2019

Hagnaður af áframhaldandi starfsemi hækkar umtalsvert frá fyrra ári

Hagnaður samstæðu Arion banka á þriðja ársfjórðungi 2019 nam 0,8 milljörðum króna samanborið við 1,1 milljarð króna á sama tímabili 2018. Arðsemi eigin fjár var 1,6% á þriðja ársfjórðungi 2019 samanborið við 2,3% á sama tímabili árið 2018.

Hagnaður af áframhaldandi starfsemi nam 3.801 milljón króna á þriðja ársfjórðungi og 8.849 milljónum króna á fyrstu níu mánuðum 2019, samanborið við 1.351 milljón króna á þriðja ársfjórðungi 2018 og 6.805 milljónir króna fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2018. Arðsemi eigin fjár af áframhaldandi starfsemi var um 8,5% á þriðja ársfjórðungi og 6,5% á fyrstu níu mánuðum ársins 2019. Dótturfélögin Valitor Holding, Stakksberg og TravelCo eru skilgreind sem eignir til sölu.

Heildareignir námu 1.213 milljörðum króna í lok september 2019 samanborið við 1.164 milljarða króna í árslok 2018. Lán til viðskiptavina lækkuðu um 21,3 milljarða króna eða 3% og er það í samræmi við auknar áherslur bankans á arðsemi fremur en lánavöxt. Eigið fé nam 196 milljörðum króna, samanborið við 201 milljarð króna í árslok 2018.

Eiginfjárhlutfall bankans, að teknu tilliti til afkomu á þriðja ársfjórðungi, var 23,6% í lok september 2019 en var 22,0% í árslok 2018. Hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1, að teknu tilliti til afkomu á þriðja ársfjórðungi, nam 21,6% í lok september 2019, samanborið við 21,2% í árslok 2018.

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka

„Áfram eru jákvæð merki í reglulegri starfsemi Arion banka. Má þar nefna að vaxtatekjur og tekjur af tryggingastarfsemi vaxa á milli ára og arðsemi af áframhaldandi starfsemi bankans á þriðja ársfjórðungi var 8,5%. Þrátt fyrir þessa jákvæðu þróun er afkoma Arion banka á ársfjórðungnum undir markmiðum sökum þátta sem bankinn hefur þegar gert grein fyrir. Hér er einkum um að ræða umtalsverðar niðurfærslur á félögum sem bankinn er með í söluferli, áframhaldandi fjárfesting í alþjóðlegri starfsemi Valitor og gjaldfærsla kostnaðar vegna skipulagsbreytinga.

Fjárhagsstyrkur bankans er áfram mikill og lausafjárhlutföll sterk. Því fylgja margir kostir og höfum við ákveðið að ráðast í endurkaupaáætlun á eigin hlutabréfum að fjárhæð 4,5 milljarða króna, sem hefst 31. október, í samræmi við markmið bankans um lækkun á eigin fé. Sterk lausafjárstaða í bæði krónum og erlendum myntum þýðir jafnframt að bankinn er í kjörstöðu til að þjóna viðskiptavinum sínum en einnig til að huga að endurkaupum á eldri og óhagstæðari heildsölufjármögnun.  

Bankinn kynnti í lok þriðja ársfjórðungs umfangsmiklar skipulagsbreytingar og nýjar áherslur í starfseminni. Markmið breytinganna er að styrkja samkeppnishæfni bankans og auka arðsemi eiginfjár. Við þessar breytingar fækkaði starfsfólki bankans um 12% og sviðum bankans um tvö. Stefna bankans um að veita viðskiptavinum sínum fjölbreytta fjármálaþjónustu og vera í fararbroddi þegar kemur að stafrænni fjármálaþjónustu er óbreytt. Hins vegar má segja að um ákveðna áherslubreytingu sé að ræða þegar kemur að fjármögnun fyrirtækja. Vegna hárra skatta og mikilla eiginfjárkvaða á fjármálafyrirtæki getur verið hagstæðara fyrir sum fyrirtæki að fjármagna sig með öðrum hætti en hefðbundnum bankalánum. Arion banki ætlar að efla þjónustu við þessi fyrirtæki, vera ráðgefandi um hagstæðustu fjármögnun hverju sinni og vera öflugur samstarfsaðili með heildarhagsmuni þeirra í fyrirrúmi.

Arion banki leggur ríka áherslu á jafnréttismál en bankinn hefur verið með jafnlaunavottun frá árinu 2015. Fyrir um ári fékk bankinn svo fyrstur banka heimild til að nota jafnlaunamerki velferðarráðuneytisins. Eftir að bankinn var skráður í kauphöllina hér á landi og í Stokkhólmi þá hafa bæði sænskir og alþjóðlegir aðilar í auknum mæli tekið bankann út hvað varðar samfélagsábyrgð og stöðu jafnréttismála. Nýverið tók Allbrigt stofnunin í Svíþjóð út stöðu jafnréttismála hjá öllum skráðum fyrirtækjum í kauphöllinni í Stokkhólmi, alls 333 fyrirtæki, og það er ánægjulegt að Arion banki er þar í 25. sæti. Það er góður árangur en við ætlum okkur að gera enn betur í þessum efnum.

Við kynntum nýverið nýjustu viðbótina við Arion appið og er þar um að ræða þjónustu í anda opinna bankaviðskipta. Þessa lausn unnum við í góðu samstarfi við fjártæknifyrirtækið Meniga og gerir hún öllum þeim sem eru með Arion appið kleift að sjá á einum stað yfirlit yfir reikninga sína og kort hjá Arion banka, Landsbankanum og Íslandsbanka. Þessar upplýsingar eru svo teknar saman og flokkaðar eftir útgjaldaliðum heimilisins, en þannig fæst einstök yfirsýn yfir tekjur og útgjöld heimilisins og þróun þeirra yfir tíma. Hafa móttökur viðskiptavina verið mjög góðar og geta allir sem ekki eru nú þegar með Arion appið sótt það og byrjað að nýta þessa nýju þjónustu.“

Fundur með markaðsaðilum

Haldinn verður fundur fyrir markaðsaðila fimmtudaginn 31. október klukkan 8:30 þar sem Benedikt Gíslason bankastjóri, Stefán Pétursson framkvæmdastjóri fjármálasviðs, Eggert Teitsson aðstoðarframkvæmdastjóri fjármálasviðs og Theodór Friðbertsson forstöðumaður fjárfestatengsla munu kynna afkomu bankans og svara spurningum þátttakenda. Fundurinn fer fram á ensku í höfuðstöðvum Arion banka, Borgartúni 19 og verður jafnframt streymt beint.

Þeir sem hyggjast sækja fundinn eru vinsamlegast beðnir um að skrá sig hér. Þeir sem vilja hringja inn á fundinn og taka þátt með því að leggja fram spurningar þurfa að hringja inn áður en kynningin hefst.
    Ísland: 800 7508
    Svíþjóð: +46 850 558 356
    Bretland: +44 33 3300 9270
    Bandaríkin: +1 83 3823 0587

Hægt verður að nálgast streymið beint á financialhearings.com og á fjárfestatengslavef bankans.


Fjárhagsdagatal Arion banka er aðgengilegt á heimasíðu bankans.


Vinsamlegast beinið fyrirspurnum til fjárfestatengsla bankans, ir@arionbanki.is, eða til Theodórs Friðbertssonar forstöðumanns fjárfestatengsla, 856 6760.

Fjölmiðlum er bent á að beina fyrirspurnum til Haraldar Guðna Eiðssonar, forstöðumanns samskiptasviðs, haraldur.eidsson@arionbanki.is, 856 7108.

Viðhengi


Arion Bank - Consolidated Interim Financial Statements 30 September 2019.pdf
Arion Bank Investor Presentation Q3 2019.pdf
Arion Bank Press Release Q3 2019.pdf