English Icelandic
Birt: 2019-10-29 10:03:52 CET
Síminn hf.
Árshlutareikningur (Q1 og Q3)

Síminn hf. - Umfang sjónvarpsþjónustu fer stöðugt vaxandi

Afkoma Símans hf. á 3F 2019:

Samanburðarfjárhæðir á þriðja ársfjórðungi 2018 hafa verið uppfærðar í samræmi við breytta meðhöndlun á sýningarrétti sjónvarpsefnis.

  • Tekjur á þriðja ársfjórðungi (3F) 2019 námu 7.098 milljónum króna samanborið við 6.969 milljónir króna á sama tímabili 2018 og hækka um 1,9% milli tímabila.
  • Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði EBITDA nam 2.817 milljónum króna á 3F 2019 samanborið við 2.607 milljónir króna á sama tímabili 2018 og hækkar því um 210 milljónir króna eða 8,1% frá sama tímabili í fyrra. EBITDA hlutfallið er 39,7% fyrir þriðja ársfjórðung 2019 en var 37,4% á sama tímabili 2018. Að teknu tilliti til breytinga vegna IFRS 16 þá nam EBITDA á 3F 2018 2.802 milljón króna og EBITDA hlutfall  var 40,2%.
  • Hagnaður á 3F 2019 nam 897 milljónum króna samanborið við 978 milljónir króna á sama tímabili 2018.
  • Handbært fé frá rekstri án vaxta og skatta nam 4.024 milljónum króna á 3F 2019 en var 2.515 milljónir króna á sama tímabili 2018. Eftir vexti og skatta nam handbært fé frá rekstri 3.590 milljónum króna á 3F 2019 en 2.266 milljónum króna á sama tímabili 2018.
  • Vaxtaberandi skuldir námu 16,1 milljörðum króna í lok 3F 2019 en voru 17,2 milljarðar króna í árslok 2018. Hreinar vaxtaberandi skuldir voru 15,6 milljarðar króna í lok 3F 2019 en voru 16,0 milljarðar króna í árslok 2018.
  • Hrein fjármagnsgjöld námu 232 milljónum króna á 3F 2019 en voru 211 milljónir króna á sama tímabili 2018 þar af eru áhrif af breytingum vegna IFRS 16 67 milljónir króna á 3F 2019. Fjármagnsgjöld námu 296 milljónum króna, fjármunatekjur voru 55 milljónir króna og gengishagnaður var 9 milljónir króna.
  • Eiginfjárhlutfall Símans hf. var 55,4% í lok 3F 2019 og eigið fé 36,3 milljarðar króna.

Orri Hauksson, forstjóri:

„Við erum sátt við rekstur samstæðunnar á þriðja ársfjórðungi. Ófyrirséðir atburðir voru fáir og EBITDA framlegð eykst lítillega milli ára. Fjarskiptarekstur Símans og Mílu er á sínum vænta gangi á síðari hluta þessa árs, helstu breytingum á reiki og heildsölu er nú lokið. Meðalverð þokast upp á einstaklingsmarkaði, eftir margra ára tímabil skarpra lækkana. Enn sér þó ekki fyrir endann á verðþrýstingi á fyrirtækjamarkaði. Sala á skýjaþjónustu hefur aukist hratt á árinu og er Sensa í stórum verkefnum er snúa að skýjavæðingu. Þetta hefur áhrif til framlegðar-lækkunar á þeirri þjónustu sem færist upp í skýið.  Fyrirtæki eru í auknum mæli að nýta sér skýjaþjónustu og er mikil og aukin eftirspurn eftir sérfræðiaðstoð og lausnum sem tengjast þeirri vegferð og er Sensa að styrkja sig enn frekar á þeim vettvangi.

Góður tekjuvöxtur er í sjónvarpsrekstri milli ára. Síminn Sport hefur notið velgengni umfram væntingar frá því varan fór í loftið á miðjum þriðja fjórðungi. Vel hefur til dæmis gengið að semja um dreifingu vörunnar yfir öll fjarskipta- og sjónvarpsdreifikerfi landsins. Nær enska úrvalsdeildin til allra landsmanna og við sjáum áhugann fara vaxandi, með þeirri vönduðu og sérlega hagstæðu þjónustu sem Síminn Sport er. Við höfum því áfram góðar væntingar til vörunnar næstu mánuði.

Þá hefur Síminn reynt að semja um aldreifingu fyrir Sjónvarp Símans Premium, helstu sjónvarpsvöru okkar, en ekki gengið sem skyldi fram að þessu. Ástæðan er mótstaða Sýnar gegn því að selja aðgang að dreifikerfum í sinni umsjá fyrir Sjónvarp Símans Premium, sem er sú íslenska efnisveita sem langmest er notuð. Síminn verður þannig af möguleikum til aukinnar tekjusköpunar samhliða því að IPTV viðskiptavinir Sýnar hafa ekki möguleika á að kaupa Sjónvarp Símans Premium. Þessi skekkja mun vonandi leiðréttast á næsta ári.

Kostnaðaraðhald er og verður áfram í forgrunni í rekstri Símans. Milli ára fækkar stöðugildum um 40 og má búast við svipaðri breytingu á nýjan leik fram til næsta hausts. Fjárfestingar samstæðunnar hafa verið háar á þessu ári, eins og fyrir hefur legið. Hröð ljósleiðaravæðing Mílu skýrir stærsta hluta fjárfestinganna, sem eru langtímafjárfestingar sem efla verðgildi innviða í eigu samstæðunnar verulega á komandi árum og áratugum. Einnig ýtir breytt meðhöndlun sjónvarpsrétta fjárfestingatölum upp. Markvisst er einnig fjárfest í tæknirekstri Símans og slíkar uppfærslur tækniinnviða munu halda sér til lengri tíma.

Fjárfestingar samstæðunnar í heild munu fara lækkandi á næstu misserum frá því sem nú er. Stafar sú lækkun fyrst og fremst af því hve langt ljósleiðaraverkefnið er komið. Lækkun fjárfestinga nemur í heild nokkur hundruðum milljónum milli ára á næsta ári.“

Kynningarfundur 30. október 2019

Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og fjárfesta vegna uppgjörsins verður haldinn miðvikudaginn 30. október kl. 8:30 í húsnæði félagsins, Ármúla 25, Reykjavík.

Á fundinum munu Orri Hauksson forstjóri og Óskar Hauksson fjármálastjóri kynna uppgjör félagsins og svara fyrirspurnum.

Kynningarefni fundarins verður hægt að nálgast á heimasíðu Símans https://www.siminn.is/umsimann/uppgjor og í fréttakerfi Nasdaq Iceland.

Hægt er að fylgjast með fundinum í beinni útsendingu á vefslóðinni: https://livestream.com/accounts/11153656/events/8858806/player

 

Nánari upplýsingar um uppgjörið veita:

Orri Hauksson, forstjóri Símans, s. 550 6003 (orri@siminn.is)

Óskar Hauksson, fjármálastjóri Símans, s. 550 6003 (oskarh@siminn.is)

Viðhengi


Fjarfestakynning 3F 2019.pdf
Siminn 30.09.2019.pdf
Siminn hf - Afkomutilkynning 3F 2019.pdf