Icelandic
Birt: 2019-10-24 22:48:59 CEST
Síminn hf.
Boðun hluthafafundar

Hluthafafundur Símans hf.

Verður haldinn fimmtudaginn. 21. nóvember 2019 kl. 10.00 að Ármúla 25, Reykjavík.

 Dagskrá

  1. Tillaga um að afturkalla umboð stjórnarmanna, sbr. 1. mgr. 64. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög.
  2. Stjórnarkjör skv. grein 15.1 í samþykktum félagsins.
  3. Staðfesting á ákvörðun aðalfundar dags. 21. mars 2019 varðandi stjórnarkjör og breytingar á viðauka við samþykktir.

Aðrar upplýsingar 
Símanum hf. hefur borist beiðni frá Stoðum hf. um að boðað verði til hluthafafundar í félaginu og efnt þar til stjórnarkjörs. Þar sem Stoðir hf. eiga meira en 1/20 hlutafjár Símans hf. ber stjórn félagsins við þær aðstæður að boða til hluthafafundar.

Þar sem kjörtímabili stjórnar er ekki lokið fer stjórnarkjör ekki fram nema því aðeins að umboð núverandi stjórnar verði afturkallað. Á fundinum verður því fyrst kosið um hvort afturkalla eigi umboð stjórnarmanna. Verði það samþykkt verður ný stjórn kjörin skv. 2. lið dagskrár. Verði tillögunni hafnað fer stjórnarkjör ekki fram.

Þeir sem hyggjast gefa kost á sér til stjórnarkjörs, fari það fram, skulu tilkynna stjórn Símans hf. um framboð sitt eigi síðar en fimm dögum fyrir hluthafafundinn eða fyrir kl. 10:00, 16. nóvember 2019. Framboðseyðublað er að finna á vefsíðu félagsins og tilkynnt verður um framboð til stjórnar vef félagsins eigi síðar en 2 dögum fyrir hluthafafundinn. Skal skila framboðum á veffangið stjorn@siminn.is. Nánari upplýsingar um framboð má finna á vefsíðunni: www.siminn.is/umsimann/tilnefningarnefnd.

Varðandi dagskrárlið 3 þá samþykkti aðalfundur 21. mars 2019 breytingar á stjórn og viðauka við samþykktir sem var svohljóðandi:

„Aðalfundur Símans hf. haldinn þann 21. mars 2019 heimilar stjórn félagsins að kaupa í eitt skipti eða oftar á næstu 18 mánuðum hlutabréf í félaginu þannig að það ásamt dótturfélögum þess eigi, að öðrum lagaskilyrðum uppfylltum, allt að 10% af hlutafé þess, þ.e. að hámarki kr. 925.000.000 að nafnverði, í þeim tilgangi að koma á viðskiptavakt með hluti í félaginu og/eða til að setja upp formlega endurkaupaáætlun. Endurgjald fyrir keypta hluti skal ekki vera á hærra verði en nemur verði síðustu óháðu viðskipta eða hæsta fyrirliggjandi óháða kauptilboði í þeim viðskiptakerfum þar sem viðskipti með hlutina fara fram, hvort sem er hærra. Slík kaup eru þó heimil ef þau eru gerð af viðskiptavaka skv. 116. gr. laga um verðbréfaviðskipti eða á grundvelli 1. tölul. 3. mgr. 115. gr. og 2. mgr. 119. gr. laga um verðbréfaviðskipti og reglugerða sem settar eru á grundvelli 118. og 131. gr. sömu laga. Heimild þessi byggir á ákvæðum 55. gr. laga nr. 2/1995. Aðrar eldri heimildir til kaupa á eigin hlutabréfum falla úr gildi við samþykkt heimildar þessarar.“

Tilkynning um framangreinda ákvörðun barst fyrirtækjaskrá of seint og þarfnast þess vegna staðfestingar hluthafafundar til þess að unnt sé að skrá ákvarðanir aðalfundar 2019 í fyrirtækjaskrá.

Réttur hluthafa til að fá mál sett á dagskrá hluthafafundar og atkvæðagreiðsla 
Hver hluthafi á rétt á því að fá ákveðin mál tekin til meðferðar á fundinum ef hann sendir um það skriflega eða rafræna kröfu til félagsstjórnar á netfangið hluthafar@siminn.is með það miklum fyrirvara að unnt sé að taka málið á dagskrá fundarins, þó í síðasta lagi tíu dögum fyrir fundinn. Þannig skulu óskir hluthafa þess efnis liggja fyrir eigi síðar en kl. 10.00 mánudaginn 11. nóvember 2019. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu félagsins: www.siminn.is/umsimann/fundir.

Á hluthafafundinum fylgir eitt atkvæði hverri einni krónu í hlutafé.  Atkvæðisréttur fylgir ekki eigin bréfum félagsins.  

Hluthafar sem eiga þess ekki  kost að sækja fundinn geta veitt öðrum skriflegt umboð  eða greitt atkvæði skriflega. Þeim hluthöfum sem hyggjast nýta sér annan hvorn þessara kosta er bent á að kynna sér á heimasíðu félagsins hvernig þeir skuli bera sig að. Þar er að finna leiðbeiningar um skráningu og form skjala og hvernig þeim skuli skilað til félagsins. 

Endanleg dagskrá og tillögur verða birtar viku fyrir hluthafafundinn. Allar nánari upplýsingar um hluthafafundinn er að finna á vefsíðu félagsins, www.siminn.is/umsimann/fundir.

Atkvæðaseðlar og önnur gögn verða afhent á fundarstað frá kl. 9:30. Fundurinn fer fram á íslensku.


Reykjavík, 24. október 2019,

Stjórn Símans hf.



Viðhengi


Siminn hf. - fundarbo hluthafafundar 21112019.pdf