Icelandic
Birt: 2019-10-23 18:09:00 CEST
Vátryggingafélag Íslands hf.
Árshlutareikningur (Q1 og Q3)

VÍS: Uppgjör 3. ársfjórðungs 2019 og uppfærð afkomuspá

Árshlutareikningur félagsins fyrir þriðja ársfjórðung 2019 var staðfestur af stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 23. október 2019.

Helstu niðurstöður fyrir fyrstu 9 mánuði ársins 2019

* Hagnaður tímabilsins eftir skatta nam 1.798 milljónum króna samanborið við 1.462 milljóna króna hagnað á sama tímabili árið 2018.

* Ávöxtun fjáreigna var 7,5% samanborið við 5,4% á sama tímabili í fyrra.

* Arðsemi eigin fjár var 12,4% samanborið við 9,2% á sama tímabili í fyrra.

* Samsett hlutfall var 99,3% samanborið við 96,9% á sama tímabili árið 2018.

Helstu niðurstöður þriðja ársfjórðungs 2019

* Tap tímabilsins eftir skatta nam 394 milljónum króna samanborið við 910 milljóna króna hagnað á sama tímabili árið 2018.

* Gjaldþolshlutfall félagsins í lok tímabilsins var 1,56 samanborið við 1,52 við lok sama tímabils í fyrra.


Helgi Bjarnason, forstjóri

„Þetta uppgjör sýnir vel sveifluna í rekstri tryggingafélaga. Á meðan níu mánaða uppgjörið okkar er framúrskarandi og eitt það besta frá skráningu með góðan hagnað og 12,4% arðsemi eigin fjár þá litast uppgjör þriðja ársfjórðungs m.a. af verri afkomu af skráðum hlutabréfum í eigu félagsins. Það varð til þess að við sendum frá okkur afkomuviðvörun í byrjun október. Þá er tjónahlutfall hærra en á sama tíma í fyrra sem skýrist að stærstum hluta af stærri tjónum og lækkun vaxta.

Í fararbroddi í styttingu vinnuvikunnar

Það gleður mig að segja frá því að við höfum ákveðið að ríða á vaðið með styttingu vinnuvikunnar í samræmi við síðustu kjarasamninga. Samkvæmt þeim á styttingin að taka gildi 1. janúar 2020 en við höfum ákveðið að hún taki gildi strax um næstu mánaðarmót, 1. nóvember. Við munum stytta vinnuvikuna um 45 mínútur á föstudögum og teljum, eftir samráð við starfsfólk, að mesti ávinningurinn náist með þeirri útfærslu. Við erum sannfærð um að þetta stuðli að betra jafnvægi milli vinnu og einkalífs og um leið geri vinnustaðinn okkar enn fjölskylduvænni.“

Horfur

Uppfærð afkomuspá félagsins gerir ráð fyrir að samsett hlutfall fyrir árið 2019 verði 99,0% og að hagnaður fyrir skatta verði um 2,5 milljarðar króna. Sveiflur hafa verið á mörkuðum að undanförnu en þrátt fyrir það höfum við væntingar um að ávöxtun eigin fjár verði um 15% á árinu 2019.

Kynningafundur

Opinn kynningarfundur fyrir markaðsaðila og fjárfesta vegna uppgjörsins verður haldinn fimmtudaginn 24. október í húsnæði félagsins Ármúla 3 klukkan 8.30.

Á fundinum mun Helgi Bjarnason forstjóri kynna uppgjör félagsins og svara spurningum.

Kynningarefni fundarins verður hægt að nálgast á íslensku og á ensku á heimasíðu VÍS: https://www.vis.is/vis/fjarfestar/fjarfestar/. Að auki verður hægt að fylgjast með fundinum í beinni útsendingu og nálgast upptöku að honum loknum á vefslóðinni: https://www.vis.is/vis/fjarfestar/fjarfestafundur

Nánari upplýsingar veitir Óskar Þorvaldsson samskiptastjóri í netfanginu fjarfestatengsl@vis.is.

Viðhengi


Frettatilkynning 3F-2019.pdf
VIS - Samstuarshlutareikningur 30.09.2019.pdf