Icelandic
Birt: 2019-08-28 17:55:05 CEST
Eik fasteignafélag hf.
Árshlutareikningur - 6 mán.

Eik fasteignafélag hf.: Árshlutauppgjör fyrstu sex mánuði ársins 2019

  • Rekstrartekjur námu 4.240 m.kr.
  • Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir nam 2.680 m.kr.
  • Heildarhagnaður nam 1.496 m.kr.
  • Matsbreyting fjárfestingareigna nam 1.326 m.kr.
  • Bókfært virði fjárfestingareigna nam 94.590 m.kr.  
  • Bókfært virði eigna til eigin nota nam 3.916 m.kr. í lok tímabilsins.
  • Vaxtaberandi skuldir námu 59.724 m.kr. í lok tímabilsins.
  • Handbært fé frá rekstri nam 1.359 m.kr.
  • Eiginfjárhlutfall nam 30,8%.
  • Hagnaður á hlut var 0,44 kr.

Árshlutareikningur Eikar fasteignafélags hf. fyrir tímabilið 1. janúar til 30. júní 2019 var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins þann 28. ágúst 2019.

Meðfylgjandi er árshlutaskýrsla sem inniheldur árshlutareikning fyrstu sex mánuði ársins ásamt ítarlegri upplýsingum um rekstur félagsins en fram koma í tilkynningunni.

Rekstur félagsins

Rekstur félagsins gekk á heildina litið vel fyrstu sex mánuði ársins 2019. Rekstrartekjur félagsins á fyrstu sex mánuðum ársins 2019 námu 4.240 m.kr. og aukast um 7,8% milli ára. Þar af voru leigutekjur 3.636 m.kr. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir nam 2.680 m.kr. og jókst um 5,7% milli ára. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir var við neðri 1% skekkjumörk áætlunar stjórnenda félagsins. Hagnaður fyrir tekjuskatt nam 1.870 m.kr. og heildarhagnaður tímabilsins nam 1.496 m.kr. og jókst um 57% milli ára.

NOI hlutfall (þ.e. rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir sem hlutfall af leigutekjum) nam 72,8% á fyrstu sex mánuðum ársins 2019 samanborið við 74,1% fyrstu sex mánuði ársins 2018.

Fjárfestingareignir félagsins eru metnar á gangvirði í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS) og stuðst er m.a. við núvirt framtíðarsjóðstreymi einstakra eigna. Breytingar á gangvirði eru færðar undir matsbreytingu fjárfestingareigna sem nam 1.326 m.kr. á tímabilinu.

Efnahagur félagsins

Heildareignir félagsins námu 101.062 m.kr. þann 30. júní 2019. Þar af eru fjárfestingareignir að virði 94.590 m.kr., fjárfestingareignir sem skiptast í fasteignir í útleigu að fjárhæð 91.595 m.kr., leigueignir (nýtingarréttur lóða) 1.947 m.kr., fasteignir í þróun 587 m.kr., byggingarréttir og lóðir 448 m.kr. og fyrirframgreidd gatnagerðargjöld að fjárhæð 13 m.kr. Eignir til eigin nota námu 3.916 m.kr. Eigið fé félagsins nam 31.169 m.kr. í lok júní 2019 og var eiginfjárhlutfall 30,8%. Heildarskuldir félagsins námu 69.893 m.kr. þann 30. júní 2019, þar af voru vaxtaberandi skuldir 59.724 m.kr. og tekjuskattsskuldbinding 6.879 m.kr. 

H&M opnar verslun á Glerártorgi

Félagið hefur skrifað undir samning við H&M um opnun 1.300 fm. verslunar á Glerártorgi. Áætlað er að verslunin opni haustið 2020.

Góður gangur hefur verið í útleigu félagsins það sem af er ári. Virðisútleiguhlutfall félagsins var 95,3% í lok júní og hækkaði um 0,1% frá áramótum.

Arðgreiðslustefna

Samþykkt var á aðalfundi félagsins þann 10. apríl 2019 að greiða 1.020 m.kr. í arð til hluthafa. Arðurinn var greiddur til hluthafa þann 30. apríl 2019. Stefna stjórnar er að greiða árlega út arð sem nemur 35% af handbæru fé frá rekstri ársins að frádreginni þeirri fjárhæð sem nýtt verður í endurkaup á eigin bréfum fram að boðun næsta aðalfundar. Handbært fé frá rekstri fyrstu sex mánuði ársins nam 1.359 m.kr. Félagið keypti eigin hluti að nafnverði 23.551.000 kr. á fyrstu tveimur ársfjórðungum ársins fyrir samtals 210.243.210 kr.

Kaup fasteigna frá áramótum

Félagið hefur keypt tvær fasteignir á árinu. Vatnagarða 14, sem er vel staðsett lagerhúsnæði, um 1.300 fm. að stærð og um 200 fm. verslunarhúsnæði við Skólavörðustíg 42. Félagið fékk fasteignirnar afhentar í júní. Báðar fasteignirnar eru í fullri útleigu með langtímaleigusamninga.

Endurfjármögnun

Félagið endurfjármagnaði allar skuldir dótturfélags síns, EF1 hf., í byrjun júlí. Endurfjármögnunin var blanda af bankafjármögnun og skuldabréfaútgáfu. Félagið gaf út tvo nýja skuldabréfaflokka, EIK 050726 og EIK 050749. Tilboð að fjárhæð 1.400 m.kr. voru samþykkt í EIK 050726 á ávöxtunarkröfunni 2,73% og að fjárhæð 2.500 m.kr. á ávöxtunarkröfunni 3,1% í EIK 050749. Bankafjármögnun nam tæplega 10 ma.kr. Þá var framkvæmdafjármögnun vegna Suðurlandsbrautar 10 að fullu greidd upp í júlí.

Vegnir verðtryggðir vextir félagsins eftir endurfjármögnun nema rétt tæplega 3,7% en voru áður 3,88%.

Sameining dótturfélaga

Félagið vinnur nú að því að sameina tvö dótturfélög við Eik fasteignafélag. Þá er samrunaferli tveggja dótturfélaga Landfesta einnig í vinnslu. Samrunarnir hafa ekki gengið í gegn en gert er ráð fyrir að það muni gerast á næstu vikum. Samrunarnir miðast við 1. janúar 2019.

IFRS 16 Leigusamningar

Samstæða félagsins hefur innleitt reikningsskilastaðalinn IFRS 16. Innleiðing staðalsins hefur minniháttar áhrif á samstæðuna. Samkvæmt staðlinum ber félaginu að færa nýtingarrétt að fjárhæð 1.947 m.kr. vegna lóðarleigu við þriðja aðila sem leigueignir undir fjárfestingareignir samstæðunnar og á móti færist skuldbinding, leiguskuldir, undir skuldir samstæðunnar að sömu fjárhæð. Þá hefur staðallinn þau áhrif á rekstur félagsins að fjármagnsgjöld aukast um 91 m.kr. á ársgrundvelli en rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir eykst að sömu fjárhæð.

Horfur

Félagið hefur yfirfarið afkomuspá sína fyrir árið 2019. Ljóst er að sú óvissa sem hefur verið á vinnumarkaði og í ferðaþjónustu á árinu sem og framkvæmdir á herbergjum Hótels 1919 hefur haft neikvæð áhrif á afkomu og afkomuspá hótelsins. Þrátt fyrir það gerir félagið ráð fyrir því að EBITDA ársins verði innan 1% skekkjumarka en líkur eru á að niðurstaða ársins verði við neðri mörkin.

Eignasafn félagsins

Fasteignir innan samstæðunnar eru rúmlega 100 talsins og telja tæplega 310 þúsund útleigufermetra í 600 leigueiningum. Leigutakar eru á fimmta hundrað. Helstu fasteignir félagsins eru Borgartún 21, 21a og 26, Suðurlandsbraut 8 og 10, Mýrargata 2-16, Pósthússtræti 2, Álfheimar 74 (Nýi Glæsibær), Grjótháls 1-3 og Austurstræti 5, 6, 7 og 17 í Reykjavík, Smáratorg 1 og 3 í Kópavogi og Glerártorg á Akureyri. Stærstu leigutakar eru Húsasmiðjan, Flugleiðahótel, Fasteignir ríkissjóðs, Rúmfatalagerinn, Sýn, Landsbankinn, Síminn, Össur, Míla og Deloitte.

Stærsti hluti fasteignasafns Eikar eru skrifstofuhúsnæði eða 46%. Næst koma verslunarhúsnæði 24%, lagerhúsnæði 13%, hótel 11% og veitingahúsnæði 3%. Um 92% fasteigna félagsins eru á höfuðborgarsvæðinu, þar af 36% á fjármála- og viðskiptasvæði Reykjavíkur (aðallega innan póstnúmera 105 og 108), 21% í miðbæ Reykjavíkur og 19% í Smáranum - Mjódd. 8% eignasafnsins er á landsbyggðinni, þar af tæplega 8% á Akureyri.

Kynningarfundur
Opinn kynningarfundur verður haldinn fimmtudaginn 29. ágúst 2019 klukkan 8:30 á Hóteli 1919 í fundarherberginu Goðafossi, Pósthússtræti 2, Reykjavík. Boðið verður upp á léttan morgunmat frá kl. 8:00. Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri Eikar og Lýður H. Gunnarsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs munu kynna uppgjörið og svara spurningum að lokinni kynningu.

Fjárhagsdagatal 2019

  • Árshlutauppgjör 3. ársfjórðungs 2019                       31. október 2019
  • Stjórnendauppgjör fyrir 2019 og áætlun 2020          13. febrúar 2020
  • Ársuppgjör 2019                                                        10. mars 2020

Nánari upplýsingar veitir:

Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri, gardar@eik.is, s. 590-2200
Lýður H. Gunnarsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, lydur@eik.is, s. 590-2200 / 820-8980

Viðhengi


1H Arshlutaskyrsla 2019.pdf