Published: 2019-08-08 19:35:55 CEST
Arion banki hf.
Árshlutareikningur - 6 mán.

Afkoma Arion banka á öðrum ársfjórðungi 2019

Áframhaldandi jákvæð þróun í kjarnastarfsemi en óreglulegir liðir hafa neikvæð áhrif

Hagnaður samstæðu Arion banka á öðrum ársfjórðungi 2019 nam 2,1 milljarði króna samanborið við 3,1 milljarð króna hagnað á sama tímabili 2018. Arðsemi eigin fjár var 4,3% á öðrum ársfjórðungi 2019 samanborið við 5,9% á sama tímabili árið 2018. Arðsemi eigin fjár að Valitor undanskildu var 6,6% á öðrum ársfjórðungi 2019 samanborið við 7,2% á sama tímabili árið 2018. Valitor er skilgreint sem eign til sölu.

Heildareignir námu 1.233 milljörðum króna í lok júní 2019 samanborið við 1.164 milljarða króna í árslok 2018 og eigið fé nam 195 milljörðum króna, samanborið við 201 milljarð króna í árslok 2018.

Eiginfjárhlutfall bankans var 22,8% í lok júní 2019 en var 22,0% í árslok 2018. Hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1 nam 21,4% í lok júní 2019, samanborið við 21.2% í árslok 2018.

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka

„Afkoma Arion banka á öðrum ársfjórðungi er ekki nógu góð. Það er engu að síður jákvætt að grunnstarfsemi bankans þróast í rétta átt og hreinar vaxtatekjur halda áfram að vaxa, hvort sem við miðum við fyrsta ársfjórðung þessa árs eða annan ársfjórðung síðasta árs. Gæði lánabókar bankans eru áfram góð en nokkuð hefur hægt á í efnahagslífi landsins og má sjá þess annars vegar merki í samdrætti lánabókar og hins vegar í niðurfærslum lána. Samsetning lánabókarinnar er jafnframt að breytast sem endurspeglar áherslu bankans á arðsemi umfram vöxt. Þóknanatekjur eru áfram stöðugar og afkoma af tryggingastarfsemi Varðar, dótturfélags bankans, var góð á tímabilinu. Kostnaður í starfsemi bankans er að þróast með réttum hætti en eitt af verkefnum okkar á næstunni verður að gera enn betur í þeim efnum.

Arion banki er í fararbroddi hér á landi hvað varðar nýjungar og þróun fjármálaþjónustu. Það er spennandi að taka við svona öflugu og framsæknu fyrirtæki sem nýtur sterkrar stöðu á sínum mörkuðum. Á undanförnum árum hefur bankinn kynnt fjölda spennandi stafrænna lausna fyrir viðskiptavinum sínum sem sumar hverjar hafa unnið til alþjóðlegra verðlauna. Á síðustu vikum og mánuðum hefur bankinn svo kynnt til leiks nýjar lausnir og þar á meðal eru greiðslulausnir fyrir snjallsíma eins og Apple Pay sem viðskiptavinir okkar hafa tekið fagnandi. Einnig kynnti bankinn nýverið lausn sem gerir viðskiptavinum kleift að greina útgjöld og innborganir í appinu með skýrari hætti en áður. Á næstunni verður svo hægt að óska eftir sérsniðnu tilboði í appinu í bíla- og heimilistryggingar frá Verði og verður þetta í fyrsta sinn sem við bjóðum þjónustu annarra fyrirtækja í appinu okkar. Vinsældir appsins halda áfram að aukast og samkvæmt nýrri könnunum er meirihluti Íslendinga enn eitt árið þeirrar skoðunar að Arion appið sé besta bankaappið.

Við munum halda áfram á þessari braut en ætlum jafnframt að hefja vinnu við að móta áherslur í stefnu og starfsemi bankans til næstu ára svo bankinn sé sem best í stakk búinn til að mæta þeim miklu breytingum sem eru að eiga sér stað á fjármálaþjónustu. Við munum horfa til ýmissa þátta í starfsemi bankans, t.a.m. eiginfjárskipan, gæða lánasafns og aukinnar áhættudreifingar sem og skilvirkni í starfseminni, ekki síst í tengslum við aukið vægi stafrænna lausna. Markmiðið er að styrkja stöðu bankans enn frekar, auka arðsemi og tryggja að bankinn verði áfram í fararbroddi þegar kemur að nútímalegri fjármálaþjónustu.

Það er mikilvægt að búa í haginn fyrir framtíðina og þar skiptir sérhvert jákvætt skref máli. Arion banki og Kolviður sömdu í vor um bindingu þeirrar kolefnislosunar sem hlýst af starfsemi bankans. Kolviður mun binda kolefni í gróðri og jarðvegi með landgræðslu og skógrækt á móti þeirri kolefnislosun sem á sér stað í rekstri bankans á árinu 2019. Gert er ráð fyrir að Kolviður muni gróðursetja allt að 5.000 tré í tengslum við núverandi rekstrarár. Kolefnisjöfnun á daglegum rekstri bankans er liður í vegferð bankans í umhverfismálum.“

    

Fundir með markaðsaðilum

Haldinn verður fundur fyrir markaðsaðila föstudaginn 9. ágúst klukkan 8:30 þar sem Benedikt Gíslason bankastjóri, Stefán Pétursson framkvæmdastjóri fjármálasviðs, Eggert Teitsson aðstoðarframkvæmdastjóri fjármálasviðs og Sture Stölen forstöðumaður fjárfestatengsla munu kynna afkomu bankans og svara spurningum þátttakenda. Fundurinn fer fram á ensku í höfuðstöðvum Arion banka, Borgartúni 19 og verður jafnframt streymt beint.

Þeir sem hyggjast sækja fundinn eru vinsamlegast beðnir um að skrá sig hér. Þeir sem vilja hringja inn á fundinn og taka þátt með því að leggja fram spurningar þurfa að hringja inn áður en kynningin hefst.

     Ísland: 800 7520

     Svíþjóð: +46 850 558 358

     Bretland: +44 33 3300 9263

     Bandaríkin: +1 83 3526 8381

Hægt verður að nálgast streymið beint á financialhearings.com og á fjárfestatengslavef bankans.

 

Vinsamlegast beinið fyrirspurnum til fjárfestatengsla bankans, ir@arionbanki.is, Theódór Friðbertsson, 856 6760.

Fjölmiðlum er bent á að beina fyrirspurnum til Haraldar Guðna Eiðssonar, forstöðumanns samskiptasviðs, haraldur.eidsson@arionbanki.is, 856 7108.

   

Fjárhagsdagatal 2019-2020

Samkvæmt áætlun munu uppgjör bankans verða birt sem hér segir:

Árshlutauppgjör 3F 2019                                               30. október 2019

Ársuppgjör 2019 og árshlutauppgjör 4F 2019                  12. febrúar 2020

Aðalfundur                                                                   17. mars 2020

Árshlutauppgjör 1F 2020                                               6. maí 2020

Árshlutauppgjör 2F 2020                                               29. júlí 2020

Árshlutauppgjör 3F 2020                                               28. október 2020


Dagatalið er birt með fyrirvara um breytingar.

Viðhengi


Arion Bank Investor Presentation Q2 2019.pdf
Arion Bank - Consolidated Interim Financial Statements 30 June 2019.pdf
Arion Bank Press Release Q2 2019.pdf