English Icelandic
Birt: 2019-07-23 21:02:56 CEST
Íslandsbanki hf.
Aðrar upplýsingar sem birtar eru í samræmi við reglur Kauphallarinnar

S&P Global Ratings staðfestir lánshæfismat Íslandsbanka í BBB+/A-2 en breytir horfum í neikvæðar

S&P Global Ratings staðfestir lánshæfismat Íslandsbanka í BBB+/A-2 en breytir horfum í neikvæðar

Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið S&P Global Ratings (S&P) hefur í dag staðfest lánshæfismat Íslandsbanka í BBB+/A-2 en jafnframt breytt horfum úr stöðugum í neikvæðar.

Í rökstuðningi sínum vísar S&P til þess að Íslandsbanki sé með stöðuga markaðshlutdeild á innlendum markaði og hafi náð góðum árangri á sviði stafrænnar þróunar og upplýsingatækni þar sem hann standi framar en margir erlendir bankar. Bankinn sé jafnframt með sterka lausa- og eiginfjárstöðu auk þess sem lánasafn hans sé traust.

Ástæður S&P fyrir breytingu á horfum má meðal annars rekja til krefjandi rekstrarumhverfis fyrir íslenskar bankastofnanir sem einkennist af kólnandi hagkerfi, lækkandi vaxtaumhverfi, hárrar skattlagningar og ójafnrar samkeppnisstöðu við íslenska lífeyrissjóði en allt þetta hafi leitt til lækkandi arðsemi hjá íslenskum bönkum. S&P tekur fram að horfur á lánshæfismatseinkunn Íslandsbanka geti færst aftur í stöðugar með batnandi rekstrarumhverfi og hækkandi arðsemi en nefnir jafnframt að einkunn bankans geti lækkað ef rekstrarumhverfi bankans versni frekar á næstu 24 mánuðum.

Í ljósi þessa, þá vill Íslandsbanki ítreka að það sé ábyrgðarhlutur hins opinbera að gæta þess að skattar og gjöld á íslenska viðskiptabanka séu ekki of íþyngjandi og veiki ekki samkeppnisstöðu þeirra en skattar hérlendis eru ennþá margfalt hærri en í nágrannalöndunum. Slíkt er bagalegt í umhverfi þar sem lífeyrissjóðir og fjártæknifyrirtæki hafa bæst í hóp keppinauta án þess að greiða samsvarandi gjöld til ríkisins og viðskiptabankar greiða. Samkeppni er af hinu góða en þá er nauðsynlegt að allir keppinautar sitji við sama borð.

Nánari upplýsingar veita:

  • Fjárfestatengsl – Gunnar Magnússon, gunnarsm@islandsbanki.is og í síma 440 4665.
  • Samskiptasvið – Edda Hermannsdóttir, Edda.Hermannsdottir@islandsbanki.is og í síma 440 4005.


Póstlisti Íslandsbanka
Ef þú vilt gerast áskrifandi að kauphallarfréttum Íslandsbanka þá vinsamlegast skráðu þig hér: https://www.islandsbanki.is/is/flokkur/bankinn/fjarfestatengsl  

Um Íslandsbanka
Íslandsbanki er leiðandi fjármálafyrirtæki á Íslandi með heildareignir sem nema 1.205 ma. kr. og með 25-50% markaðshlutdeild á innanlandsmarkaði. Saga Íslandsbanka spannar 140 ár af þjónustu við lykilatvinnuvegi þjóðarinnar en á þessum tíma hefur bankinn byggt upp sérþekkingu á sviði ferðaþjónustu, sjávarútvegs og orku. Framtíðarsýn Íslandsbanka er að vera #1 í þjónustu og vinna þrjú viðskiptasvið þétt saman til að tryggja góð sambönd við viðskiptavini bankans. Til að koma enn betur til móts við þarfir viðskiptavina, þá hefur Íslandsbanki þróað margvíslegar nýjar stafrænar lausnir s.s. öpp fyrir bankaþjónustu og Kass. Á sama tíma rekur bankinn skilvirkasta útibúanetið með 14 útibú staðsett á lykilstöðum um land allt. Sjötta árið í röð mældist Íslandsbanki efstur í Íslensku ánægjuvoginni  hjá viðskiptavinum í bankaþjónustu árið 2018. Íslandsbanki hefur BBB+/A-2 lánshæfismat frá S&P Global Ratings. www.islandsbanki.is  

Fyrirvari
Framangreind fréttatilkynning gæti vísað til spár um framtíðarhorfur sem er háð áhættu- og óvissuþáttum og getur þýtt að raunverulegur árangur verði umtalsvert frábrugðinn því sem spáð er í þessari fréttatilkynningu. Íslandsbanki hf. hefur ekki skyldu til að, og mun ekki, uppfæra þessar spár um framtíðarhorfur félagsins til að endurspegla atburði og aðstæður sem eiga sér stað eftir útgáfu þessarar fréttatilkynningar. Það er ábyrgð fjárfestis að reiða sig ekki seinna meir á spár um framtíðarhorfur sem eru settar fram í þessari  fréttatilkynningu  þar sem þær eiga eingöngu við á þeim tíma sem hún er gefin út.  Spár um framtíðarhorfur gefa ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur og eru allar yfirlýsingar um framtíðarhorfur félagsins fullgildar í heild sinni með tilliti til þessa fyrirvara.