Published: 2019-05-08 19:39:55 CEST
Arion banki hf.
Árshlutareikningur (Q1 og Q3)

Afkoma Arion banka á fyrsta ársfjórðungi 2019

Jákvæð þróun í kjarnastarfsemi en óreglulegir liðir hafa neikvæð áhrif

Hagnaður samstæðu Arion banka á fyrsta ársfjórðungi 2019 nam 1,0 milljarði króna samanborið við 1,9 milljarða króna hagnað á sama tímabili 2018. Arðsemi eigin fjár var 2,1% á fyrsta ársfjórðungi 2019 samanborið við 3,6% á sama tímabili árið 2018. Arðsemi eigin fjár að Valitor undanskildu var 6,2% á fyrsta ársfjórðungi 2019 samanborið við 4,8% á sama tímabili árið 2018. Valitor er skilgreint sem eign til sölu.  

Heildareignir námu 1.223 milljörðum króna í lok mars 2019 samanborið við 1.164 milljarða króna í árslok 2018 og eigið fé nam 193 milljörðum króna, samanborið við 201 milljarð króna í árslok 2018. Arion banki greiddi 10 milljarða króna í arð á fyrsta ársfjórðungi 2019, sem samsvarar 5 kr. á hlut.

Eiginfjárhlutfall bankans var 22,3% í lok mars 2019 en var 22,0% í árslok 2018. Hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1 nam 21,3% í lok mars 2019, samanborið við 21.2% í árslok 2018.


Stefán Pétursson, starfandi bankastjóri Arion banka

„Óreglulegir liðir gera það að verkum að afkoma fyrsta ársfjórðungs veldur vonbrigðum. Regluleg starfsemi bankans fer hins vegar batnandi og vaxa helstu tekjuliðir eins og vaxta- og þóknanatekjur og tekjur af tryggingastarfsemi borið saman við fyrsta ársfjórðung síðasta árs. Vaxtamunur helst stöðugur þrátt fyrir lægri verðbólgu auk þess sem aðgerðir bankans sem snúa að hagstæðari fjármögnun hafa ekki komið fram nema að litlu leyti. Hvað óreglulega liði varðar þá eru það einkum gjaldþrot WOW air og dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli gegn Valitor sem hafa neikvæð áhrif á afkomuna en sala bankans á hlut sínum í Farice vegur upp á móti. Einnig hefur hægt á í hagkerfinu sem dregur úr tekjuvexti og eykur almennar niðurfærslur, en þær taka mið af væntingum um þróun efnahagslífsins.

Rekstrarkostnaður bankans er stöðugur en unnið er að því að auka hagræði í starfsemi bankans m.a. með auknu vægi stafrænna lausna. Bankinn hefur á undanförnum árum kynnt til leiks fjölda stafrænna lausna sem njóta vinsælda hjá okkar viðskiptavinum og einfalda bæði þeim að sinna sínum fjármálum og okkur að veita góða þjónustu. Á fyrsta ársfjórðungi kom ný útgáfa af Arion banka appinu sem er aðgengileg öllum sem vilja koma í viðskipti. Í dag kynntum við svo til leiks Apple Pay. Viðskiptavinir okkar geta frá og með deginum í dag tengt VISA kortin sín við Apple Pay og greitt með iPhone símum, Apple Watch úrum og Mac tölvum á fljótlegan og öruggan hátt í verslunum, á vefsíðum, í snjallforritum, auk fjölda annarra staða hér á landi og víðs vegar um heim. Má segja að það hafi aldrei verið þægilegra að sinna sínum fjármálum eða greiða fyrir vörur og þjónustu.

Fjárhagsstaða bankans er sem fyrr afar sterk og voru á tímabilinu tekin mikilvæg skref í að ná fram hagstæðari fjármagnsskipan. Aðalfundur samþykkti lækkun á hlutafé til jöfnunar á eigin hlutum bankans, sem átti um 9,3% hlutafjár, og arðgreiðslu sem samsvarar 5 krónum á hlut eða rúmum 9 milljörðum króna. Þessar aðgerðir hafa verið framkvæmdar og eru mikilvægur liður í bankinn nái fjárhagslegum markmiðum sínum til næstu 3-5 ára.

Arion banki skrifaði nýverið undir yfirlýsingu um að fylgja sex nýjum meginreglum UNEP FI um ábyrga bankastarfsemi. UNEP FI er vettvangur umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna og yfir 240 fyrirtækja og stofnana í fjármálageiranum víðs vegar um heim. Við munum nýta okkur þennan vettvang og horfa til meginreglnanna í okkar vegferð varðandi ábyrga bankastarfsemi og sjálfbærni, en markmið meginreglnanna er að tengja starfsemi banka við alþjóðleg viðmið og skuldbindingar á borð við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og Parísarsamkomulagið.

Eins og kunnugt er þá er dótturfélag Arion banka, Valitor, sem er öflugt alþjóðlegt fyrirtæki á sviði greiðslumiðlunar með starfsemi á Íslandi, Bretlandi og í Danmörku, í söluferli og er ætlunin að selja félagið að hluta eða fullu. Nauðsynlegur undirbúningur er vel á veg kominn og gerum við ráð fyrir fyrstu fundum með væntanlegum kaupendum á næstu vikum. Væntum við þess að niðurstaða fáist í söluferlið á þessu ári. Nýlegur dómur Héraðsdóms Reykjavíkur, þar sem félagið var dæmt til að greiða 1,2 milljarða króna í skaðabætur, hefur ekki áhrif á söluferli félagsins. Í apríl samdi Valitor á ný við Stripe, til tveggja ára, en félagið er eitt af fremstu fyrirtækjum á sviði fjártækni í heiminum.“


Fundur með markaðsaðilum

Haldinn verður fundur fyrir markaðsaðila fimmtudaginn 9. maí klukkan 8:30 þar sem Stefán Pétursson starfandi bankastjóri, Eggert Teitsson aðstoðarframkvæmdastjóri fjármálasviðs og Sture Stölen forstöðumaður fjárfestatengsla munu kynna afkomu bankans og svara spurningum þátttakenda. Fundurinn fer fram á ensku í höfuðstöðvum Arion banka, Borgartúni 19 og verður jafnframt streymt beint.

Þeir sem hyggjast sækja fundinn eru vinsamlegast beðnir um að skrá sig hér. Þeir sem vilja hringja inn á fundinn og taka þátt með því að leggja fram spurningar þurfa að hringja inn áður en kynningin hefst.

Ísland: 800 7508

Svíþjóð: +46 856 642 706

Bretland: +44 33 3300 9260

Bandaríkin: +1 83 3526 8347

Hægt verður að nálgast streymið beint á financialhearings.com og á fjárfestatengslavef bankans.


Vinsamlegast beinið fyrirspurnum til fjárfestatengsla bankans, ir@arionbanki.is Theódór Friðbertsson, 856 6760.

Fjölmiðlum er bent á að beina fyrirspurnum til Haraldar Guðna Eiðssonar, forstöðumanns samskiptasviðs, haraldur.eidsson@arionbanki.is, +354 856 7108.


Fjárhagsdagatal 2019

Samkvæmt áætlun munu uppgjör bankans verða birt sem hér segir:

Árshlutauppgjör 2F 2019                                               8. ágúst 2019

Árshlutauppgjör 3F 2019                                             30. október 2019


Dagatalið er birt með fyrirvara um breytingar.

Þessar upplýsingar eru birtar í samræmi við upplýsingaskyldu Arion banka hf. skv. reglugerð Evrópusambandsins um markaðssvik.

Viðhengi


Arion Bank - Consolidated Financial Statements 31 March 2019.pdf
Arion Bank Investor Presentation Q1 2019.pdf
Arion Bank Press Release Q1 2019.pdf