English Icelandic
Birt: 2019-04-29 22:30:06 CEST
Marel hf.
Árshlutareikningur (Q1 og Q3)

Marel 1F 2019: Góð byrjun á árinu

Marel kynnir afkomu fyrsta ársfjórðungs 2019 (allar upphæðir eru í evrum)

Helstu atriði 1F 2019

  • Pantanir námu 323,3 milljónum evra (1F18: 329,3m).
  • Tekjur námu 324,6 milljónum evra (1F18: 288,4m).
  • EBIT* nam 47,5 milljónum evra (1F18: 43,8m), sem var 14,6% af tekjum (1F18: 15,2%).
  • Hagnaður nam 32,2 milljónum evra (1F18: 28,3m).
  • Hagnaður á hlut (EPS) var 4,85 evru sent (1F18: 4,11 evru sent).
  • Handbært fé frá rekstri fyrir fjármagnsliði og skatta nam 59,6 milljónum evra (1F18: 55,6m).
  • Skuldahlutfall (nettó skuldir/EBITDA) var x2,2 í lok mars (4F18: x2,0). Markmið félagsins um fjármagnsskipan er að halda skuldahlutfalli milli x2-3 nettó skuldir/EBITDA.
  • Pantanabókin stóð í 474,7 milljónum evra við lok fyrsta ársfjórðungs (4F18: 476,0m og 1Q18: 528,7m)

Töluvert ítarlegri umfjöllun um rekstur og afkomu félagsins má finna í enskri útgáfu fréttatilkynningarinnar (íslenska útgáfan veitir aðeins yfirlit yfir helstu þætti uppgjörsins, horfur, fjárfestafund og fjárhagsdagatal).


Árni Oddur Þórðarson, forstjóri:

„Við erum ánægð með góða byrjun á árinu þar sem tekjur aukast um 13% á fyrsta ársfjórðungi samanborið við sama tímabil í fyrra. Áfram skilum við góðum rekstri með 14,6% EBIT sem er í línu við framlegð fyrir allt árið 2018. 

Mótteknar pantanir voru 323 milljónir sem er aukning frá fyrri ársfjórðungum og standa nærri hæsta gildi pantana frá fyrsta ársfjórðungi síðasta árs. Við störfum á breytilegum og ört vaxandi markaði þar sem neytendur um allan heim sækjast eftir jafnvægi í mataræði þar sem fiskur, kjöt og kjúklingur eru mikilvæg undirstaða. Lykill að góðri sölu er framsækið vöruframboð og víðfeðmt sölu- og þjónustunet í öllum heimsálfum. Á fyrsta ársfjórðungi var aukning í pöntunum á stærri verkefnum í Asíu og Kína, en markaðir í Evrópu og Bandaríkjunum hafa verið nokkuð stöðugir.

Framundan eru kjötiðnaðarsýning IFFA í Frankfurt og sjávarútvegssýningin í Brussel þar sem við munum kynna fjölda nýrra lausna til leiks. Áhersla okkar þar er á aukna sjálfvirkni og sveigjanleika til að gera framleiðendum kleift að afhenda viðskiptavinum sínum hentug, örugg og hagkvæm matvæli sem framleidd eru á sjálfbæran hátt.

Áform um tvíhliða skráningu hlutabréfa Marel í Euronext kauphöllina í Amsterdam, til viðbótar við þá íslensku, ganga samkvæmt áætlun. Stefnt er að skráningu snemmsumars með fyrirvara um að  markaðsaðstæður á fjármálamörkuðum haldist hagstæðar.“


Aðalfundur þann 6. mars samþykkti arðgreiðslu sem samsvarar 30% af hagnaði ársins 2018

Aðalfundur Marel sem haldinn var þann 6. mars sl. samþykkti arðgreiðslu sem nemur 5,57 evru sentum á hlut, eða sem samsvarar 30% af hagnaði ársins 2018. Um er að ræða 33% aukningu á arði á hlut milli ára og var arðurinn greiddur til hluthafa þann 27. mars 2019. Með formlegri endurkaupaáætlun sem sett var af stað í desember 2018 hefur Marel keypt alls 16,2 milljónir eigin hluta, sem nemur 2,4% af útgefnum hlutum félagsins. Engin endurkaup hafa átt sér stað eftir aðalfundinn 6. mars. Einnig samþykkti aðalfundur að lækka hlutafé félagsins um 11,6 milljónir hluta í tengslum við tvíhliða skráningu félagsins til viðbótar við skráningu í íslensku kauphöllinni. Í dag á Marel eigin bréf sem nemur 1,7% af hlutafé félagsins.

Allar tillögur stjórnar til aðalfundar voru samþykktar, þar á meðal heimild til handa félaginu til að kaupa allt að 10% af eigin hlutafé. Heimild sú gildir í 18 mánuði frá samþykki. Einnig var samþykkt heimild stjórnar til að auka hlutafé félagsins um allt að 100 milljónum króna að nafnvirði sem ætlað er sem endurgjald vegna fyrirtækjakaupa félagsins. Auk þess var samþykkt heimild stjórnar til hækkunar hlutafjár um allt að 100 milljónum króna að nafnvirði í tengslum við fyrirhugaða tvíhliða skráningu hlutabréfa í félaginu.


Horfur

Markaðsaðstæður hafa verið einstaklega góðar að undanförnu en eru nú meira krefjandi í ljósi umróts á heimsmörkuðum. Marel býr að góðri dreifingu tekna á milli markaða og iðnaða í gegnum alþjóðlegt sölu- og þjónustunet sitt ásamt framsæknu og breiðu vöru- og þjónustuframboði. 

Marel stefnir að 12% meðalvexti árlega yfir tímabilið 2017-2026 sem byggir á öflugri markaðssókn og nýsköpun, samstarfi við lykilaðila og yfirtökum á fyrirtækjum.

  • Marel gerir ráð fyrir að almennur markaðsvöxtur nemi 4-6% til lengri tíma. Með sterkri markaðssókn og nýsköpun stefnir Marel að innri vexti umfram almennan markaðsvöxt.
  • Gera má ráð fyrir að áframhaldandi traustur rekstur og sterkt sjóðstreymi geti stutt við 5-7% ytri meðalvöxt á ári.
  • Marel gerir ráð fyrir að hagnaður á hlut vaxi hraðar en tekjur.

Áætlaður vöxtur veltur á hagsveiflum og þeim tækifærum sem eru í boði hverju sinni og gera má ráð fyrir að hann verði því ekki línulegur. Gera má ráð fyrir breytilegri afkomu milli ársfjórðunga vegna efnahagsþróunar, sveifla í pöntunum og tímasetningu stærri verkefna.


Afkomuefni

Ítarlegri umfjöllun um rekstrarafkomu má finna í enskri útgáfu fréttatilkynningar sem er í viðhengi. Sé misræmi á milli uppgjörstilkynninga félagsins á íslensku annars vegar og ensku hins vegar, skal enska útgáfan gilda þar sem tilkynningar eru þýddar af ensku yfir á íslensku.


Fjárfestafundur

Þriðjudaginn 30. apríl 2019 kl. 8:30 verður haldinn afkomufundur með markaðsaðilum og fjárfestum. Þar munu Árni Oddur Þórðarson forstjóri og Linda Jónsdóttir fjármálastjóri kynna afkomu félagsins og helstu atriði úr rekstri á fyrsta ársfjórðungi.  

Afkomufundurinn verður haldinn í höfuðstöðvum félagsins, Austurhrauni 9 í Garðabæ. Boðið verður upp á morgunverð frá kl. 8:00.

Fundinum verður einnig vefvarpað á www.marel.com/webcast. Áhorfendur geta tekið þátt og sent inn spurningar til fundarins með að smella á tákn efst í hægra horni vefvarpsins.


Kauphallardagur Marel í Hollandi, 2. maí 2019

Marel mun halda kynningarfund með fjárfestum og markaðsaðilum í nýsköpunar- og framleiðslustarfsstöð félagsins í Boxmeer, Hollandi þann 2. maí næstkomandi. Þar munu lykilstjórnendur Marel flytja erindi um vöxt félagsins frá sprotafyrirtæki til leiðtoga á sínu sviði á heimsvísu. Auk þess verður farið yfir markaðshorfur, lykiltölur úr rekstri, viðskiptamódel og vaxtarstefnu. Kynningarnar verða aðgengilegar á marel.com/IR.

Daginn eftir þann 3. maí gefst þátttakendum einnig tækifæri á að heimsækja hátækniverksmiðju í kjúklingaframleiðslu í Hollandi hjá viðskiptavini Marel til margra ára.

Nánari upplýsingar má nálgast í gegnum netfangið IR@marel.com.


Fjárhagsdagatal

Marel mun halda aðalfund og birta árshluta- og ársuppgjör félagsins samkvæmt neðangreindu fjárhagsdagatali:

  • 2F 2019 - 24. júlí 2019
  • 3F 2019 - 23. október 2019
  • 4F 2019 - 5. febrúar 2020
  • Aðalfundur - 4. mars 2020

Birting fjárhagsupplýsinga mun eiga sér stað eftir lokun markaðar.


Fjárfestatengsl

Nánari upplýsingar veita Tinna Molphy og Marinó Þór Jakobsson í gegnum netfangið IR@marel.com og í síma 563 8001. 


Athygli fjárfesta er vakin á eftirfarandi:

Sumar staðhæfingar í þessari fréttatilkynningu kunna að vera byggðar á mati og áætlunum stjórnenda félagsins en ekki á staðreyndum sem hægt er að sannreyna við birtingu hennar. Í eðli sínu fela slíkar staðhæfingar því í sér óvissu. Við vekjum þess vegna athygli fjárfesta á því að margir þættir geta haft þau áhrif að rekstrarumhverfi og afkoma verði með öðrum hætti en forsendur gera ráð fyrir í þessari tilkynningu. Tilkynningin verður ekki endurskoðuð eftir birtingu hvað þetta varðar.

Gögn um markaðshlutdeild

Yfirlýsingar um markaðshlutdeild, þar með taldar þær sem varða samkeppnisstöðu Marel, byggjast á utanaðkomandi heimildum og gögnum, svo sem gögnum frá rannsóknastofnunum, iðnaðar- og sölunefndum og hópum, ásamt mati stjórnenda Marel. Séu upplýsingar ekki tiltækar fyrir Marel kunna slíkar yfirlýsingar að vera byggðar á áætlunum og mati utanaðkomandi aðila og/eða stjórnenda. Markaðsstaða er byggð á sölutölum nema annað sé tekið fram.

Fyrirvari vegna viðskipta í Bandaríkjunum

Sala á hlutum í Marel hf. hefur ekki verið og verður ekki skráð samkvæmt US Securities Act frá 1933, með síðari breytingum (Verðbréfalögin). Hlutir í Marel hf. verða ekki boðnir til sölu eða seldir í Bandaríkjunum án tilskilinnar skráningar samkvæmt Verðbréfalögunum eða samkvæmt gildandi undanþágu frá skráningarkröfum Verðbréfalaganna. Það verður ekki útboð á hlutum í Marel hf. í Bandaríkjunum (þar sem "Bandaríkin" vísa til Bandaríkja Norður-Ameríku, yfirráðasvæði þeirra og eigna, allra ríkja Bandaríkjanna og District of Columbia).

Sé misræmi á milli uppgjörstilkynninga félagsins á íslensku annars vegar og ensku hins vegar, skal enska útgáfan gilda þar sem tilkynningar eru þýddar af ensku yfir á íslensku.

Viðhengi


Marel 1Q 2019 Condensed Consolidated Interim Financial Statements_vFinal.pdf
Marel - Q1 2019 Condensed Consolidated Interim Financial Statements - EXCEL.xlsx
Marel Q1 2019 Press release_vF.pdf