Icelandic
Birt: 2019-04-11 18:29:55 CEST
Reginn hf.
Árshlutareikningur (Q1 og Q3)

Reginn hf.: Árshlutareikningur fyrstu 3 mánuði ársins

Árshlutareikningur Regins hf. 1. janúar til 31. mars 2019 var samþykktur af stjórn þann 11. apríl 2019.

  • Rekstrartekjur námu 2.397 m.kr.
  • Vöxtur leigutekna frá fyrra ári var 30%.
  • Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir var 1.607 m.kr. sem er 37% aukning frá sama tímabili í fyrra.
  • Bókfært virði fjárfestingareigna í lok tímabils er 133.531 m.kr. Matsbreyting á tímabilinu var 871 m.kr.
  • Hagnaður eftir tekjuskatt nam 1.055 m.kr. sem er lækkun um 28% frá frá sama tímabili í fyrra.
  • Handbært fé frá rekstri nam 1.457 m.kr.
  • Vaxtaberandi skuldir voru 80.138 m.kr. í lok tímabilsins. Skuldsetning sem hlutfall af fjárfestingareignum er 61%.
  • Eiginfjárhlutfall er 32%.
  • Hagnaður á hlut fyrir tímabilið er 0,58 en var 0,86 fyrir sama tímabil í fyrra.

Félagið er skráð í Kauphöll Íslands (NASDAQ Iceland hf.), fjöldi hluthafa þann 31. mars sl. voru 492.

Rekstur og afkoma

Rekstur félagsins gengur vel og er hann í samræmi við áætlanir. Rekstrartekjur námu 2.397 m.kr. og þar af námu leigutekjur 2.251 m.kr. Hækkun leigutekna frá sama tímabili í fyrra var 30%.

Rekstrarhagnaður fyrir söluhagnað, matsbreytingu og afskriftir / EBITDA var 1.607 m.kr. sem er 37% hærra en á sama tímabili í fyrra. 

Eignasafn og efnahagur

Eignasafn Regins er fjölbreytt og samanstendur af góðu atvinnuhúsnæði með háu útleiguhlutfalli og traustum leigutökum. Fjöldi fasteigna í lok tímabilsins var 120 og heildarfermetrafjöldi þeirra eigna er um 380 þúsund. Útleiguhlutfall á safni Regins er um 97% miðað við þær tekjur sem 100% útleiga gæfi.

Fasteignasafn Regins er metið á gangvirði í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS). Safnið er metið í lok hvers árs í tengslum við gerð ársreiknings sem og í lok hvers uppgjörstímabils. Matsbreyting á fyrstu 3 mánuðum ársins nam 871 m.kr.

Umsvif og horfur

Fyrsti fjórðungur ársins hefur farið vel af stað hjá félaginu. Auk hefðbundins reksturs þá hefur verið lögð áhersla á að efla og styrkja innri starfsemi.

Mikil áhersla hefur verið lögð á fjárfestingar í verkefnum sem gefa öruggar og stöðugar tekjur. Sérstaklega hefur verið horft til verkefna þar sem opinberir aðilar og sterk fyrirtæki eru meðal leigutaka. Tryggingastofnun ríkisins fékk afhent húsnæði undir starfsemi sína að Hlíðasmára 11 í lok mars. Eignin er 2.564 fermetra skrifstofuhúsnæði og var aðlöguð og endurinnréttuð fyrir starfsemina.

Umbreytingarferli Smáralindar er lokið með góðum árangri. Viðtökur viðskiptavina hafa verið jákvæðar, sterkar og sjáanlegar í aðsóknartölum. Hlutfall alþjóðlegra verslana og veitingastaða í Smáralind er mjög sterkt og hefur aukist jafnt og þétt á síðustu árum og er í dag um 50% af verslunarfermetrum Smáralindar.

Ímynd vörumerkisins Smáralind hefur styrkst gríðarlega og var það staðfest með niðurstöðum Fyrirtækjakönnunar Gallup, þar sem Smáralind var hástökkvari ársins 2018 þegar kemur að viðhorfi fólks til vörumerkja. Smáralind stökk úr 63. sæti í 22. sæti af 343 mældum fyrirtækjum. Eftir páska munu Monki og Weekday opna verslanir í vesturhluta Smáralindar.

Í október opnaði fyrsta verslunin á Hafnartorgi en þá opnaði H&M verslun fyrir fatnað og H&M Home. Viðtökurnar við þeim verslunum hafa verið góðar og þær sett svip á miðbæ Reykjavíkur. Á næstu vikum munu verslanirnar Collections með úrval vara frá Polo Ralph Lauren, Hugo Boss, Emporio Armani og Sand, GK Reykjavík með úrval vara frá Filippa K, Tiger of Sweden, Paul Smith, J. Lindeberg, Calvin Klein, Acne o.fl og COS opna. Frekari opnanir eru fyrirhugaðar næstu mánuði og má þá nefna Michelsen, Optical Studio og Joe & The Juice.

Stefnumótun var lokið í byrjun ársins og henni gerð góð skil á aðalfundi félagsins. Innleiðing nýrrar stefnu er nú hafin og gengur vel. Félagið hefur einnig lagt mikla áherslu á góða stjórnarhætti og hlaut í dag viðurkenningu sem Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum.

Stjórnendur félagsins telja að horfur í rekstri félagsins séu góðar.

Kynning á félaginu

Samhliða birtingu uppgjörs boðar Reginn til opins kynningarfundar föstudaginn 12. apríl, kl. 08:30 á skrifstofu Regins í Smáralind, Hagasmára 1, 201 Kópavogi. Helgi S. Gunnarsson forstjóri félagsins mun kynna afkomu fyrstu þriggja mánaða ársins 2019 og svara spurningum. Skráning á kynningarfundinn fer fram í gegnum netfangið fjarfestatengsl@reginn.is.

Fundinum verður einnig varpað í gegnum netið á eftirfarandi slóð:
https://livestream.com/accounts/11153656/events/8627169/player

Hægt er að nálgast árshlutareikning vegna fyrstu þriggja mánaða ársins og kynningargögn á www.reginn.is/fjarfestavefur/

Nánari upplýsingar veitir:

Helgi S. Gunnarsson
Forstjóri Regins hf.
Sími: 512 8900 / 899 6262

Viðhengi


Reginn hf. - Arshlutareikningur 1F 2019 - undirritaur.pdf
Reginn hf. - Fjarfestakynning 1F 2019.pdf
Reginn hf. - Tilkynning um uppgjor 1F 2019.pdf