Icelandic
Birt: 2019-03-28 12:42:04 CET
Alma íbúðafélag hf.
Ársreikningur

Almenna leigufélagið ehf.: Ársreikningur 2018

Á fundi sínum í dag samþykkti stjórn Almenna leigufélagsins ehf. ársreikning samstæðunnar fyrir árið 2018

Rekstrartekjur samstæðunnar voru 2.787 m.kr. á tímabilinu. Þá var EBITDA (rekstarhagnaður fyrir matsbreytingu, afskriftir og fjármagnsliði) 1.489 m.kr. fyrir tímabilið og EBITDA hlutfall leiðrétt fyrir einskiptisliðum var 60,4%. Afkoma ársins eftir skatta nam 397 m.kr. Handbært fé frá rekstri jókst um 163 m.kr. frá fyrra ári og nam 261 m.kr.

Heildareignir samstæðunnar jukust um 4.045 m.kr. og námu 46.174 m.kr. í árslok en þar af voru fjárfestingareignir að andvirði 45.109 m.kr. Vaxtaberandi skuldir námu 29.048 m.kr. og eigið fé samstæðunnar var 12.680 m.kr.

María Björk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Almenna leigufélagsins:

„Árið 2018 markaði ákveðin þáttaskil í rekstri Almenna leigufélagsins eftir mikinn vaxtarfasa undanfarin ár. Á árinu styrkti félagið grunnrekstur sinn verulega á sama tíma og það náði góðum árangri í að lækka vaxtakostnað. EBITDA hlutfall félagsins (leiðrétt fyrir einskiptisliðum) var 60,4% á móti 58% árið 2017. Félagið endurfjármagnaði lán að fjárhæð 12,7 ma.kr. á árinu, að stórum hluta með skuldabréfaúgáfu, og lækkuðu vegnir vextir á verðtryggðum skuldum félagsins úr 4,4% í 3,8%. Auk þess jókst hlutfall verðtryggðra skulda af vaxtaberandi skuldum úr 55% í 59% á tímabilinu sem er í takt við fjármögnunarstefnu félagsins.

Vegna þeirrar óvissu sem nú er uppi í hagkerfinu kemur fyrirhuguð skráning félagsins á hlutabréfamarkað ekki til álita sem sakir standa en engu síður er það áfram markmiðið. Það eru spennandi verkefni framundan og við munum nýta tímann fram að skráningu vel. Við teljum fjármagnskostnað félagsins geta lækkað enn frekar með aukinni aðkomu öflugra stofnanafjárfesta að fjármögnun. Við getum boðið þeim upp á traustan og stöðugan rekstur, mikla áhættudreifingu og fasteignasafn sem er einstakt þegar litið er til stærðar og staðsetningar.

Við höfum allt frá stofnun lagt ríka áherslu á að veita viðskiptavinum okkar framúrskarandi þjónustu samhliða því að byggja upp öfluga ferla og tæknilausnir til þess að tryggja skilvirkni og hagkvæmni í umsýslu og rekstri eignasafnsins. Þessar áherslur í stefnu félagsins hafa lagt grunninn að þeim mikla árangri sem náðst hefur á tiltölulega skömmum tíma.

Þá hefur það verið yfirlýst markmið félagsins að vera leiðandi í uppbyggingu á faglegum og neytendavænum leigumarkaði á Íslandi. Nýverið tókum við stórt skref á þeirri vegferð þegar við kynntum nýja tegund leigusamninga sem tryggja leigjendum búsetuöryggi og fast leiguverð til allt að sjö ára. Samhliða því kynntum við nýtt vörumerki, en leigustarfsemi félagsins ber nú nafnið Alma. Við erum afar ánægð með útkomuna, en um er að ræða verkefni sem hefur verið lengi í undirbúningi og við teljum að muni höfða jafnt til viðskiptavina og fjárfesta. Húsnæðismálin eru eitt mikilvægasta úrlausnarefni samtímans og uppbygging faglegs leigumarkaðar sem tryggir leigjendum húsnæðisöryggi er hluti af lausninni.“

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar veitir María Björk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri, í síma 774 0604 eða maria@al.is.

Viðhengi


Almenna leigufelagi ehf. - Arsreikningur 31.12.2018.pdf
Almenna leigufelagi ehf. - Tilkynning 31.12.2018.pdf