Published: 2019-03-07 17:45:51 CET
Eik fasteignafélag hf.
Ársreikningur

Eik fasteignafélag hf.: Ársreikningur Eikar fasteignafélags hf. 2018

 • Rekstrartekjur ársins námu 8.108 m.kr.
 • Leigutekjur ársins námu 6.765 m.kr. samanborið við 6.320 m.kr. árið 2017.
 • Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu, söluhagnað fjárfestingareigna og afskriftir nam 5.218 m.kr.
 • Heildarhagnaður ársins nam 2.572 m.kr.
 • Handbært fé frá rekstri nam 2.909 m.kr. á árinu.
 • Bókfært virði fjárfestingareigna nam 90.302 m.kr.
 • Eignir til eigin nota námu 3.756 m.kr.
 • Matsbreyting fjárfestingareigna nam 1.501 m.kr.
 • Vaxtaberandi skuldir námu 58.138 m.kr. í árslok.
 • Eiginfjárhlutfall nam 31,9%.
 • Hagnaður á hlut var 0,73.
 • Virðisútleiguhlutfall var 95,2% í lok árs.
 • Stjórn leggur til að greiddur verði út 1.020 m.kr. arður, 0,29 kr. á hlut.

Ársreikningur Eikar fasteignafélags var samþykktur af stjórn félagsins í dag, 7. mars 2019.

Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri:

„Rekstur Eikar fasteignafélags gekk heilt yfir vel á árinu 2018. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingar, söluhagnað fjárfestingareigna og afskriftir var 5.218 m.kr. og heildarhagnaður félagsins var 2.572 m.kr. EBITDA félagsins var lítillega undir áætlaðri EBITDA, eða rúmu 1%.

Félagið hélt þrjú vel heppnuð skuldabréfaútboð á árinu og stækkaði flokkinn EIK 161047 um 10,1 ma.kr. á veginni ávöxtunarkröfu 3,58%. Flokkurinn er í dag 20 ma.kr. sem er hámarksstærð hans og er ánægjulegt að sjá áhuga fjárfesta á flokknum. Með þessu hefur félagið náð betri vaxtakjörum en félagið sækist eftir að hafa vaxtakjör sem hagstæðust.

Fasteignagjöld eru langstærsti kostnaðarliður félagsins og hafa miklar hækkanir á fasteignamati undanfarin ár verið fordæmalausar. Hækkun fasteignamats á fasteignasafni Eikar fyrir árið 2019 var tæp 17%. Eik hefur á undanförnum misserum sett inn skýrt ákvæði í nýja samninga sem heimilar félaginu að hækka leigu vegna hækkunar á fasteignamati og er ákvæðið komið í samninga sem nema 17% af leigutekjum félagsins.“

Félagið hefur gefið út ársskýrslu félagsins, sem hefur að geyma ítarlegar upplýsingar um félagið og rekstur þess á árinu 2018 ásamt ársreikningi. Skýrslan er meðfylgjandi þessari tilkynningu og má einnig finna á heimasíðu félagsins, www.eik.is.

Ársreikningur Eikar fasteignafélags hefur að geyma samstæðureikning félagsins og dótturfélaga þess og er hann gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS). Endurskoðendur félagsins, KPMG ehf., hafa endurskoðað reikninginn og áritað hann fyrirvaralaust.

Tillaga um arðgreiðslu

Félagið stefnir að því að greiða árlega út arð sem nemur um 35% af handbæru fé frá rekstri hvers árs. Í samræmi við stefnuna leggur stjórn félagsins til við aðalfund, sem haldinn verður 10. apríl nk., að greiddar verði 1.020 m.kr. (0,29 kr. á hlut) í arð til hluthafa á árinu 2019 vegna rekstrarársins 2018.

Horfur

Félagið hefur gefið út ítarlega rekstraráætlun fyrir árið 2019 sem finna má í meðfylgjandi ársskýrslu félagsins og á heimasíðu þess, www.eik.is.

Samkvæmt fjárhagsáætlun fyrir árið 2019 mun EBITDA félagsins verða 5.560 m.kr. m.v. 2,5% jafna verðbólgu sem er 6,6% aukning milli ára. Tekjur samstæðunnar munu verða 8.709 m.kr., gjöld 3.149 m.kr. og viðhald og endurbætur 509 m.kr. Þá ráðgerir félagið að fjárfestingar í núverandi fasteignum félagsins geti numið á bilinu 1.000-2.000 m.kr. á árinu 2019 og að allar fjárfestingar sem félagi leggst í skili því ásættanlegri arðsemi. Félagið mun áfram hafa að leiðarljósi stefnu sína um arðsemi umfram vöxt þegar kemur að kaupum og sölu á fjárfestingareignum.

Áhrif IFRS 16 Leigusamningar á áætlun ársins

Til áréttingar þá meðhöndlaði félagið skuldbindingu vegna lóðarleigu óbreytt á milli ára í rekstraráætlun ársins. Að mati félagsins er lóðarleiga hluti af rekstrarkostnaði fasteigna en samkvæmt IFRS 16 mun greidd lóðarleiga færast sem hluti af fjármagnsgjöldum félagsins sem hækkar áætlaðan rekstrarhagnað en hefur engin áhrif á heildarhagnað.

Fjármögnun

Félagið leitast ávallt eftir því að vera með hagkvæmustu vaxtakjör sem völ er á og um áramót voru vegnir verðtryggðir vextir félagsins 3,74%. Í júní opnast heimild til endurfjármögnunar á skuldabréfaflokknum LF 14 1 en flokkurinn ber 3,9% vexti og er tæplega 12,4 ma.kr. að nafnverði. Því til viðbótar er félagið með sveigjanlega bankafjármögnun að fjárhæð rúmlega 16,7 ma.kr. Stærsti hluti hennar var á föstum vöxtum um áramótin með uppgreiðslugjöldum en samið hefur verið um að vextir verði breytilegir og uppgreiðslugjöld falli niður.

Eignasafn félagsins

Fasteignirnar innan samstæðunnar eru rúmlega 100 talsins og telja tæplega 310 þúsund útleigufermetra í 600 leigueiningum og eru leigutakarnir á fimmta hundrað. Helstu fasteignir félagsins eru Borgartún 21 og 26, Suðurlandsbraut 8, Mýrargata 2-16, Pósthússtræti 2, Álfheimar 74 (Nýi Glæsibær), Grjótháls 1-3 og Austurstræti 5,6,7 og 17 í Reykjavík, Smáratorg 1 og 3 í Kópavogi og Glerártorg á Akureyri.

Stærsti eignaflokkur félagsins er skrifstofuhúsnæði sem er 45% af virði alls fasteignasafnsins. Annar stærsti eignaflokkurinn er verslunarhúsnæði, eða 24% safnsins. Þriðji stærsti eignarflokkurinn er lager, eða 12% safnsins. Hótel eru 12% safnsins og annað húsnæði 7%.

Félagið keypti þrjár fasteignir á árinu og seldi fjórar og fjölgar fermetrum um 10.000. Kaup og sölur félagsins eru í takt við stefnu félagsins um arðsemi umfram vöxt. Eignirnar sem félagið keypti eru skrifstofuhúsnæði við Grjótháls 1-3 og tvö lagerhúsnæði við Vatnagarða 22 og Smiðshöfða 7. Þá seldi félagið Ármúla 13a, eignarhlut sinn í Vegmúla 4 og Bæjarlind 14-16 og hluta af eign sinni í Skeifunni 11.

Fjárhagsdagatal 2019

Stefnt er að birtingu árshluta- og ársuppgjöra á neðangreindum dagsetningum:

Aðalfundur                                                     10. apríl 2019

Árshlutauppgjör 1. ársfjórðungs 2019           8. maí 2019

Árshlutauppgjör 2. ársfjórðungs 2019           28. ágúst 2019

Árshlutauppgjör 3. ársfjórðungs 2019           31. október 2019

Ársuppgjör 2019                                            10. mars 2020

Birtingar fjárhagsupplýsinga mun eiga sér stað eftir lokun markaða.

Meðfylgjandi er ársskýrsla 2018 sem inniheldur ársreikning 2018.

Nánari upplýsingar veita:
Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri, gardar@eik.is, s. 590-2200
Lýður H. Gunnarsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, lydur@eik.is s. 590-2200 / 820 8980

Viðhengi


19.03.07 Eik fasteignafélag - Ársskýrsla 2018.pdf