Published: 2019-02-28 21:58:13 CET
Eimskipafélag Íslands hf.
Reikningsskil

Vöxtur á helstu mörkuðum en afkoman veldur vonbrigðum

Afkomuspá ársins 2019 er EBITDA á bilinu 49 til 57 milljónir evra

 • Tekjur námu 689,2 milljónum evra, hækkuðu um 25,2 milljón evra eða 3,8% frá 2017
  • Magn í áætlunarsiglingum jókst um 4,2% og tekjur hækkuðu um 10,8 milljón evra eða 2,5%
  • Magn í flutningsmiðlun jókst um 4,3% og tekjur hækkuðu um 14,4 milljónir evra eða 6,4%, en þar af voru 10,3 milljónir evra vegna fyrirtækja sem komu inn í samstæðuna um mitt ár 2017
 • EBITDA nam 49,2 milljónum evra, lækkaði um 8,0 milljónir evra eða 13,9% frá 2017
  • Helstu ástæður fyrir lækkun í EBITDA framlegð á milli ára má rekja til verri afkomu í frystiflutningum í Noregi, minni framlegðar af flutningsmiðlun í Evrópu og kostnaði við að bæta við þriðja skipi á svokallaðri Ameríkuleið en þar tók lengri tíma að byggja upp magn en gert var ráð fyrir
 • Hagnaður nam 7,4 milljónum evra samanborið við 16,8 milljóna evra hagnað 2017
 • Eiginfjárhlutfall var 49,1% samanborið við 53,2% árið áður
 • Skuldsetningarhlutfall var 2,8 samanborið við 1,8 árið 2017 sem skýrist af lækkun í EBITDA og fjárfestingum sem voru að hluta til fjármagnaðar með nýjum lántökum
 • Handbært fé frá rekstri nam 29,0 milljónum evra samanborið við 37,4 milljónir árið 2017
 • Fjöldi fastráðinna starfsmanna var í árslok 1821 og fækkaði um 32 á árinu
 • Stjórn félagsins leggur til 3,50 króna arðgreiðslu á hlut, alls um 653,2 milljónir króna eða um 4,8 milljónir evra sem nemur 64,8% af hagnaði ársins og er við efri mörk arðgreiðslustefnu félagsins


VILHELM ÞORSTEINSSON, FORSTJÓRI

„Afkoma Eimskips á árinu 2018 var undir væntingum. Nokkur tekjuaukning varð bæði í siglingakerfi félagsins sem og í flutningsmiðlun sem er jákvætt en á móti kemur að minnkandi framlegð, hærri kostnaður og afskriftir draga afkomu niður á milli ára. Lítilsháttar aukning varð á tekjum á fjórða ársfjórðungi sbr. sama ársfjórðung 2017 en engu að síður er rekstrarniðurstaða fjórðungsins tap, að hluta til vegna óreglulegra liða.

Samdráttur í  rekstrarniðurstöðu á milli ára skýrist af nokkrum megin þáttum umfram aðra. Í grunninn gengur siglingastarfsemin til og frá Íslandi og Færeyjum, ásamt annarri starfsemi í þessum löndum, vel en rekstrarafkoma í frystiflutningum í Noregi var langt undir væntingum og eins átti hluti af flutningsmiðlun í Evrópu undir högg að sækja á árinu, sérstaklega framan af ári. Starfsemin í Noregi hefur fengið sérstaka athygli og t.a.m. verið fækkað um tvö skip í rekstri, það síðara nú í janúar.  Lengri tíma tók að byggja upp magn fyrir þriðja skipið á Norður-Ameríku leið félagsins en áætlað var sem hafði áhrif á afkomu ársins en á síðustu mánuðum hefur orðið jákvæð þróun í magni í Trans-Atlantic þjónustu. Óvissa í efnahagsmálum á Íslandi m.a. tengdum kjaraviðræðum höfðu einnig áhrif á síðasta fjórðung ársins en hægt hefur á vexti í innflutningi og samdráttur í ákveðnum vöruflokkum. 

Töluverðar breytingar voru gerðar á skipulagi félagsins í upphafi árs 2019 sem eru til þess fallnar að skýra áherslur til muna, bæta reksturinn og auka arðsemina til lengri tíma litið. Siglingakerfi félagsins er endurskoðað með reglulegu millibili með tilliti til þróunar markaða, þarfa viðskiptavina og hagkvæmni. Áhersla er lögð á að samþætta vinnu og verkferla á milli eininga í allri starfsemi félagsins til að ná fram aukinni skilvirkni, m.a. með aukinni sjálfvirknivæðingu.

Eimskip stendur á ákveðnum tímamótum þegar horft er til reksturs og framtíðar. Seinni hluta árs 2019 gerum við ráð fyrir að taka á móti tveimur nýjum skipum, 2.150 gámaeiningar að stærð hvort um sig sem nú eru í smíðum í Kína og er fjárfesting í þeim hluti af væntanlegu samstarfi við Royal Arctic Line. Undanfarin ár hafa einkennst af miklum ytri vexti og er það nú sameiginlegt verkefni þess öfluga og samhenta hóps sem hjá Eimskip starfar að byggja á þeim grunni, halda skýrri sýn, skerpa á áherslum í rekstri og hámarka árangur.“


Frekari upplýsingar

 • Vilhelm Þorsteinsson, forstjóri, tel.: +354 525 7202
 • Egill Örn Petersen, framkvæmdastjóri fjármálasviðs,  tel.: +354 525 7315
 • Árni Sigurðsson, forstöðumaður, tel.: +354 525 7319, email: investors@eimskip.is

Viðhengi


2019 02 28 - PR Nasdaq - Uppgjör 2018.pdf
Eimskip - Consolidated Financial Statements 2018.pdf