English Icelandic
Birt: 2019-02-06 22:34:22 CET
Marel hf.
Ársreikningur

Marel: Ársuppgjör 2018 - 15% tekjuvöxtur og 14,6% EBIT á árinu

Fjórði ársfjórðungur 2018 – Mettekjur á ársfjórðungnum

  • Pantanir námu 296,0 milljónum evra (4F17: 281,5m).
  • Tekjur námu 330,8 milljónum evra (4F17: 294,8m).
  • EBIT* nam 48,2 milljónum evra (4F17: 46,2m), sem var 14,6% af tekjum (4F17: 15,7%).
  • Hagnaður nam 38,0 milljónum evra (4F17: 33,8m).
  • Hagnaður á hlut (EPS) var 5,61 evru sent (4F17: 4,81 evru sent).
  • Handbært fé frá rekstri fyrir fjármagnsliði og skatta nam 62,2 milljónum evra (4F17: 65,2m).

Árið 2018 – Sterkur innri vöxtur og góð rekstrarniðurstaða

  • Pantanir námu 1.184,1 milljónum evra (2017: 1.143,7m).
  • Tekjur námu 1.197,9 milljónum evra (2017: 1.038,2m).
  • EBIT* nam 175,2 milljónum evra (2017: 157,4m), sem var 14,6% af tekjum (2017: 15,2%).
  • Hagnaður nam 122,5 milljónum evra (2017: 96,9m).
  • Hagnaður á hlut (EPS) var 17,95 evru sent** (2017: 13,70 evru sent).
  • Handbært fé frá rekstri nam 205,8 milljónum evra (2017: 236,2m).
  • Skuldahlutfall (nettó skuldir/EBITDA) var x2,0 í lok árs (3Q18: x2.1). Markmið félagsins um fjármagnsskipan er að halda skuldahlutfalli milli x2-3.
  • Pantanabókin stóð í 476,0 milljónum evra við lok árs (2017: 472,1m)

Töluvert ítarlegri umfjöllun um rekstur og afkomu félagsins má finna í enskri útgáfu fréttatilkynningarinnar (íslenska útgáfan veitir aðeins yfirlit yfir helstu þætti uppgjörsins, horfur, fjárfestafund og fjárhagsdagatal).

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri:

Við erum ánægð með niðurstöðu fjórða ársfjórðungs og ársins í heild. Í fjórða ársfjórðungi skilum við mettekjum, 331 milljón evra, sem er 12% aukning samanborið við sterkan fjórða ársfjórðung árið á undan. Tekjur á árinu jukust um 15%, þar af er innri vöxtur 12,5%. Marel hefur einn mesta fjölda uppsettra vinnslukerfa í heiminum. Sá grunnur og aukin áhersla á þjónustu við viðskiptavini skila stöðugum viðhaldstekjum sem nema 35% af heildartekjum félagsins. EBIT framlegð nam 14,6% á fjórðungnum, líkt og á árinu.

Pantanir á fjórða ársfjórðungi námu 296 milljónum evra og hækkuðu um 5% á milli ára en 10% ef miðað er við síðasta ársfjórðung. Pantanir á árinu námu 1.184 milljónum evra og jukust lítillega í kjölfar kröftugs vaxtar fyrra árs. Viðskiptahindranir og umrót á alþjóðamörkuðum valda því að erfiðara er að tímasetja pantanir. Með alþjóðlegu sölu- og þjónustuneti og framsæknu vöruframboði er Marel engu að síður í leiðandi stöðu til þess að hjálpa matvælaframleiðendum að aðlagast breyttum aðstæðum á markaði og jafna framboð og eftirspurn.

Áfram gerum við ráð fyrir að almennur markaðsvöxtur nemi að meðaltali 4-6% á ári og markmið okkar er eftir sem áður að vaxa hraðar en markaðurinn.

Með firnasterku sjóðstreymi höldum við áfram að fjárfesta í nýsköpun, markaðssókn og innviðum. Við höldum einnig áfram að styrkja vöruframboð félagsins og alþjóðlega markaðssókn með yfirtökum sem styrkja okkur í þeirri vegferð að umbylta matvælaframleiðslu á heimsvísu. Á síðasta ári keyptum við þýska félagið MAJA fyrir 35 milljónir evra ásamt því að kaupa eigin bréf og greiða arð fyrir samtals 100 milljónir evra. Sterkt sjóðstreymi og góð rekstrarniðurstaða viðheldur skuldahlutfallinu í x2.0 nettó skuldir/EBITDA þrátt fyrir miklar fjárfestingar á tímabilinu.

Áform um tvíhliða skráningu hlutabréfa Marel í alþjóðlega kauphöll, til viðbótar við þá íslensku, ganga samkvæmt áætlun. Valið stendur nú fyrst og fremst á milli Euronext í Amsterdam og Nasdaq í Kaupmannahöfn. Markmið með tvíhliða skráningu er að auka seljanleika bréfa frá degi til dags og styðja við frekari vöxt og virðisaukningu.

Skráning Marel á alþjóðlegan markað

Áform um skráningu hlutabréfa Marel í alþjóðlegri kauphöll ganga samkvæmt áætlun. Á aðalfundi félagsins 2018 tilkynnti Ásthildur Margrét Otharsdóttir stjórnarformaður að STJ Advisors, óháðir alþjóðlegir ráðgjafar, hefðu verið fengnir til að greina mögulega skráningarkosti fyrir félagið.

Unnið er að því að fá tvo alþjóðlega fjárfestingabanka til ráðgjafar við skráningarferlið. Um leið og ákvörðun um kauphöll liggur fyrir, mun Marel leita ráðgjafar hjá þarlendum fjármálastofnunum.

Stjórn Marel telur, byggt á ráðgjöf stjórnenda og STJ Advisors, að tvíhlíða skráning í alþjóðlegri kauphöll sé til hagsbóta fyrir bæði núverandi og verðandi hluthafa Marel. Aðrir skráningarkostir sem voru til skoðunar voru að vera áfram skráð félag á Íslandi eingöngu eða afskrá félagið á Íslandi og skrá það að fullu erlendis.

Hluti af greiningarferlinu var ítarleg upplýsingabeiðni sem var send á fimm alþjóðlegar kauphallir. Í framhaldi voru skráningarkostir þrengdir niður í þrjár kauphallir, Amsterdam, Kaupmannahöfn, og London. Valið stendur nú fyrst og fremst á milli Euronext í Amsterdam og Nasdaq í Kaupmannahöfn.

Búist er við að ákvörðun um hvaða  kauphöll verði fyrir valinu verði kynnt á aðalfundi félagsins 2019 sem og ákvörðun um val á þarlendum fjármálastofnunum til ráðgjafar við framkvæmd skráningarinnar. Þegar ákvörðun liggur fyrir má gera ráð fyrir að ferlið taki allt að níu mánuði, en nákvæm tímasetning mun ráðast af þróun í starfsemi félagsins og almennum markaðsaðstæðum. 

Breytingar á skipulagi og framkvæmdastjórn

Í júní 2018, tilkynnti Marel um breytingu á skipulagi félagsins þar sem viðskipta- og sölusviði (e. Commercial) var skipt í tvö ný svið; þjónustu (e. Service) og alþjóðamarkaði (e. Global Markets).

Markmið skipulagsbreytinganna er að styðja við áframhaldandi vöxt og velgengni með því að bæta þjónustu við viðskiptavini og samræma verkferla fyrirtækisins á starfsstöðvum um allan heim. Nýja skipulagið gerir Marel kleift að vinna nánar með viðskiptavinum og að auka sveigjanleika til þess að styðja við metnaðarfulla vaxtarstefnu fyrirtækisins.

Formleg endurkaupaáætlun

Til að samræma hagsmuni núverandi hluthafa og framtíðarhluthafa í tengslum við áætlaða tvíhliða skráningu í alþjóðlega kauphöll, kallaði stjórn Marel til hluthafafundar þann 22. nóvember 2018 síðastliðinn.

Allar tillögur stjórnar til hluthafafundarfundar voru samþykktar. Tvær tillögur voru á dagskrá fundarins. Í fyrsta lagi, tillaga um lækkun á eigin hlutum félagsins vegna undirbúnings mögulegrar tvíhliða skráningar félagsins, til hagsbóta fyrir hluthafa. Samþykkt var að breyta grein 2.1. í samþykktum félagsins og er hún nú svohljóðandi:  „Hlutafé félagsins er kr. 682.585.921.“. 

Í öðru lagi, tillaga um heimild til stjórnar félagsins til þess að setja upp formlega endurkaupaáætlun, þar sem fjöldi hluta er að hámarki 34.129.296 hlutir, en það jafngildir 5% af útgefnu hlutafé félagsins. Allar frekari upplýsingar og gögn tengd hluthafafundinum má nálgast á vef félagsins: marel.com/hluthafafundur.

Til og með 1. febrúar 2019 , hefur Marel hf. keypt samtals 10,3 milljón eigin hluti samkvæmt áætluninni eða sem nemur 1,52% af útgefnum hlutum í félaginu og nemur heildarkaupverð þeirra 4,0 milljörðum króna. Endurkaup samkvæmt fyrri hluta áætlunarinnar munu nema að hámarki 17,3 milljónum hluta eða sem nemur 2,5% af útgefnum hlutum í félaginu. Fyrri hluti endurkaupaáætlunarinnar gildir frá 4. desember 2018 til og með 5. mars 2019.

Tillaga um arðgreiðslu

Stjórn Marel mun leggja til við aðalfund 2019 að hluthafar fái greiddan arð fyrir rekstrarárið 2018 sem nemur 5,57 evru sentum á hlut miðað við áætlaða útistandandi hluti á aðalfundardegi, sem nemur um 30% af hagnaði rekstrarársins 2018.

Þetta er í samræmi við arðgreiðslustefnu félagsins sem kynnt var á aðalfundi Marel hf. í mars 2011. Markmið félagsins um fjármagnsskipan er að halda skuldahlutfalli milli x2-3, en annað fjármagn skuli nýtt til að auka við vöxt og verðmætasköpun félagsins sem og að greiða út arð, í formi arðgreiðslna eða endurkaupa á hlutafé, sem jafngildir 20-40% af rekstrarniðurstöðu.

Horfur

Marel býr að breiðum tekjugrunni sem er vel dreifður á alþjóðamarkaði. Markaðsaðstæður hafa verið einstaklega góðar að undanförnu en eru nú meira krefjandi í ljósi viðskiptahindrana og minnkandi hagvaxtar á heimsmörkuðum.

Marel stefnir að 12% meðalvexti árlega yfir tímabilið 2017-2026 sem byggir á öflugri markaðssókn og nýsköpun, samstarfi við lykilaðila og yfirtökum á fyrirtækjum.

  • Marel gerir ráð fyrir að almennur markaðsvöxtur nemi 4-6% til lengri tíma. Með sterkri markaðssókn og nýsköpun stefnir Marel að innri vexti umfram almennan markaðsvöxt.
  • Áframhaldandi traustur rekstur og sterkt sjóðstreymi getur stutt við 5-7% ytri meðalvöxt á ári.
  • Marel gerir ráð fyrir að hagnaður á hlut vaxi hraðar en tekjur.

Áætlaður vöxtur veltur á hagsveiflum og þeim tækifærum sem eru í boði hverju sinni og verður því ekki línulegur. Gera má ráð fyrir breytilegri afkomu milli ársfjórðunga vegna efnahagsþróunar, sveifla í pöntunum og tímasetningu stærri verkefna.

Afkomuefni

Ítarlegri umfjöllun um rekstrarafkomu má finna í enskri útgáfu fréttatilkynningar sem er í viðhengi. Sé misræmi á milli uppgjörstilkynninga félagsins á íslensku annars vegar og ensku hins vegar, skal enska útgáfan gilda þar sem tilkynningar eru þýddar af ensku yfir á íslensku.

Fjárfestafundur

Fimmtudaginn 7. febrúar 2019 kl. 8:30 verður haldinn afkomufundur með markaðsaðilum og fjárfestum. Þar munu Árni Oddur Þórðarson, forstjóri og Linda Jónsdóttir fjármálastjóri kynna afkomu félagsins og helstu atriði úr rekstri á fjórða ársfjórðungi og árinu í heild sinni.

Afkomufundurinn verður haldinn í höfuðstöðvum félagsins, Austurhrauni 9 í Garðabæ. Boðið verður upp á morgunverð frá kl. 8:00.

Fundinum verður einnig vefvarpað á www.marel.com/webcastTekið verður við spurningum frá áhorfendum vefvarpsins. Til að senda inn spurningu þarf að smella á táknið efst í hægra horninu þegar vefvarpið hefst. Spurningum verður svarað í lok kynningarfundarins. Aðeins verða teknar spurningar frá þeim sem koma fram undir nafni. Því er mikilvægt að þátttakendur fylli út nafn, fyrirtæki og tölvupóstfang við innskráningu.

Fjárhagsdagatal

Marel mun halda aðalfund og birta árshluta- og ársuppgjör félagsins samkvæmt neðangreindu fjárhagsdagatali:

  • Aðalfundur - 6. mars 2019
  • 1F 2019 - 29. apríl 2019
  • 2F 2019 - 24. júlí 2019
  • 3F 2019 - 23. október 2019
  • 4F 2019 - 5. febrúar 2020
  • Aðalfundur - 4. mars 2020

Birting fjárhagsupplýsinga mun eiga sér stað eftir lokun markaðar.

Fjárfestatengsl

Nánari upplýsingar veita Tinna Molphy og Marinó Þór Jakobsson í gegnum netfangið IR@marel.com og í síma 563 8001. 

 

Athygli fjárfesta er vakin á eftirfarandi:

Sumar staðhæfingar í þessari fréttatilkynningu kunna að vera byggðar á mati og áætlunum stjórnenda félagsins en ekki á staðreyndum sem hægt er að sannreyna við birtingu hennar. Í eðli sínu fela slíkar staðhæfingar því í sér óvissu. Við vekjum þess vegna athygli fjárfesta á því að margir þættir geta haft þau áhrif að rekstrarumhverfi og afkoma verði með öðrum hætti en forsendur gera ráð fyrir í þessari tilkynningu. Tilkynningin verður ekki endurskoðuð eftir birtingu hvað þetta varðar.

Gögn um markaðshlutdeild

Yfirlýsingar um markaðshlutdeild, þar með taldar þær sem varða samkeppnisstöðu Marel, byggjast á utanaðkomandi heimildum og gögnum, svo sem gögnum frá rannsóknastofnunum, iðnaðar- og sölunefndum og hópum, ásamt mati stjórnenda Marel. Séu upplýsingar ekki tiltækar fyrir Marel kunna slíkar yfirlýsingar að vera byggðar á áætlunum og mati utanaðkomandi aðila og/eða stjórnenda. Markaðsstaða er byggð á sölutölum nema annað sé tekið fram.

Fyrirvari vegna viðskipta í Bandaríkjunum

Sala á hlutum í Marel hf. hefur ekki verið og verður ekki skráð samkvæmt US Securities Act frá 1933, með síðari breytingum (Verðbréfalögin). Hlutir í Marel hf. verða ekki boðnir til sölu eða seldir í Bandaríkjunum án tilskilinnar skráningar samkvæmt Verðbréfalögunum eða samkvæmt gildandi undanþágu frá skráningarkröfum Verðbréfalaganna. Það verður ekki útboð á hlutum í Marel hf. í Bandaríkjunum (þar sem "Bandaríkin" vísa til Bandaríkja Norður-Ameríku, yfirráðasvæði þeirra og eigna, allra ríkja Bandaríkjanna og District of Columbia).

Sé misræmi á milli uppgjörstilkynninga félagsins á íslensku annars vegar og ensku hins vegar, skal enska útgáfan gilda þar sem tilkynningar eru þýddar af ensku yfir á íslensku.

*Rekstrarniðurstaða aðlöguð fyrir afskrift á óefnislegum eignum sem tengjast yfirtökum (PPA).
**Áhrif vegna breytinga á skattalöggjöf í Hollandi.

 

Viðhengi


Marel_2018_Corporate_Governance-Statement_vFinal.pdf
Marel_2018 Consolidated Financial Statements EXCEL.xlsx
Marel_ 4Q18_Press_Release_vFinal.pdf
Marel 2018 Consolidated Financial Statements 2018_vFINAL.pdf