English Icelandic
Birt: 2018-10-05 16:14:04 CEST
Orkuveita Reykjavíkur
Aðrar upplýsingar sem birtar eru í samræmi við reglur Kauphallarinnar

Fjárhagur OR í traustum farvegi

Rekstur og fjárhagur Orkuveitu Reykjavíkur stendur traustum fótum og engar skarpar breytingar á tekjum eða rekstrargjöldum eru fyrirséðar. Þetta er grunnstefnið í fjárhagsspá samstæðu OR fyrir tímabilið 2019-2024. Innan hennar eru, auk móðurfélagsins, Veitur, Orka náttúrunnar og Gagnaveita Reykjavíkur. Fjárhagsspáin var samþykkt af stjórn OR í dag og fer til umfjöllunar sem hluti af fjárhagsáætlun samstæðu Reykjavíkurborgar.

Traustur fjárhagur, uppfærsla veitukerfa, þróun þjónustu

Festa í fjármálum er forsenda þess að nú er horft lengra fram á veg en stundum áður í uppbyggingu veitukerfa, sjálfbærni auðlindanýtingar og þeirri þjónustu sem fólk vill njóta í framtíðinni. Við sjáum fram á uppfærslu veitukerfa, sem mörg hver eru gömul í grunninn, aukna sjálfvirkni í þjónustu og það mikilvæga umhverfisverkefni sem orkuskipti í samgöngum eru. Þetta eru áform sem teygja sig lengra en sem nemur tímabili þessarar fjárhagsspár en þeirra gætir í fjárfestingum samkvæmt henni.

Stiklur úr fjárhagsspánni

  • Nettóskuldir OR lækka um 14,1 milljarð frá 2018 til ársloka 2024 samkvæmt spánni.
  • Gert er ráð fyrir að verð fyrir þjónustu fyrirtækjanna fylgi í stórum dráttum almennu verðlagi í landinu.
  • Tekjuskattur og fjármagnstekjuskattur til ríkissjóðs verður 18,4 milljarðar króna á tímabilinu, gangi spáin eftir.
  • Arðgreiðslur til eigenda munu nema 13,8 milljörðum króna á árunum 2018-2024, samkvæmt spánni.
  • Á vegum Veitna eru umfangsmestu fjárfestingarverkefnin framhald endurnýjunar á aðveituæð hitaveitu Akraness og Borgarness – Deildartunguæð – sem áætlað er að ljúki árið 2025, snjallmælavæðing og framkvæmdir sem stuðla að sporlausri fráveitu.
  • Umfangsmestu fjárfestingar ON eru viðhaldsboranir til gufuöflunar fyrir virkjanirnar á Hengilssvæðinu ásamt frekari þróun niðurrennslislausna. Stækkun varmastöðvar Hellisheiðarvirkjunar, þar sem er unnið heitt vatn fyrir hitaveituna á höfuðborgarsvæðinu, er í spánni auk umhverfisverkefna og nýsköpunar í Jarðhitagarði ON.
  • Fjárfestingar Gagnaveitu Reykjavíkur eru að mestu fólgnar í lagningu ljósleiðara í sveitarfélögum í samræmi við nýlegar viljayfirlýsingar við viðkomandi sveitarstjórnir.

Stefnumiðuð spá 2018-2024

Við gerð fjárhagsspár fyrir samstæðu OR er beitt stefnumiðaðri spágerð (Beyond budgeting). Í aðferðinni felst að skráð stefna fyrirtækjanna er lögð til grundvallar, þau skýru markmið sem í henni felast og mælikvarðar á framgang þeirra.

Í viðhengdri Fjárhagsspá samstæðu OR 2019 og fimm ára spá 2020-2024 eru fjárhagsleg markmið og lykilmælikvarðar sett fram með myndrænum hætti.


Nánari upplýsingar:
Ingvar Stefánsson
Framkvæmdastjóri fjármála OR
617 6301

Viðhengi


Fjarhagsspa samstu OR 2019 og fimm ara spa 2020-2024.pdf