English Icelandic
Birt: 2018-08-30 16:07:23 CEST
Landsbankinn hf.
Aðrar upplýsingar sem birtar eru í samræmi við reglur Kauphallarinnar

Landsbankinn hf.: Landsbankinn gefur út víkjandi skuldabréf að fjárhæð 100 milljónir evra

Landsbankinn lauk í dag sölu á fyrstu víkjandi skuldabréfaútgáfu bankans að fjárhæð 100 milljónir evra. Skuldabréfin eru gefin út til tíu ára með innköllunarheimild að fimm árum liðnum. Gert er ráð fyrir að þau fái lánshæfiseinkunnina BBB- frá S&P Global Ratings.

Skuldabréfin voru seld á kjörum sem jafngilda 285 punkta álagi á miðgildi vaxtatilboða í vaxtaskiptasamningum á markaði og munu skuldabréfin bera 3,125% vexti. Heildareftirspurn nam 160 milljónum evra aðallega frá fjárfestum á Norðurlöndum, meginlandi Evrópu og Bretlandi.

Skuldabréfin verða gefin út undir EMTN-útgáfuramma bankans og er stefnt að töku skuldabréfanna til viðskipta í írsku kauphöllinni þann 6. september 2018.

Umsjónaraðilar sölunnar voru Citigroup og J.P. Morgan.

Lilja Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir:

„Það er ánægjulegt að Landsbankinn hafi náð þeim áfanga að ljúka sinni fyrstu sölu á víkjandi skuldabréfum í evrum. Undirtektir fjárfesta voru góðar og eru til marks um að bankinn njóti vaxandi trausts á alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum. Útgáfan er liður í að ná fram hagkvæmari fjármagnsskipan sem styður við arðsemismarkmið bankans  til lengri tíma litið.“  

Nánari upplýsingar veita:                   

Rúnar Pálmason, upplýsingafulltrúi, pr@landsbankinn.is og í síma 410 6263

Hanna Kristín Thoroddsen, fjárfestatengsl, ir@landsbankinn.is og í síma 410 7310