Icelandic
Birt: 2018-05-09 00:12:04 CEST
Heimstaden hf.
Aðrar upplýsingar sem birtar eru í samræmi við reglur Kauphallarinnar

Heimavellir hf.: Niðurstaða í hlutafjárútboði Heimavalla hf.

Vel heppnað hlutafjárútboð Heimavalla

Almennu hlutafjárútboði Heimavalla lauk klukkan 16:00 þann 8. maí 2018. Í útboðinu voru boðnir til sölu 750.000.000 nýir hlutir í Heimavöllum.

Í útboðinu bárust alls 701 áskrift að heildarandvirði 1.690 m.kr. og ákvað stjórn félagsins að taka 689 tilboðum í 750 milljón nýja hluti fyrir samtals 1.043 m.kr. Vegið meðalgengi í útboðinu er 1,39 krónur á hlut. Heildarvirði alls hlutafjár að lokinni hlutafjáraukningu verður því 15,6 ma.kr.

Í tilboðsbók A, þar sem áskriftir voru 100.000-500.000 krónur að kaupverði, er útboðsgengi 1,33 krónur á hlut sem var fyrirfram ákvarðað 5% lægra en útboðsgengi í tilboðsbók B. Hámarksúthlutun í þessum hluta útboðsins er 500.000  krónur að kaupverði og áskriftir ekki skertar.

Í tilboðsbók B, þar sem fjárfestar skiluðu áskriftum á verðbilinu 1,38-1,71 krónur á hlut fyrir 550.000-10.000.000 krónur að kaupverði, er útboðsgengi 1,40 krónur á hlut. Þeir fjárfestar sem tilgreindu lægra hámarksverð í áskrift sinni fá engu úthlutað í tilboðsbók B. Áskriftir í tilboðsbók B eru ekki skertar undir 550.000 krónur að kaupverði, skerðing áskrifta á útboðsgengi í tilboðsbók B er að öðru leyti hlutfallsleg.

Í tilboðsbók C var tekið við áskriftum yfir 10.000.000 krónur á lágmarksverðinu 1,38 krónur á hvern hlut. Útboðsgengi í tilboðsbók C er 1,41 króna á hlut. Þeir fjárfestar sem tilgreindu lægra verð í áskrift sinni fá engu úthlutað í tilboðsbók C. Skerðing áskrifta á útboðsgengi í tilboðsbók C er hlutfallsleg.

  Útboðsgengi Fjárhæð Hlutir
Tilboðsbók A 1,3300 186.158.584 139.968.860
Tilboðsbók B 1,4000 532.043.596 380.031.140
Tilboðsbók C 1,4100 324.300.000 230.000.000
Samtals   1.042.502.180 750.000.000

Fjárfestar geta nálgast upplýsingar um úthlutun í útboðinu eigi síðar en í lok dags 9. maí 2018 með því að fara inn á áskriftarvef útboðsins á vefsíðu Landsbankans, www.landsbankinn.is/utbod-heimavellir, og nota sömu aðgangsauðkenni og þeir notuðu til að skrá áskrift sína í útboðinu. Gjalddagi og eindagi áskriftarloforða í útboðinu er 18. maí 2018 og verða hlutir í Heimavöllum afhentir kaupendum 23. maí 2018 að undangenginni greiðslu.

Gert er ráð fyrir að Kauphöll Íslands muni tilkynna fyrir 23. maí 2018 að hún hafi samþykkt umsókn Heimavalla um að taka hlutabréf í félaginu til viðskipta á Aðalmarkaði Kauphallarinnar. Gert er ráð fyrir að viðskipti með hlutabréf í Heimavöllum hefjist 24. maí 2018 en Kauphöllin mun tilkynna um fyrsta viðskiptadag með hlutabréfin með minnst eins viðskiptadags fyrirvara.

Guðbrandur Sigurðsson framkvæmdastjóri Heimavalla:

Það er ánægjulegt að sjá þann mikla áhuga og traust sem fjárfestar sýna Heimavöllum með þátttöku sinni í útboðinu. Markmið útboðsins var að fjölga hluthöfum til að uppfylla skilyrði Aðalmarkaðar Kauphallarinnar varðandi dreifingu hlutafjár og fjölda hluthafa. Þessi markmið náðust og vil ég nota tækifærið og bjóða nýja hluthafa velkomna. Félagið hefur náð miklum árangri á stuttum tíma og framundan er stórt verkefni á sviði endurfjármögnunar sem skráning í Kauphöllina mun styðja vel við.

Landsbankinn hf. var umsjónaraðili útboðsins og Íslandsbanki hf. umsjónaraðili þess að fá hluti í Heimavöllum tekna til viðskipta á Aðalmarkaði Kauphallarinnar.

Nánari upplýsingar veita:

Guðbrandur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Heimavalla hf.

gudbrandur@heimavellir.is

sími 517-3440/896-0122

Árni Maríasson, forstöðumaður markaðsviðskipta Landsbankans hf.

arni.mariasson@landsbankinn.is

sími 410-7335/863-9998