English Icelandic
Birt: 2018-03-19 17:40:00 CET
ÍL-sjóður
Ársreikningur

Afkoma Íbúðalánasjóðs í takt við væntingar

Betri gæði lánasafns, lækkun rekstrarkostnaðar og aukin verkefni við veitingu húsnæðisstuðnings hins opinbera:

Afkoma Íbúðalánasjóðs í takt við væntingar

  • Rekstrarafgangur Íbúðalánasjóðs nam 1.366 milljónum króna
  • Eiginfjárhlutfall er 8,5% sem er hæsta hlutfall frá stofnun sjóðsins
  • Útlán í vanskilum eru 2,1% og lækka úr 2,9% á milli ára
  • Launakostnaður lækkar um 9,7% á milli ára

Ársreikningur Íbúðalánasjóðs fyrir árið 2017 var staðfestur af stjórn sjóðsins í dag. Rekstrarniðurstaða ársins var jákvæð sem nemur 1.366 milljónum króna. Eiginfjárhlutfall sjóðsins er nú 8,5% en langtímamarkmið sjóðsins er að hlutfallið sé yfir 5,0%. Eigið fé Íbúðalánasjóðs í lok ársins 2017 var 24.894 milljónir króna en var 23.528 milljónir króna þann 31. desember 2016. Heildareignir sjóðsins nema 762 milljörðum og heildarskuldir nema 737 milljörðum.

Rekstur sjóðsins
Hreinar vaxtatekjur frá 1. janúar til 31. desember 2017 voru 1.641 millj. kr. en voru 1.857 millj. kr. árið 2016. Rekstrarkostnaður tímabilsins var 1.706 millj. kr. og lækkar hann um 1,7%. Launakostnaður lækkaði um 9,7% og stöðugildum fækkaði úr 77 árið 2016 í 66 í fyrra. Sjóðurinn hefur tekið við nýjum verkefnum á sviði húsnæðismála, meðal annars við veitingu og eftirliti með opinberum húsnæðisstuðningi svo sem stofnframlögum og húsnæðisbótum. Annar rekstrarkostnaður hækkaði um 10,8%, fyrst og fremst vegna lögbundins rekstrarframlags til embættis umboðsmanns skuldara. Íbúðalánasjóður greiddi í fyrra 161 millj. kr. til reksturs annarra ríkisstofnana, Fjármálaeftirlitið og umboðsmann skuldara, eða sem nemur 20% af öðrum rekstrarkostnaði sjóðsins. Hagræðingaraðgerðir fyrri ára eru nú að fullu komnar til framkvæmda.  

Hlutfall vaxtaberandi eigna utan lánasafns eykst vegna uppgreiðslna
Í lok ársins voru útlán sjóðsins 500 milljarðar króna og höfðu útlán dregist saman um 78 milljarða króna frá árinu 2016. Skýrist minnkun lánasafnsins af stórauknum uppgreiðslum, afskriftum og ráðstöfun séreignarsparnaðar inn á lán hjá sjóðnum. Uppgreiðslur frá viðskiptavinum skýrast að stórum hluta af aukinni sókn lífeyrissjóða inn á lánamarkaðinn.

Eignir utan lánasafns að meðtöldu lausafé jukust á tímabilinu og eru nú 254 milljarðar króna. Helstu áskoranir við stýringu á eignum utan lánasafns eru vaxta- og verðbólguáhætta og stærð sjóðsins. Í því ljósi er vert að nefna að ávöxtunarkrafa á skuldabréfamarkaði hefur almennt lækkað, í takt við vexti Seðlabankans, sem hefur áhrif á ávöxtun eigna utan lánasafns.

Þróun vanskila og gæði lánasafns
Útlán í vanskilum nema nú 2,1% af heildarlánum en voru 2,9% í lok árs 2016. Góðar efnahagsaðstæður og skilvirkir innheimtuferlar hafa minnkað útlánaáhættu. Uppreiknaðar eftirstöðvar allra útlána sjóðsins í vanskilum voru 10.922 millj. kr., þar af voru vanskil 1.888 millj. kr. Á afskriftareikningi útlána voru 6.917 millj. kr. og dróst  afskriftareikningur saman um 563 millj. kr. frá áramótum. Um 97% af bókfærðu virði lánasafns Íbúðalánasjóðs liggur á veðbili innan við 90% af fasteignamati við lok tímabilsins. Fasteignaverð hefur hækkað umfram verðlag á tímabilinu og vanskil minnkað umtalsvert sem bætt hefur tryggingarstöðu lánasafnsins.

 ---

Nánari upplýsingar veitir Rut Hreinsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Íbúðalánasjóðs, í síma 569-6900.


Ibualanasjour - Arsreikningur 2017.pdf