Published: 2018-03-14 16:12:58 CET

N1 hf: Vegna kaupa N1 hf. á Festi hf.

Samkeppniseftirlitið telur sáttaviðræður ekki heppilegar að svo stöddu

Þann 3. október 2017 var skrifað undir kaupsamning vegna kaupa N1 hf. á öllu hlutafé í Festi hf. Kaupsamningurinn byggir á viljayfirlýsingu sem N1 hf. og SF V slhf. skrifuðu undir þann 9. júní síðastliðinn um helstu skilmála viðskiptanna og niðurstöðu áreiðanleikakönnunar á Festi hf.

Viðskiptin eru meðal annars háð skilyrðum um samþykki Samkeppniseftirlitsins. Þann 31. október 2017 skilaði félagið inn samrunaskrá til Samkeppniseftirlitsins sem hefur nú samkeppnisleg áhrif samrunans til rannsóknar.

Laugardaginn 24. febrúar 2018 kl. 19:31 barst N1 andmælaskjal frá Samkeppniseftirlitinu, sem lið í málsmeðferð þess á samrunanum. Skjalið fól í sér frummat Samkeppniseftirlitsins en felur ekki í sér bindandi stjórnvaldsákvörðun. Í skjalinu er frumniðurstöðu eftirlitsins lýst en hún er sú að samruninn raski samkeppni og verði ekki samþykktur af Samkeppniseftirlitinu án skilyrða. N1 var ósammála niðurstöðu andmælaskjalsins og skilaði inn athugasemdum við andmælaskjalið fyrir lok tilskilins frests. Samhliða var óskað eftir sáttaviðræðum og settar fram hugmyndir að skilyrðum. Með bréfi dags. 14. mars 2018 hefur Samkeppniseftirlitið tilkynnt N1 að stofnunin telji ástæðu til þess að rannsaka málið frekar að teknu tilliti til framkominna athugasemda. Muni því ekki fara fram sáttaviðræður að sinni.

Vegna áframhaldandi rannsóknar eftirlitsins eru niðurstöður væntanlegar í síðasta lagi þann 18. apríl 2018. Gangi viðskiptin eftir er gert ráð fyrir að þeim ljúki í lok 2. ársfjórðungs 2018.