Published: 2018-03-08 17:16:00 CET
Hagar hf.
Innherjaupplýsingar

Samrunaferli Haga hf., Olíuverzlunar Íslands hf. og DGV ehf. heldur áfram

Stjórn Haga hf. hefur samþykkt að afturkalla samrunatilkynningu vegna málsins og mun félagið á næstunni senda Samkeppniseftirlitinu nýja samrunatilkynningu vegna samrunans á breyttum grundvelli

Þann 26. apríl 2017 tilkynntu Hagar um undirritun kaupsamnings um kaup á öllu hlutafé í Olíuverzlun Íslands hf. og fasteignafélaginu DGV ehf. Kaupsamningarnir voru undirritaðir með fyrirvara um niðurstöður áreiðanleikakönnunar, samþykki hluthafafundar fyrir aukningu hlutafjár og samþykki Samkeppniseftirlitsins. Hluthafafundur samþykkti aukningu hlutafjár á aðalfundi félagsins þann 7. júní sl. og var fyrirvara um niðurstöður áreiðanleikakönnunar aflétt þann 13. júlí sl.

Högum barst andmælaskjal vegna málsins frá Samkeppniseftirlitinu, sem liður í málsmeðferð þess á samrunanum, og gekk til sáttaviðræðna við Samkeppniseftirlitið til úrlausnar á þeim þáttum sem taldir eru raska samkeppni og koma fram í frummati Samkeppniseftirlitsins. Þær sáttaviðræður hafa ekki skilað endanlegri niðurstöðu innan lögbundinna tímafresta eftirlitsins.

Sökum þess hefur stjórn Haga nú ákveðið að afturkalla samrunatilkynningu vegna málsins og mun á næstunni senda Samkeppniseftirlitinu nýja samrunatilkynningu, á breyttum grundvelli. Samkeppniseftirlitið hefur staðfest að tekið verði við slíkri tilkynningu og að afstaða verði tekin til hennar. Með nýrri samrunatilkynningu munu Hagar bjóða skilyrði er lúta að lóðréttum áhrifum samrunans, þ.e. vegna áhrifa samrunans á birgðahald og dreifingu á eldsneytismarkaði, ætluðum láréttum áhrifum, þ.e. stöðu aðila á dagvöru- og eldsneytismarkaði og áhrifa samrunans á staðsetningar dagvöruverslana, sem mögulega lausn á þeirri frumniðurstöðu Samkeppniseftirlitsins að samruninn raski samkeppni. Þá kunna samrunanum að vera sett skilyrði er lúta að aðkomu lífeyrissjóða og annars seljenda félagsins, FISK-Seafood ehf., sem er í eigu Kaupfélags Skagfirðinga svf., að félaginu.

Þegar Samkeppniseftirlitið hefur móttekið fullnægjandi samrunatilkynningu á ný, vegna samrunans, byrja lögbundnir frestir að telja fyrir samkeppnisyfirvöld að rannsaka samrunann. Mun Samkeppniseftirlitið þá hafa færi á að rannsaka með fullnægjandi hætti hvort framboðin skilyrði dugi til þess að samþykkja samrunann. Komist Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að framboðin skilyrði dugi ekki til að samþykkja samrunann kunna samrunanum að vera sett frekari skilyrði eða hann ógiltur.

Kaupsamningurinn er sem fyrr segir háður fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins og því verður ekki gengið frá viðskiptunum fyrr en afstaða Samkeppniseftirlitsins liggur fyrir.

 

Nánari upplýsingar veitir Finnur Árnason, forstjóri Haga hf., í síma 530-5500.