English Icelandic
Birt: 2018-02-28 17:56:00 CET
Sýn hf.
Reikningsskil

Fjarskipti hf. : Nýtt og enn öflugra sameinað fyrirtæki lítur dagsins ljós

Ársreikningur Fjarskipta hf. fyrir rekstrarárið 2017 var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 28. febrúar 2018. Endurskoðendur félagsins hafa endurskoðað reikninginn og áritað hann fyrirvaralausri áritun. Ársreikningurinn verður lagður fyrir aðalfund félagsins til staðfestingar þann 22. mars nk.

Fjarskipti hf. gekk frá kaupum á tilteknum eignum og rekstri 365 miðla hf. þann 1. desember 2017, ársreikningurinn innifelur einn mánuð af sameinuðum rekstri og efnahagi. Hér að neðan eru helstu tölur, leiðrétt afkoma er með tilliti til einskiptiskostnaðar sem féll til í tengslum við kaupin. Einskiptiskostnaðurinn er samsettur af þóknun til fyrirtækja-, lögfræði- og fjármálaráðgjafa og annarra umsamdra þátta sem skapa kostnað sem var samofin undirbúningi viðskiptanna og leystist úr læðingi við þau:

  • Tekjur á fjórða ársfjórðungi námu 4.304 m.kr. sem er hækkun um 25% á milli ára.
  • Heildartekjur á árinu námu 14.268 m.kr., sem er 4% hækkun á milli ára.
  • EBITDA hagnaður nam 803 m.kr. á ársfjórðungnum og hækkar um 16% á milli tímabila. Leiðréttur EBITDA hagnaður sbr. ofangreint nam 961 m.kr. sem er 33% hækkun milli ára.
  • EBITDA hagnaður ársins nam 3.137 m.kr. sem er 3% hækkun á milli ára. Leiðréttur EBITDA hagnaður ársins nam 3.338 m.kr. sem er 9% hækkun á milli ára.
  • Hagnaður á ársfjórðungnum nam 356 m.kr. sem er 110% hækkun á milli tímabila. Hagnaður leiðréttur fyrir einskiptisliðum nam 482 m.kr. sem er 150% hækkun milli ára.
  • Hagnaður ársins nam 1.086 m.kr. sem er 8% aukning milli ára. Leiðréttur hagnaður ársins nam 1.247 m.kr. sem er 21% hækkun frá fyrra ári.
  • Hagnaður á hlut var 4,10. Leiðréttur fyrir einskiptisliðum var hagnaður á hlut 4,70.
  • Rekstrarfjárfestingar samstæðunnar námu 1.664 m.kr. sem er 8% hækkun á milli ára og tengdist hækkunin milli ára einkum flutningi í nýjar höfuðstöðvar.
  • EBITDA horfur fyrir árið 2018 eru áætlaðar á bilinu  4.000-4.400 m.kr. og fjárfestingarhlutfall milli 8-10%.
  • Stjórn leggur til að ekki verði greiddur út arður vegna rekstrarársins 2017.


Stefán Sigurðsson, forstjóri:

"Það var mjög ánægjulegt að enda árið 2017 á að sameina tvær öflugar einingar í eina. Þó aðeins sé um einn mánuð af sameiginlegum rekstri að ræða má glöggt sjá sterk jákvæð áhrif sem munu halda áfram að skila sér af meiri krafti næstu fjórðunga og ár. Þrátt fyrir mikið álag og vinnu innan fyrirtækisins síðustu mánuði hefur allt gengið að óskum og eftir þeim áætlunum sem lagðar voru til grundvallar kaupunum.

Annar stór áfangi var á árinu þegar félagið flutti í nýjar höfuðstöðvar að Suðurlandsbraut 8. Verkefnið hefur gengið mjög vel og ljóst að nýtt skipulag hefur til dæmis ýmis tækifæri fyrir nýtt og sameinað fyrirtæki. Stefnt er að sameiningu alls fyrirtækisins að Suðurlandsbraut á árinu 2018. Þangað mun mikilvæg og leiðandi fjölmiðlastarfsemi á borð við Stöð 2, Bylgjuna og Vísi meðal annars flytjast  og starfsfólk fær frábæra vinnuaðstöðu. Um er að ræða nýtt upphaf nýs fyrirtækis í nýju skipulagi sem ég trúi að muni skila öllum haghöfum, viðskiptavinum, starfsmönnum og eigendum, miklum ávinningi.

Fyrir utan mikla vinnu sem tengdist kaupum og sameiningu þá hafði reglugerð Evrópusambandsins um afnám reikigjalda talsverð áhrif á farsímatekjur, ekki síst seinni hluta ársins. Hjá Vodafone var áhersla lögð á að breytingin skilaði gæða þjónustuupplifun til viðskiptavina sem tókst vel. Reksturinn í Færeyjum er einnig farinn að sýna skýran viðsnúning eins og stefnt hefur verið að og áætlanir gera ráð fyrir vaxandi rekstrarhagnaði árið 2018.

Fréttir síðustu daga endurspegla að fleiri tækifæri eru til þróunar í rekstri félagsins samanber tilkynningu um byggingu gagnavers á Korputorgi sem tilkynnt var nýverið um í samstarfi við RB, Opin kerfi og Korputorg. Við höfum mikla trú á tækifærum Íslands til að taka þátt í þessum ört vaxandi geira á heimsvísu og viljum stuðla að umhverfisvænum og öruggum íslenskum hágæðakosti fyrir innlenda og erlenda aðila. Við teljum að við getum í þessu sambandi bæði veitt núverandi viðskiptavinum okkar á fyrirtækjahliðinni aukna þjónustu auk þess að nýta alþjóðleg tengsl okkar til að sækja nýja viðskiptavini erlendis."


Arsreikningur Fjarskipta 2017.pdf
Frettatilkynning 4F.pdf