Published: 2018-02-28 17:26:40 CET

Almenna leigufélagið ehf.: Ársreikningur samstæðu 2017

Á fundi sínum í dag samþykkti stjórn Almenna leigufélagsins ehf. ársreikning samstæðunnar fyrir árið 2017.

Leigutekjur samstæðunnar voru 2.281 m.kr. á árinu og hreinar leigutekjur 1.599 m.kr. Þá var rekstarhagnaður fyrir matsbreytingu og fjármagnsliði 1.253 m.kr. Afkoma ársins eftir skatta var 1.494 m.kr.

Heildareignir samstæðunnar námu 42.142 m.kr. í árslok og þar af voru fjárfestingareignir að andvirði 41.253 m.kr. Vaxtaberandi skuldir námu 27.027 m.kr. og eigið fé samstæðunnar var 11.483 m.kr.

María Björk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Almenna leigufélagsins:

"Rekstur Almenna leigufélagsins á árinu 2017 einkenndist af miklum vexti þar sem félagið BK eignir var keypt á öðrum ársfjórðungi og voru fasteignir samstæðunnar í árslok rúmlega 1.200 talsins.

Kaupin á BK eignum komu í kjölfar mikils ytri vaxtar í lok árs 2016 og má segja að 2017 hafi verið fyrsta rekstrarár samstæðunnar í núverandi mynd. Því var árið að miklu leyti nýtt til þess að samræma rekstur mismunandi eininga og ná fram hagræðingu og samlegð í rekstri.

Eitt stærsta verkefni ársins var undirbúningur fyrir umfangsmikla endurfjármögnun, sem ráðist var í um miðjan janúar 2018. Endurfjármögnunin, sem fór bæði fram með útgáfu skráðra skuldabréfa og gerð lánasamninga við banka og fjárfesta, tókst vel og hefur fjármagnsskipan samstæðunnar gjörbreyst í kjölfarið og fjármagnskostnaður lækkað verulega.

Þessum mikla vexti og metnaðarfullri endurfjármögnun fylgdi talsverður kostnaður sem féll til á árinu 2017. Hins vegar munu hagstæð áhrif af þessum aðgerðum, samlegðaráhrif vegna nýrra rekstrareininga og lækkun fjármagnskostnaðar, ekki koma fram fyrr en á árinu 2018.

Við erum ánægð með niðurstöðu ársins og lítum bjartsýnum augum fram á veginn, en við erum sannfærð um að örugg langtímaleiga sem valkostur á húsnæðismarkaði er komin til að vera. Á árinu 2018 leggjum við áherslu á að styrkja áfram grunnrekstur félagsins auk þess sem unnið verður að því að lækka fjármagnskostnað enn frekar innan þess fjármögnunarramma sem félagið stofnaði til í upphafi árs."

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar veitir María Björk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri, í síma 774 0604 eða maria@al.is.


Almenna leigufélagið ehf. 2017 Ársreikningur.pdf