Icelandic
Birt: 2018-01-29 09:00:00 CET
Hagar hf.
Innherjaupplýsingar

Vegna kaupa Haga hf. á Olíuverzlun Íslands hf. og DGV ehf.

Samkeppniseftirlitið hefur sent félaginu andmælaskjal vegna málsins

Þann 26. apríl sl. tilkynntu Hagar um undirritun kaupsamnings um kaup á öllu hlutafé í Olíuverzlun Íslands hf. og fasteignafélagsins DGV ehf. Kaupsamningarnir voru undirritaðir með fyrirvara um niðurstöður áreiðanleikakönnunar, samþykki hluthafafundar fyrir aukningu hlutafjár og samþykki Samkeppniseftirlitsins. Hluthafafundur samþykkti aukningu hlutafjár á aðalfundi félagsins þann 7. júní sl. og var fyrirvara um niðurstöður áreiðanleikakönnunar aflétt þann 13. júlí sl.

Högum hefur nú borist andmælaskjal frá Samkeppniseftirlitinu, sem liður í málsmeðferð þess á samrunanum. Skjalið felur í sér frummat Samkeppniseftirlitsins en felur ekki í sér bindandi stjórnvaldsákvörðun. Andmælaskjalið er ritað í þeim tilgangi að auðvelda samrunaaðilum að nýta andmælarétt sinn skv. stjórnsýslulögum og stuðla að því að rétt ákvörðun verði tekin í málinu. Í skjalinu er frumniðurstöðu eftirlitsins lýst en hún er sú að samruninn raski samkeppni og verði ekki samþykktur af Samkeppniseftirlitinu án skilyrða.    

Stjórn Haga hefur samþykkt að ganga til sáttaviðræðna við Samkeppniseftirlitið til úrlausnar þeim þáttum sem taldir eru raska samkeppni og koma fram í frummati Samkeppniseftirlitsins.

Allar ályktanir í andmælaskjalinu byggja eins og áður segir á frummati Samkeppniseftirlitsins og geta tekið breytingum gefi ný gögn eða sjónarmið tilefni til þess. Hagar vinna nú að því að koma athugasemdum við andmælaskjalið á framfæri en auk þess eru að hefjast sáttaviðræður um málið í von um að hægt sé að leysa þau samkeppnislegu vandamál sem um ræðir.

  

Nánari upplýsingar veitir Finnur Árnason, forstjóri Haga hf., í síma 530-5500.