Icelandic
Birt: 2018-01-11 18:03:58 CET
Hagar hf.
Reikningsskil

Hagar hf. árshlutauppgjör Q3 // mars 2017 – nóvember 2017

Árshlutareikningur Haga hf. fyrir þriðja ársfjórðung 2017/18 var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 11. janúar 2018. Reikningurinn er fyrir tímabilið 1. mars 2017 til 30. nóvember 2017. Árshlutareikningurinn hefur að geyma samstæðureikning félagsins og dótturfélaga þess og er hann gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS). Reikningurinn hefur hvorki verið kannaður né endurskoðaður.

 

Helstu upplýsingar á fyrstu níu mánuðum rekstrarársins:

  • Hagnaður tímabilsins nam 1.933 millj. kr. eða 3,6% af veltu.
  • Hagnaður á hlut var 1,69 kr.
  • Vörusala tímabilsins nam 54.084 millj. kr.
  • Framlegð tímabilsins var 24,8%.
  • Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam 3.272 millj. kr.
  • Heildareignir samstæðunnar námu 30.057 millj. kr. í lok tímabilsins.
  • Handbært fé félagsins nam 232 millj. kr. í lok tímabilsins.
  • Eigið fé félagsins nam 18.410 millj. kr. í lok tímabilsins.
  • Eiginfjárhlutfall var 61,3% í lok tímabilsins.

 

Rekstrarniðurstaða á níu mánuðum rekstrarársins

Vörusala tímabilsins nam 54.084 milljónum króna, samanborið við 59.663 milljónir króna árið áður. Sölusamdráttur tímabilsins er 5,2%, ef frá er talin aflögð starfsemi. Sölusamdráttur félagsins á tímabilinu í heild er 9,4% í krónum talið. Aflögð starfsemi er verslun Debenhams í Smáralind, Korpuoutlet, Útilíf Glæsibæ, matvöruhluti Hagkaups Holtagörðum, efri hæð Hagkaups Kringlu og tískuverslanir í Smáralind og Kringlu. Í matvöruverslanahluta samstæðunnar er sölusamdráttur í krónum 7,3% en magnminnkun 3,6%. Ef tekið er tillit til aflagðrar starfsemi er sölusamdráttur matvöruverslanahlutans 5,1% en magnminnkun 2,9%. Viðskiptavinum hefur fækkað á tímabilinu um 0,6% í matvöruverslanahlutanum en að teknu tilliti til aflagðrar starfsemi hefur viðskiptavinum fjölgað um 1,6%.

Níu mánaða meðaltal vísitölu neysluverðs milli rekstrarára hefur hækkað um 1,71% en lækkun vísitölunnar án húsnæðis var 2,56%. Vísitala innkaupa í erlendum gjaldmiðlum, þar sem vegnar eru innkaupamyntir Haga, sýnir umtalsverða styrkingu íslensku krónunnar, eða um 11% á samanburðartímabilinu.

Framlegð félagsins var 13.393 milljónir króna, samanborið við 14.867 milljónir króna árið áður eða 24,8% framlegð samanborið við 24,9% á fyrra ári. Rekstrarkostnaður í heild lækkar um 80 milljónir króna milli ára en kostnaðarhlutfallið hækkar úr 17,5% í 19,2%. Launakostnaður hefur hækkað um 5,5% milli ára en annar rekstrarkostnaður hefur lækkað um 8,2%.

Afkoma fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) nam 3.272 milljónum króna, samanborið við 4.578 milljónir króna árið áður. EBITDA-hlutfall var 6,0%, samanborið við 7,7% árið áður.

Hagnaður tímabilsins eftir skatta nam 1.933 milljónum króna, sem jafngildir 3,6% af veltu en hagnaður eftir skatta á fyrra ári var 3.035 milljónir eða 5,1% af veltu.

 

Sterk eiginfjárstaða félagsins

Heildareignir samstæðunnar í lok tímabilsins námu 30.057 milljónum króna. Fastafjármunir voru 20.271 milljónir króna og veltufjármunir 9.786 milljónir króna. Þar af eru birgðir 5.311 milljónir króna en birgðir voru 5.732 milljónir króna ári áður. Birgðir hafa því lækkað um 421 milljón króna milli ára, samhliða lokun verslana og styrkingar íslensku krónunnar.

Eigið fé félagsins var 18.410 milljónir króna í lok tímabilsins og eiginfjárhlutfall 61,3%. Heildarskuldir samstæðunnar voru 11.647 milljónir króna, þar af voru langtímaskuldir 3.012 milljónir króna.

Handbært fé frá rekstri á tímabilinu nam 1.453 milljónum króna, samanborið við 4.000 milljónir króna á fyrra ári. Fjárfestingarhreyfingar tímabilsins voru 2.185 milljónir króna en þar af voru 2.014 milljón króna fjárfesting í áhöldum og innréttingum, m.a. vegna endurnýjunar Hagkaups í Kringlu, Bónus í Garðabæ og Smáratorgi og verslun ZARA í Smáralind. Fjármögnunarhreyfingar voru 1.510 milljónir króna en þar af voru 935 milljónir króna vegna kaupa á eigin bréfum. Handbært fé í lok tímabilsins var 232 milljónir króna, samanborið við 3.028 milljónir króna árið áður.

 

Áhersla lögð á endurkaupaáætlun

Í byrjun nóvember var tilkynnt um lok endurkaupaáætlunar sem hófst í ágúst sl. Endurkaupin námu samtals 25 milljón hlutum og var kaupverð hinna keyptu hluta samtals 892 milljónir króna. Í lok nóvember var tilkynnt um nýja endurkaupaáætlun þar sem endurkaup geta numið að hámarki 25 milljón hlutum, þó þannig að fjárhæðin verður aldrei hærri en 1.000 milljónir króna. Að lokinni viku 1 árið 2018 hefur félagið keypt samtals 11.238.225 hluti og er kaupverðið samtals 408 milljónir króna. Framkvæmd endurkaupaáætlunarinnar er í höndum Arctica Finance hf.

 

Staðan og framtíðarhorfur

Verðhjöðnun hefur áfram áhrif á rekstur félagsins, líkt og fram hefur komið í síðustu uppgjörum. Framlegð félagsins er nær óbreytt milli ára og því ljóst að verðlækkanir skila sér í lægra vöruverði til hagsbóta fyrir viðskiptavini félagsins.

Líkt og fram kom í fréttatilkynningu með hálfsársuppgjöri félagsins gerir áætlun stjórnenda ráð fyrir að EBITDA rekstrarársins í heild muni enda í 4.000-4.300 milljónum króna.

Nú er lokið þeim miklu breytingum sem unnið hefur verið að undanfarin misseri. Verslun Bónus í Smáratorgi hefur verið stækkuð um 700 fm., ný og endurbætt verslun Hagkaups í Kringlu hefur verið opnuð á 1. hæð og verslun ZARA í Smáralind og Kringlu hefur verið sameinuð í nýja verslun á tveimur hæðum í Smáralind. Áhrifa af þessum breytingum gætir á þeim ársfjórðungi sem nú var að ljúka.

Tekin hefur verið ákvörðun um að flytja verslanir Bónus í Faxafeni og í Mosfellsbæ. Verslunin í Faxafeni mun flytja í Skeifuna 11 seinni hluta árs en þar eru að hefjast framkvæmdir við að endurbyggja þann hluta eignarinnar sem skemmdist í bruna árið 2014. Þá hefur verið skrifað undir kaupsamning um fasteign við Háholt 17-19 í Mosfellsbæ og mun verslun Bónus flytja þangað á haustmánuðum.

Enn er beðið eftir niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins um kaup Haga hf. á öllu hlutafé í Olíuverzlun Íslands hf. en kaupsamningur var undirritaður í apríl sl. Vænta má niðurstöðu eftirlitsins um mánaðamótin febrúar/mars nk. Öðrum fyrirvörum hefur verið aflétt.

Í nóvember féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem íslenska ríkinu var gert að endurgreiða félaginu ólögmæta gjaldtöku af innfluttum landbúnaðarvörum. Á þriðjudag var staðfest að dómnum verður ekki áfrýjað til Hæstaréttar. Fjárhæðin er 157 milljónir króna, auk dráttarvaxta frá 7. febrúar 2017. Upphæðin hefur ekki verið tekjufærð.

 

Fjárhagsdagatal 2017/18

 

4. ársfjórðungur (1. mars – 28. febrúar): 16. maí 2018

Aðalfundur 6. júní 2018

 

 

Nánari upplýsingar veitir Finnur Árnason, forstjóri félagsins, í síma 530-5500.


Frettatilkynning Hagar arshlutareikningur 301117.pdf
Hagar Arshlutareikningur 30 11 2017 isl m nofnum.pdf