English Icelandic
Birt: 2017-11-21 19:09:16 CET
Eimskipafélag Íslands hf.
Árshlutareikningur (Q1 og Q3)

EIMSKIP: EBITDA á þriðja ársfjórðungi í samræmi við væntingar

Afkomuspá ársins 2017 er EBITDA á bilinu 60 til 62 milljónir evra

  • Tekjur námu 177,0 milljónum evra, hækkuðu um 42,9 milljónir evra eða 32,0% frá Q3 2016
    • Magn í áætlunarsiglingum jókst um 3,2% og tekjur hækkuðu um 12,8 milljónir evra eða 12,8%
    • Magn í flutningsmiðlun jókst um 50,8% og tekjur hækkuðu um 30,2 milljónir evra eða 87,1%, en þar af voru 23,5 milljónir evra vegna nýrra félaga
  • EBITDA nam 19,3 milljónum evra, jókst um 1,5 milljónir evra eða 8,6% frá Q3 2016
  • Hagnaður nam 8,8 milljónum evra samanborið við 9,4 milljóna evra hagnað í Q3 2016
    • Neikvæð breyting á gengismun á milli ára að fjárhæð 1,0 milljón evra hafði mest áhrif
  • Eiginfjárhlutfall var 54,5% og nettóskuldir námu 88,4 milljónum evra í lok september

Gylfi Sigfússon forstjóri

„Þriðji ársfjórðungur 2017 er stærsti fjórðungur félagsins er varðar rekstrartekjur og EBITDA frá árinu 2009. Rekstrartekjur námu 177,0 milljónum evra og hækkuðu um 42,9 milljónir evra frá fyrra ári eða 32,0%, einkum vegna nýrra félaga í samstæðunni, aukins flutningsmagns og hærri verða á flutningamörkuðum. EBITDA framlegð að fjárhæð 19,3 milljónir evra er í samræmi við væntingar okkar og hækkaði um 8,6% samanborið við fyrra ár. Hagnaður nam 8,8 milljónum evra og dróst saman um 0,6 milljónir evra frá fyrra ári, en lækkunin endurspeglar einkum óhagstæðar gengissveiflur á milli ára sem námu 1,0 milljón evra.

Tekjur af áætlunarsiglingum félagsins námu 112,2 milljónum evra á þriðja ársfjórðungi og hækkuðu um 12,8 milljónir evra eða 12,8% samanborið við 2016. Magn í áætlunarsiglingum á Norður-Atlantshafi jókst um 3,2%. Áframhaldandi vöxtur er í innflutningi til Íslands á meðan magn í útflutningi er stöðugt. Áfram er mikill útflutningur frá Færeyjum en samdráttur hefur orðið í innflutningi. Félagið hefur á sama tíma staðið frammi fyrir samdrætti í flutningum til norðurs í Noregi en flutningur til suðurs hefur verið stöðugur. EBITDA af áætlunarsiglingum nam 13,8 milljónum evra og dróst saman um 0,3 milljónir evra eða 2,1%. Lækkun á EBITDA skýrist einkum af samdrætti í áætlunarsiglingum í Noregi og auknum kostnaði tengdum innleiðingu á nýjum upplýsingakerfum, ásamt kostnaði sem tengist því að skipt var um þjónustuaðila Eimskips sem annast hýsingu og þjónustu við upplýsingakerfi samstæðunnar.

Rekstur flutningsmiðlunar gekk vel á fjórðungnum, en magn jókst um 50,8%. Tekjur námu 64,8 milljónum evra, hækkuðu um 30,2 milljónir evra eða 87,1%. Ný félög í samstæðunni skýra 67,8% af tekjuvextinum en 19,3% koma frá innri vexti. EBITDA af flutningsmiðlun nam 5,5 milljónum evra og hækkaði um 1,8 milljónir evra eða 49,0%. Þar af komu 1,7 milljónir evra frá nýjum félögum, en rekstur þeirra hefur gengið vel.

Tekjur félagsins námu 497,0 milljónum evra á fyrstu níu mánuðum ársins og hækkuðu um 123,6 milljónir evra eða 33,1%. Flutt magn í áætlunarsiglingum jókst um 3,2% samanborið við fyrstu níu mánuði síðasta ár og magn í flutningsmiðlun jókst um 40,1%. EBITDA fyrir fyrstu níu mánuðina nam 45,3 milljónum evra og jókst um 1,7 milljónir evra eða 4,0% á milli ára. Að teknu tilliti til einskiptisliða á fyrsta ársfjórðungi jókst aðlöguð EBITDA um 4,0 milljónir evra eða 9,2%. Eimskip vinnur áfram að aukningu tekna með því að fjárfesta í aukinni afkastagetu og breytingum á siglingakerfi félagsins, en á fyrstu sex mánuðum ársins jókst kostnaður vegna þess um 2,7 milljónir evra. Kostnaður vegna ójafnvægis í flutningum að fjárhæð 1,1 milljón evra hafði einnig neikvæð áhrif á EBITDA á fyrri helmingi ársins. Fjárfestingin í siglingakerfinu skilaði hagnaði á þriðja ársfjórðungi og kostnaður vegna ójafnvægis í flutningum hafði ekki áhrif á EBITDA fjórðungsins. Við munum halda áfram að fjárfesta í siglingakerfinu og gera á því breytingar, með sérstaka áherslu á að lækka kostnað á gámaeiningu og auka skilvirkni til að auka arðsemi kerfisins. EBITDA af flutningsmiðlun nam 14,5 milljónum evra og hækkaði um 5,6 milljónir evra eða 63,1%. Þar af komu 4,6 milljónir evra frá nýjum félögum, en rekstur þeirra hefur gengið vel.

Hagnaður fyrstu níu mánuði ársins nam 13,9 milljónum og dróst saman um 6,1 milljón evra samanborið við 2016. Lækkunin skýrist af 4,0 milljóna evra óhagstæðum gengisbreytingum á milli ára, 2,3 milljóna evra hækkun afskrifta og 2,3 milljóna evra einskiptisliða á fyrsta ársfjórðungi.

Sem hluta af stefnu Eimskips um innri vöxt mun félagið styrkja enn frekar Trans-Atlantic þjónustu með því að bjóða upp á vikulegar siglingar á milli Norður-Evrópu og Norður-Ameríku. Þriðja skipinu hefur verið bætt við grænu leiðina frá og með viku 47. Flutningsmagn félagsins í Trans-Atlantic hefur þrefaldast frá árinu 2009 og magnið 2017 hefur vaxið um 33%. Þessi vöxtur, ásamt nýjum samningi við alþjóðlega skipafélagið CMA CGM um flutninga á milli Halifax, Nova Scotia og Portland, Maine í Bandaríkjunum, skapar grundvöll fyrir vikulegri þjónustu. Það er stórt skref fyrir félagið að hefja vikulega þjónustu, en það opnar tækifæri fyrir nýja viðskiptavini sem þurfa á vikulegri þjónustu að halda. Við höfum bætt við gámakrana í Argentia á Nýfundnalandi og Labrador svo unnt sé að nota tvö kranalaus skip á grænu leiðinni, en það mun draga úr rekstrarkostnaði skipanna. Við erum einnig að bæta við einum gámagrana í Sundahöfn til að auka afkastagetu.

Eimskip undirritaði samning við GAMMA Capital Management í nóvember um stofnun á fyrirtækinu Krít fjármögnunarlausnir ehf. sem sérhæfir sig í birgðafjármögnun. Með samningnum skapast ný tækifæri fyrir virðisaukandi þjónustu fyrir viðskiptavini með því að tengja saman flutningaþjónustu og birgðafjármögnun. Félagið tengir upplýsingakerfi sín við fjármálaþjónustu Krítar fjármögnunarlausna ehf., sem veitir viðskiptavinum fljótlega, hagkvæma og örugga lausn varðandi fjármögnun.

Það er ánægjulegt að segja frá því að við höfum lokið hagkvæmum samningi við Norræna fjárfestingarbankann (NIB) um kaup á þremur fasteignum á Sundahafnarsvæðinu sem félagið hefur verið með á leigu frá NIB frá árinu 2009. Um er að ræða höfuðstöðvar Eimskips í Sundakletti, þurrvörugeymslu og frystigeymsluna Sundafrost. Eignirnar eru alls 10.440 fermetrar að stærð og nemur kaupverðið 8,3 milljónum evra. Greiðsla fyrir eignirnar og yfirfærsla á eignarrétti munu eiga sér stað um mitt ár 2019. Samningurinn hefur verið færður til eignar og skuldar í efnahagsreikningi.

Félagið gekk á þriðja ársfjórðungi frá samningi við kísilmálmverksmiðjuna PCC Bakki Silicon hf. á Húsavík um hafnarvinnuþjónustu tengda rekstri verksmiðju fyrirtækisins. Eimskip rekur þegar hafnarvinnuþjónustu fyrir ýmis fyrirtæki í stóriðju hér á landi.

Eimskip vinnur áfram að innri vexti og kaupum á fyrirtækjum sem falla að starfsemi félagsins og auka virði þess. Rekstur þeirra fyrirtækja sem keypt hafa verið undanfarið hefur gengið vel og fallið vel að samstæðunni, auk þess að auka virði hluthafa. Stefna félagsins um vöxt með kaupum á sérhæfðum flutningsmiðlunarfyrirtækjum er að skila góðum árangri. Áfram er unnið að því að samþætta starfsemi nýju fyrirtækjanna til að skapa öflugt net og tækifæri til vaxtar með nýjum vörutegundum, mörkuðum, samlegð og samræmdri sölustarfsemi. Með fjárfestingunum hefur félagið einnig náð markmiði sínu um að auka hlutfall EBITDA af rekstrareiningum með litla fjárbindingu sem skila hærri arðsemi og aukinni landfræðilegri dreifingu  tekna og EBITDA. Félagið mun halda áfram að meta nýja kosti í fjárfestingum í fyrirtækjum og skipum.

EBITDA var í samræmi við væntingar okkar á fyrstu níu mánuðum ársins. Magn í áætlunarkerfi félagsins og flutningsmiðlun fyrstu sex vikur fjórða ársfjórðungs er í samræmi við væntingar. Gert er ráð fyrir að starfsemin í Noregi nái sér á strik eftir nokkrar áskoranir. Eimskip hefur unnið að verkefni tengdu endurskipulagningu á rekstri í Asíu. Í afkomuspá ársins 2017 er gert ráð fyrir áætlaðri tekjufærslu tengdri endurskipulagningunni þar sem félagið áætlar að tekjur og EBITDA á fjórða ársfjórðungi 2017 hækki um 2,5 milljónir evra. Afkomuspá fyrir árið 2017 er EBITDA á bilinu 60 til 62 milljónir evra, en þar hefur verið tekið tillit til ofangreinds áætlaðs hagnaðar af endurskipulagningunni.“

Frekari upplýsingar

  • Gylfi Sigfússon forstjóri, sími: 525 7202
  • Hilmar Pétur Valgarðsson, framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs, sími: 525 7202
  • Erna Eiríksdóttir, forstöðumaður fjárfestatengsla, sími 825 7220, netfang: investors@eimskip.is


Eimskip - Financial Statements Q3 2017.pdf
Eimskip - Uppgjor rija arsfjorungs 2017.pdf