English Icelandic
Birt: 2017-11-15 10:06:07 CET
Icelandair Group hf.
Breyting á stjórn/framkvæmdastjórn/endurskoðendum

Skipulagsbreytingar hjá Icelandair Group

Stjórn Icelandair Group hefur ákveðið að gera breytingar á skipulagi samstæðunnar. Breytingarnar fela í sér að rekstur og starfsemi Icelandair Group og Icelandair verður samþætt með þeim hætti að einn forstjóri verður yfir báðum félögum auk þess sem fjármálasvið félaganna verða sameinuð. Forstjóri verður Björgólfur Jóhannsson og framkvæmdastjóri fjármála verður Bogi Nils Bogason. Þá verða IGS, sem sinnir flugþjónustu á Keflavíkurflugvelli, og Icelandair Cargo, hluti af Icelandair, en þessi félög hafa verið dótturfélög Icelandair Group. Birkir Hólm Guðnason lætur af störfum sem framkvæmdastjóri Icelandair.

Með breytingunni næst fram skýrari áhersla á kjarnastarfsemi félagsins og er samþættingin skref í átt að aukinni einföldun og hagkvæmni í rekstri.

Úlfar Steindórsson, stjórnarformaður Icelandair Group: „Breytingin er liður í því að styrkja félagið enn frekar og skerpa á áherslum í rekstrinum. Flugstarfsemi félagsins vegur þyngst í rekstri og afkomu samstæðunnar og það er mikilvægt að skipulag félagsins endurspegli þá staðreynd. Félagið er í sterkri stöðu til að takast á við breytingar í rekstrarumhverfinu og nýta tækifæri sem gefast á mörkuðum félagsins. Breytingin styður við áframhaldandi sókn félagsins og gerir því kleift að sinna áfram þörfum viðskiptavina sinna á hagkvæman hátt með góða þjónustu að leiðarljósi.

Ég vil þakka Birki Hólm Guðnasyni fyrir gott starf sem framkvæmdastjóri Icelandair. Hann á stóran þátt í vexti og velgengni félagsins á undanförnum árum.“

 

Nánari upplýsingar veita

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, sími: 896-1455