Icelandic
Birt: 2017-11-08 09:56:36 CET
Eik fasteignafélag hf.
Árshlutareikningur (Q1 og Q3)

Eik fasteignafélag hf.: Árshlutauppgjör fyrstu níu mánuði ársins 2017

  • Rekstrartekjur tímabilsins námu  5.643 m.kr.
  • Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir nam 3.696 m.kr.
  • Heildarhagnaður tímabilsins nam 2.410 m.kr.
  • Handbært fé frá rekstri nam 2.281 m.kr. á tímabilinu.
  • Bókfært virði fjárfestingareigna nam 82.784 m.kr. og bókfært virði eigin eigna nam 3.689 m.kr. í lok tímabilsins.
  • Matsbreyting fjárfestingareigna nam 1.550 m.kr. á tímabilinu.
  • Vaxtaberandi skuldir námu 54.333 m.kr. í lok tímabilsins.
  • Eiginfjárhlutfall nam 31,2%.
  • Hagnaður á hlut var 0,70 kr.

Árshlutareikningur Eikar fasteignafélags hf. fyrir tímabilið 1. janúar til 30. september 2017 var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins þann 8. nóvember 2017.

Meðfylgjandi er árshlutaskýrsla sem inniheldur árshlutareikning fyrstu níu mánuði ársins ásamt ítarlegri upplýsingum um rekstur félagsins en fram koma í tilkynningunni.

Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri:

"Rekstur félagsins gekk vel á fyrstu níu mánuðum ársins og var í takt við áætlanir. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir jókst um 10% milli ára og leigutekjur jukust einnig á milli ára eða um 11%. Ánægjulegt var að sjá áhuga fjárfesta á skuldabréfaútboði sem félagið hélt nýverið. Eftirspurn nam 11,5 ma.kr. en félagið seldi fyrir 9,9 ma.kr.

Glæsilegar höfuðstöðvar Vodafone hafa nú opnað að Suðurlandsbraut 8. Ljóst er að byggingarnar tvær, Suðurlandsbraut 8 og 10, sem og bílastæðahúsið sem myndar einskonar rós munu gefa Suðurlandsbrautinni nútímalegt og flott útlit."

Rekstur félagsins
Rekstur félagsins gekk vel á fyrstu níu mánuðum ársins 2017 og er uppgjörið í takt við áætlanir stjórnenda félagsins. Rekstrartekjur félagsins á fyrstu níu mánuðum ársins 2017 námu 5.643 m.kr. og aukast um 13,3% milli ára. Þar af voru leigutekjur 4.666 m.kr. og tekjur vegna hótelrekstrar 662 m.kr. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir nam 3.696 m.kr. Hagnaður fyrir tekjuskatt nam 3.022 m.kr. og heildarhagnaður tímabilsins nam 2.410 m.kr.

NOI hlutfall (þ.e. rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu, afskriftir og einskiptisliði sem hlutfall af leigutekjum) nam 75,6% á fyrstu níu mánuðum ársins 2017 samanborið við 76,3% fyrstu níu mánuði ársins 2016.

Fjárfestingareignir félagsins eru metnar á gangvirði í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS) og stuðst er m.a. við núvirt framtíðarsjóðstreymi einstakra eigna. Breytingar á gangvirði eru færðar undir matsbreytingu fjárfestingareigna sem nam 1.550 m.kr á tímabilinu.

Efnahagur félagsins
Heildareignir félagsins námu 89.192 m.kr. þann 30. september 2017. Þar af eru fjárfestingareignir að virði 82.784 m.kr. sem skiptast í fasteignir í útleigu að fjárhæð 80.913 m.kr., fasteignir í þróun 1.410 m.kr., byggingarréttir og lóðir 449 m.kr. og fyrirframgreidd gatnagerðargjöld að fjárhæð 13 m.kr. Eigin eignir námu 3.689 m.kr. og er Pósthússtræti 2 (Hótel 1919) fært sem eigin eign þar sem í fasteigninni er annar rekstur en útleiga fasteigna og er reksturinn í eigu eins dótturfélags Eikar. Eigið fé félagsins nam 27.851 m.kr. í lok september 2017 og var eiginfjárhlutfall 31,2%. Heildarskuldir félagsins námu 61.341 m.kr. þann 30. september 2017, þar af voru vaxtaberandi skuldir 54.333 m.kr. og tekjuskattsskuldbinding 5.548 m.kr. 

Uppgreiðsla á EIK 12 01 og nýr skuldabréfaflokkur
Um miðjan október opnaðist heimild til endurfjármögnunar skuldabréfaflokksins EIK 12 01. Flokkurinn bar 4,3% vexti sem voru umtalsvert hærri en þau fjármagnskjör sem félaginu hafði boðist í síðustu skuldabréfaútboðum þess.

Í aðdraganda uppgreiðslunnar var haldið vel heppnað skuldabréfaútboð þar sem boðnir voru til sölu tveir skuldabréfaflokkar, EIK 161023 og EIK 161047. Heildareftirspurn í báða flokkana nam samtals 11,5 ma.kr. en 9,9 ma.kr. voru seldir í flokkinn EIK 161047 á ávöxtunarkröfunni 3,6%.  Hollenskt uppboð var á EIK 161023 en Eik hafnaði öllum tilboðum í hann. Vegin meðalávöxtunarkrafa var 3,61% í uppboðinu. Samhliða þessu voru dregnir rúmlega 2 ma.kr. á bankafjármögnun sem félagið hafði tryggt sér í aðdraganda útboðsins. Flokkurinn var svo greiddur upp þann 16. október s.l. og afskráður í kjölfarið.

Arðgreiðslustefna
Félagið greiddi 928 m.kr. í arð til hluthafa þann 27. apríl s.l. enda er það stefna stjórnar að greiða 35% af handbæru fé frá rekstri hvers árs í arð til hluthafa. Handbært fé frá rekstri fyrstu þrjá mánuði ársins nam 2.281 m.kr.

Eignasafn félagsins
Eik fasteignafélag sinnir rekstri og útleigu á atvinnuhúsnæði ásamt eignarhaldi á hótelrekstri. Fjöldi eigna félagsins er yfir 100 og telja þær samtals tæpa 300 þúsund útleigufermetra. Virði fasteigna félagsins er rúmir 86 ma.kr. og heildarfjöldi leigutaka er yfir 400. Helstu eignir félagsins eru Borgartún 21 og 26, Mýrargata 2-16, Pósthússtræti 2 (Hótel 1919), Nýi Glæsibær, Turninn í Kópavogi, Smáratorg 1, Glerártorg og Austurstræti 5,6,7 og 17. Stærstu leigutakar eru Húsasmiðjan, Fasteignir ríkissjóðs, Flugleiðahótel, Rúmfatalagerinn, Landsbankinn, Síminn, Míla, Deloitte, Vátryggingafélag Íslands og Fjarskipti (Vodafone).

Eik fasteignafélag fékk allar eignir Slippsins, fasteignafélags ehf. (nú EF14 ehf.), afhentar 1. mars 2017 eins og áætlanir höfðu gert ráð fyrir. Félagið fjárfesti í þremur öðrum eignum á fyrri hluta ársins, Miðhrauni 2, Hyrjarhöfða 8 og hæð í Síðumúla 15. Félagið seldi eignarhluta sinn í Melgerði 13, sem var eina eign félagsins á Reyðarfirði, eignarhluta sinn í Hverafold 1-3 og hluta af eignarhlut sínum í Bæjarlind 14-16.

Stærsti hluti fasteignasafns Eikar eru skrifstofuhúsnæði eða 44%. Næst koma verslunarhúsnæði 26%, hótel 12%, lagerhúsnæði 11%, og veitingahúsnæði 4%. Um 90% fasteigna félagsins eru á höfuðborgarsvæðinu, þar af 36% á fjármála- og viðskiptasvæði Reykjavíkur (aðallega innan póstnúmera 105 og 108), 22% í miðbæ Reykjavíkur og 19% í Smáranum - Mjódd. 10% eignasafnsins er á landsbyggðinni, þar af 9% á Akureyri.

Virðisútleiguhlutfall
Virðisútleiguhlutfall félagsins var 95,6% í lok ársfjórðungsins og hefur það lækkað um 0,8% frá áramótum.

Kynningarfundur
Opinn kynningarfundur verður haldinn í dag, miðvikudaginn 8. nóvember 2017 klukkan 12:00 á Hóteli 1919 í fundarherberginu Goðafoss, Pósthússtræti 2, Reykjavík. Boðið verður upp á léttan hádegismat frá kl. 11:30. Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri Eikar, mun kynna uppgjörið og svara spurningum að lokinni kynningu ásamt Lýð H. Gunnarssyni, framkvæmdastjóra fjármálasviðs.

Fjárhagsdagatal 2017

  • Ársuppgjör 2017                                            26. febrúar 2018

Nánari upplýsingar veitir:

Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri, gardar@eik.is, s. 590-2200
Lýður H. Gunnarsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, lydur@eik.is, s. 590-2200 / 820-8980


Q3 Arshlutaskyrsla.pdf