Icelandic
Birt: 2017-11-01 15:00:00 CET
Múlaþing
Fjárhagsdagatal

Fljótsdalshérað - Fjárhagsáætlun 2018 – 2021

Tillaga fjárhagsáætlunar Fljótsdalshéraðs fyrir árið 2018 ásamt 3ja ára áætlun fyrir 2019-2021 verður lögð fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs á fundi í dag þann 1. nóvember 2017 sem hefst kl. 17.  Áætlunin er byggð á grunni þess fjárhagsramma sem nefndum  sveitarfélagsins var ætlað að laga sig að í endanlegri áætlanagerð.  Áætlað er að seinni umræða bæjarstjórnar um fjárhagsáætlunina fari fram þann 15. nóvember n.k.

Þriggja ára áætlun er hluti af þeirri áætlun sem hér er lögð fram.
 

Lykilmarkmið bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs undanfarin ár:

 

  • Jafnvægi skal vera á milli samanlagðra rekstartekna og gjalda A- og B-hluta á hverju þriggja ára tímabili.

Samkvæmt fjárhagsáætlun Fljótsdalshéraðs fyrir árið 2018 er rekstarjöfnuður áranna 2016-2018 jákvæður um 731 millj. kr.  fyrir samstæðu  A- og B- hluta og 482 millj. kr í A hluta fyrir sama tímabil.
 

  • Framlegð rekstrar (niðurstaða fyrir afskriftir og fjármagnsliði) skal vera á bilinu 15 – 20%.

Samkvæmt fjárhagsáætlun Fljótsdalshéraðs fyrir árið 2018 verður framlegðarhlutfall A-hluta 14,9% og í samstæðu A og B hluta 21%.

 

  • Veltufé frá rekstri A- og B-hluta nemi ekki lægri fjárhæð en sem nemur afborgunum og vöxtum af langtímalánum.

Samkvæmt fjárhagsáætlun Fljótsdalshéraðs fyrir árið 2018 mun veltufé frá rekstri nema 706 millj. kr. en afborganir af skuldbindingum verða um 541 millj. kr. í samstæðu A og B hluta.  Í A hluta nemur veltufé frá rekstri um 473 millj. kr. en greiðslur vegna skuldbindinga nema um 358 millj. kr

 

  • Skuldir og skuldbindingar samstæðu (A- og B-hluta) fari ekki yfir 250% af skilgreindum tekjum.

Samkvæmt fjárhagsáætlun Fljótsdalshéraðs fyrir árið 2018 verður skuldaviðmið samstæðu A og B hluta skv. reglugerð 153,5% og hjá A hluta verður skuldaviðmið 114,5% í árslok 2018.

  •  Skuldahlutfall A hluta, sem er hinn eiginlegi sveitarsjóður, fór niður fyrir 150% á árinu 2016.

 

Framagreind viðmið hafa á undanförnum árum  verið tekin alvarlega og hefur verið lögð mikil áhersla á það við vinnu fjárhagsáætlana.  Árangur þessara markmiða hefur þegar sýnt sig, því tekist hefur að laga rekstur sveitarfélagsins að breyttum aðstæðum, treysta fjárhag þess og gera það betur í stakk búið til að mæta þörfum íbúanna í framtíðinni.

 



 

Helstu niðurstöður fjárhagsáætlunar 2018-2021

 

  • Rekstarafkoma A og B hluta samkvæmt fyrirliggjandi áætlun er jákvæð um 223 millj. kr.
     
  • Skatttekjur hækka um 143 millj. kr. á milli áranna 2017 og 2018 og nema 3.464 millj. kr. sem er 4,3% hækkun.
     
  • Útsvarstekjur nema 1.861 millj. kr. og hækka um 5,9% miðað við útkomuspá fyrir árið 2017.  
     
  • Áætlað er að fasteignaskattur nemi um 369 millj. kr. sem er 5,9% hækkun frá 2017.
     
  • Framlög Jöfnunarsjóðs  nema 1.202 millj. kr. sem er 1,6% hækkun frá áætlaðri útkomu 2017.
     
  • Innri leiga á málaflokka í rammaáætlun hækkar almennt um 2,1% frá áætlun ársins 2017.
     
  • Í útkomuspá launa fyrir árið 2017 er áætluð niðurstaða um 2.200 millj. kr. en verða um 2.251 millj. kr. á árinu 2018 sem gerir um 2,3% hækkun á milli ára.  Á árinu 2017 er gjaldfærð hlutdeild Fljótdalshéraðs í uppsöfnuðum halla lífeyrissjóðsins Brú og nemur sú gjaldfærsla 99 millj. kr.  Sé sú sérstaka gjaldfærsla tekin út fyrir sviga er nemur hlufallsleg hækkun launakostnaðar um 7,1% milli áranna 2017 og 2018.
     
  • Framlegð (EBITDA) í A hluta er áætluð 584 millj. kr. eða 14,85% og í samstæðu A og B hluta er framlegð áætluð 899  millj. kr. eða 21%.


Önnur atriði sem einkenna áætlun 2018:

Ef farið er í gegnum frekari greiningu á þeirri áætlun sem hér er lögð fram eru kannski nokkur almenn atriði sem vert er að geta:

  1. Fjárfestingar ársins 2018 í Eignasjóði eru áætlaðar 170 millj.  Þar af eru rúmar 20   millj. kr.  vegna eignatilfærslu innan samstæðu þ.e. að Reiðhöllin á Iðavöllum verði færð undir Eignasjóð á bókfærðu verði þann 1.1. 2018 skv. ársreikningi Reiðhallarinnar Iðavalla ehf. sem er B hlutafyrirtæki.  Því er í raun um 150 millj. kr. til ráðstöfunar hjá Eignasjóði til framkvæmda.  Meðal stærri framkvæmda sem áform eru um næstu 4 árin eru viðbygging við Leikskólann Hádegishöfða og fimleikahús.  Síðan eru nýframkvæmdir í gatnagerð einnig á forgangslista næstu ára.   Hitaveita Egilsstaða og Fella gerir ráð fyrir að verja 105 millj. kr. í fjárfestingar á næsta ári sem er að stórum hluta 1. Áfangi í heildarlausn á útrásum fráveitu.   Til félagslegra íbúða er áætlað að verja 15 millj. kr. í endurbyggingu eigna. 
     
  2. Ekki er gert fyrir lántökum vegna almenns rekstar eða fjárfestinga á árinu 2018.
     
  3. Hitaveita Egilsstaða og Fella áætlar að selja lagerhúsnæðið að Smiðjuseli 2.
     
  4. Í samkomulagi 2016 milli ríkissjóðs annars vegar og Sambands sveitarfélaga hins er varðar uppsafnaðan halla Lífeyrissjóðs starfsmanna Ríkisins og Brúar lífeyrissjóðs tók Ríkissjóður alfarið á sig uppsafnaðan hallarekstur LSR  en sveitarfélögin taka á sig áfallinn hallarekstur lífeyrissjóðsins Brúar.  Uppreiknuð hlutdeild Fljótsdalshéraðs miðað við inngreidd framlög nema um 397 millj. kr. sem fært er til skuldar.   Þar af er gjaldfærsla þegar áfallins hallareksturs um 99 millj. kr., síðan er 271 millj. kr. framlag í Lífeyrisaukasjóð sem á áætlaður framtíðarhalli og í Varúðarsjóð um 27 millj. kr. 

 

Nánari upplýsingar veitir Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs.

 

 

 

 


Fjarhagsatlun 2018-2021 Bjarstjorn.pdf