Icelandic
Birt: 2017-10-13 21:40:33 CEST
Kvika banki hf.
Aðrar upplýsingar sem birtar eru í samræmi við reglur Kauphallarinnar

Kvika banki hf.: Kvika kaupir Öldu sjóði og Hannes Frímann Hrólfsson hefur störf sem framkvæmdastjóri eignastýringar Kviku

Kvika kaupir Öldu sjóði og Hannes Frímann Hrólfsson hefur störf sem framkvæmdastjóri eignastýringar Kviku

Gengið hefur verið endanlega frá kaupum Kviku banka hf. á Öldu sjóðum hf. Tilkynnt var um undirritun kaupsamnings vegna Öldu í byrjun ágúst, en nú hefur verið fallið frá öllum fyrirvörum og Alda verður dótturfyrirtæki Kviku í byrjun næstu viku.

Þá hefur Hannes Frímann Hrólfsson látið af störfum sem forstjóri Virðingar og tekið við sem framkvæmdastjóri eignastýringar Kviku. Hannes hefur starfað á fjármálamarkaði í hátt í tvo áratugi. Hann hefur verið forstjóri Virðingar frá 2014 en áður starfaði hann hjá Auði Capital frá 2012, lengst af sem forstjóri. Fyrir þann tíma starfaði Hannes hjá Arion banka og var framkvæmdastjóri og meðstofnandi Tinda verðbréfa.

Kvika gerði nýverið samninga um kaup á öllu hlutafé í Virðingu hf. og mun Virðing sameinast Kviku á næstu vikum. Þar til sameiningin hefur gengið í gegn mun Íris Arna Jóhannsdóttir, sem verið hefur yfirlögfræðingur Virðingar, gegna starfi forstjóra Virðingar. Með kaupunum á Virðingu og Öldu verður Kvika einn öflugasti aðili í eignastýringu á Íslandi með um 280 milljarða króna í stýringu. 

  
Um Kviku banka hf.

Kvika er eini sjálfstæði og sérhæfði fjárfestingabanki landsins. Bankinn sinnir þörfum viðskiptavina á afmörkuðum syllum með fagþekkingu og sérhæfðu vöruframboði. Burðarás Kviku er öflug eignastýring og veitir bankinn sparifjár- og innlánseigendum alhliða fjármálaþjónustu.

Hjá Kviku starfar samhentur hópur 105 sérfræðinga sem nær árangri í krafti menntunar, markaðsþekkingar og víðtækrar reynslu. Eignarhald Kviku er gagnsætt og er hann eini bankinn sem er að fullu í eigu einkaaðila s.s. lífeyrissjóða, fyrirtækja og einstaklinga. Nánar á: www.kvika.is.