Icelandic
Birt: 2017-08-04 20:10:16 CEST
Hagar hf.
Aðrar upplýsingar sem birtar eru í samræmi við reglur Kauphallarinnar

Afkoma Haga á fyrri helmingi rekstrarársins undir væntingum

Eins og fram kom í fréttatilkynningu frá Högum þann 5. júlí sl. hefur breytt samkeppnisumhverfi haft áhrif á rekstur og markaðsstöðu félagsins. Á þeim tímapunkti lá fyrir bráðabirgðauppgjör fyrir júnímánuð, sem er fyrsti mánuður annars ársfjórðungs.

Bráðabirgðauppgjör fyrir júlímánuð liggur nú fyrir. Sölusamdráttur í magni og krónum heldur áfram á sömu nótum og í júní í samanburði við fyrra ár. Á síðasta rekstrarári var Verslunarmannahelgin í júlí, en í ár í ágústmánuði og því salan í júlí 2017 ekki með öllu samanburðarhæf. Þó er ljóst að breytt staða á markaði hefur mikil áhrif á félagið. 

Undanfarið hefur verið unnið að miklum breytingum á Hagkaupsversluninni í Kringlu en lokun efri hæðar í febrúarlok hefur haft áhrif á veltu félagsins. Þá er unnið að endurnýjun á verslun Zara í Smáralind sem nú hefur verið lokað tímabundið. Tilkynnt hefur verið að ný og stærri verslun verði opnuð í október nk. Þessar breytingar hafa áhrif á sölutekjur félagsins og hafa í för með sér kostnaðarauka allt þar til verslanirnar verða opnaðar á ný í októbermánuði.

Fram hefur komið í tilkynningum að rekstrarumhverfi félagsins er krefjandi, þar sem verðhjöðnun vegna gengisþróunar á sér stað á sama tíma og kostnaður hækkar, m.a. vegna kjarasamningshækkana launa og lífeyrissjóðsframlags.

Nú er ljóst að sölusamdráttur vegna gengisþróunar og breyttrar markaðsstöðu, ásamt kostnaðarauka, mun hafa nokkur áhrif á afkomu félagsins á fyrri helmingi rekstrarársins. Gera má ráð fyrir að EBITDA fyrir tímabilið mars til ágúst verði um 20% lægri en á fyrra ári.

Félagið vinnur áfram að hagræðingu og að bæta verslanir félagsins og þjónustu við viðskiptavini,með það að markmiði að takast á við breytt samkeppnisumhverfi. Auk þess er lögð áhersla á að nýta þau tækifæri sem sérstaða verslana félagsins gefur til sóknar.

 

 

Nánari upplýsingar veitir Finnur Árnason, forstjóri Haga hf., í síma 530-5500.