Icelandic
Birt: 2017-05-15 18:38:39 CEST
Hagar hf.
Reikningsskil

Hagar hf. ársuppgjör 2016/17

Ársreikningur Haga hf. fyrir rekstrarárið 2016/17 var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 15. maí 2017. Reikningurinn er fyrir rekstrarárið 1. mars 2016 til 28. febrúar 2017. Ársreikningurinn hefur að geyma samstæðureikning félagsins og dóttur­félaga þess og er hann gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS). Endurskoðendur félagsins, KPMG ehf., hafa endurskoðað reikninginn og áritað hann fyrirvaralausri áritun.

 

Helstu lykiltölur

  • Hagnaður rekstrarársins nam 4.036 millj. kr. eða 5,0% af veltu.
  • Hagnaður á hlut var 3,46 kr.
  • Vörusala rekstrarársins nam 80.521 millj. kr.
  • Framlegð rekstrarársins var 24,8%.
  • Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam 6.024 millj. kr.
  • Heildareignir samstæðunnar námu 30.109 millj. kr. í lok rekstrarársins.
  • Handbært fé félagsins nam 2.474 millj. kr. í lok rekstrarársins.
  • Eigið fé félagsins nam 17.412 millj. kr. í lok rekstrarársins.
  • Eiginfjárhlutfall var 57,8% í lok rekstrarársins.

 

Rekstrarafkoma ársins

Vörusala rekstrarársins nam 80.521 millj. kr., samanborið við 78.366 millj. kr. árið áður. Söluaukning félagsins milli ára var því 2,7%. Hækkun 12 mánaða meðaltals vísitölu neysluverðs milli rekstrarára var 1,66% en vísitalan án húsnæðis lækkaði um 0,40%. Framlegð félagsins var 19.992 millj. kr., samanborið við 19.109 millj. kr. áður eða 24,8% framlegð samanborið við 24,4% á fyrra ári.

Laun og launatengd gjöld hækkuðu um 685 millj. kr. milli ára en hækkunin, sem var 9,6%, er í takt við kjarasamningshækkanir og almenna launaþróun á rekstrarárinu. Launahlutfallið er nú 9,7% en var 9,1% á fyrra ári. Annar rekstrarkostnaður lækkaði um 117 millj. kr. milli ára eða um 1,8% sem skýrist aðallega af lægri húsnæðiskostnaði vegna lokunar Debenhams og fækkun fermetra hjá Hagkaup og Útilíf. Rekstrarkostnaðarhlutfallið er nú 7,9% en var 8,3%. Kostnaðarhlutfallið í heild hækkar úr 17,4% í 17,7%.

Afkoma fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) nam 6.024 millj. kr., samanborið við 5.659 millj. kr. árið áður. EBITDA hlutfall er 7,5%, samanborið við 7,2% árið áður.

Þá voru tekjufærðar 265 millj. kr. sem skaðabætur í kjölfar dóms Hæstaréttar í mars í máli Norvikur gegn Högum en Héraðsdómur hafði áður dæmt félagið til að greiða 413 millj. kr. vegna málsins, sem gjaldfærðar voru í ársreikningi 2015/16.

Afskriftir ársins námu 1.225 millj. kr. samanborið við 699 millj. kr. ári áður. Hækkunin skýrist aðallega af lokun og breytingu verslana á árinu, þ.á.m. breytingu Hagkaups og Útilífs í Smáralind, lokun Hagkaups á efri hæð Kringlunnar, lokun Debenhams í Smáralind og lokun Útilífs í Glæsibæ.  Auk þess hafa afskriftir aukist vegna fjárfestinga félagsins í fasteignum.

Hagnaður rekstrarársins fyrir tekjuskatt nam 5.041 millj. kr., samanborið við 4.498 millj. kr. árið áður. Hagnaður rekstrarársins nam 4.036 millj. kr., sem jafngildir um 5,0% af veltu, en hagnaður á fyrra ári var 3.596 millj. kr. Grunnhagnaður á hlut var 3,46 kr., samanborið við 3,07 kr. á fyrra ári.

 

Efnahagsreikningur og sjóðstreymi ársins

Heildareignir samstæðunnar í lok rekstrarársins námu 30.109 millj. kr. Fastafjármunir voru 18.877 millj. kr. og veltufjármunir 11.232 millj. kr. Félagið fjárfesti í rekstrarfjármunum fyrir 3.283 millj. kr. á árinu en stærstu verkefnin voru kaup á Skeifunni 11 og breyting á Hagkaupsversluninni í Smáralind. Birgðir voru  4.419 millj. kr. í árslok og lækkuðu um 337 millj. kr. frá fyrra ári. Mesta lækkun birgða er vegna lokunar Debenhams og fækkun sölufermetra undir sérvöru í Hagkaup Smáralind og Kringlu

Eigið fé félagsins var 17.412 millj. kr. í lok rekstrarársins og eiginfjárhlutfall 57,8%. Heildarskuldir samstæðunnar voru 12.697 millj. kr., þar af voru langtímaskuldir 3.587 millj. kr. Nettó vaxtaberandi skuldir félagsins í lok rekstrarársins voru 1.279 millj. kr. en alls voru greiddar afborganir að fjárhæð 757 millj. kr. inn á langtímalán félagsins á rekstrarárinu.

Handbært fé frá rekstri á rekstrarárinu nam 5.823 millj. kr., samanborið við 5.754 millj. kr. á fyrra ári, en 954 millj. kr. voru greiddar í tekjuskatt á rekstrarárinu. Fjárfestingarhreyfingar rekstrarársins voru 3.410 millj. kr. og voru þar af fjárfestingar í fasteignum 2.057 millj. kr. Fjármögnunarhreyfingar voru 3.749 millj. kr. en á rekstrarárinu voru greiddar 1.992 millj. kr. í arð til hluthafa auk þess sem félagið keypti eigin bréf fyrir 1.000 millj. kr.

Handbært fé í lok rekstrarársins var 2.474 millj. kr., samanborið við 3.810 millj. kr. árið áður og lækkaði handbært fé því um 1.336 milljónir króna á rekstrarárinu.

 

Helstu verkefni ársins og framtíðarhorfur

Fjárfestingar í rekstrarfjármunum á árinu námu 3.283 millj. kr. en þar af keypti félagið tvær fasteignir á árinu. Keyptur var 4.706 m2 eignarhluti í Skeifunni 11 og hluti fasteignarinnar Faxafeni 14 þar sem verslun Bónus er til húsa.

Miklar breytingar voru gerðar á verslunum Hagkaups og Útilífs í Smáralind á árinu. Verslun Hagkaups var minnkuð um rúma 4.800 m2 en endurbætt og glæsileg verslun var opnuð í byrjun nóvember. Þá flutti Útilíf verslun sína inn í austurenda Smáralindar, við hlið Hagkaups, og opnaði einnig í nóvember nýja verslun þar sem starfsemi verslunarinnar í Smáralind og í Glæsibæ voru sameinaðar.

Samhliða opnun nýrrar Hagkaupsverslunar í Smáralind var opnað fyrsta Krispy Kreme kaffihúsið á Íslandi, en kleinuhringjaframleiðslan fer fram fyrir augum viðskiptavina Hagkaups inni í versluninni. Þá er stefnt að opnun nýs Krispy Kreme kaffihúss í Hagkaup Skeifunni í júnímánuði.

Nokkrum verslunum var lokað á árinu og hefur verið tilkynnt um frekari fækkun verslana á næstu mánuðum. Verslun Debenhams lokaði í byrjun janúar 2017, rúmum 15 árum eftir að verslunin opnaði í Smáralind í árslok 2001. Þá var efri hæð Hagkaups í Kringlunni lokað í febrúar en ný og endurbætt verslun verður opnuð á neðri hæð Kringlunnar í október nk.  Verslunum Evans og Warehouse var einnig lokað á árinu og hefur nú þegar verið tilkynnt um lokun Topshop og Dorothy Perkins á rekstrarárinu sem nú er hafið. Að síðustu var outlet-markaði sem félagið rak á Korputorgi lokað um mitt ár.

Á því rekstrarári sem nú er hafið mun Bónus stækka verslanir sínar við Smáratorg og í Kauptúni. Vinna við breytingarnar er nú í gangi en samtals nemur stækkunin rúmum 1.200 m2.

Á aðalfundi Haga sem haldinn var í júní 2016 var samþykkt að heimila félaginu að kaupa á næstu 18 mánuðum allt að 10% af heildarhlutafé í þeim tilgangi að koma á viðskiptavakt með hluti í félaginu og/eða til að setja upp formlega endurkaupaáætlun. Í september 2016 fór framkvæmd endurkaupaáætlunar í gang og lauk henni í nóvember 2016. Endurkaup félagsins námu 19 millj. hluta að nafnvirði, fyrir samtals 1.000 millj. kr. og eiga Hagar nú samtals 1,6% af heildar hlutafé félagsins.

Á rekstrarárinu skiluðu Bónus og Hagkaup um 175 millj. kr. af ólögmætum gjöldum ríkissjóðs til viðskiptavina sinna í formi niðurgreiðslu á innfluttum kjúklingi og nautalundum. Forsaga málsins er sú að í janúar 2016 var kveðinn upp dómur í Hæstarétti í máli Haga gegn íslenska ríkinu þar sem Högum voru dæmdar 245 milljónir króna auk vaxta vegna ólögmætrar gjaldtöku ríkissjóðs af innfluttum landbúnaðarvörum. Eftir dóminn gerði félagið frekari kröfu á íslenska ríkið og fengust 217 millj. kr. greiddar þó enn standi ágreiningur um eftirstöðvarnar. Strax í kjölfar dómsins var tekin ákvörðun um að skila fjármununum til viðskiptavina félagsins og verður áfram boðið lægra verð en ella þar til öllum framangreindum fjármunum hefur verið skilað til viðskiptavina.

Bónus og Hagkaup vilja vera leiðandi í að draga úr plastpokanotkun og verður sérstök áhersla lögð á verkefnið á nýju rekstrarári. Boðið verður upp á fleiri valkosti í fjölnota pokum en nú þegar hafa verið seldir yfir 300.000 fjölnota pokar.

 

Kaup Haga á öllu hlutafé Lyfju og Olíuverzlunar Íslands

Í nóvember 2016 undirrituðu Hagar kaupsamning um kaup á öllu hlutafé í Lyfju hf. Kaupsamningurinn var undirritaður með fyrirvara um niðurstöður áreiðanleikakönnunar og samþykki Samkeppniseftirlitsins. Í apríl 2017 var fyrirvörum áreiðanleikakönnunar aflétt en gera má ráð fyrir niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins í júlí 2017. Heildarverðmæti Lyfju hf. samkvæmt kaupsamningi er 6.700 millj. kr. og vaxtaberandi skuldir 1.700 millj. kr. Kaupverð hlutafjár er því 5.000 millj. kr. sem greitt verður með reiðufé. Þá hefur verið tilkynnt að stjórn Haga vilji taka til skoðunar að selja Heilsu, dótturfélag Lyfju, gangi kaupin eftir.

Í lok apríl 2017 undirrituðu Hagar kaupsamning um kaup á öllu hlutafé Olíuverzlunar Íslands hf. og fasteignafélagsins DGV ehf. Kaupsamningurinn var undirritaður með fyrirvara um niðurstöður áreiðanleikakönnunar, samþykki hluthafafundar fyrir aukningu hlutafjár og samþykki Samkeppniseftirlitsins. Gangi þeir fyrirvarar eftir má gera ráð fyrir að gengið verði frá viðskiptunum undir lok árs 2017. Heildarverðmæti Olíuverzlunar Íslands hf. við gerð kaupsamningsins var 15.100 millj. kr. og vaxtaberandi skuldir 5.928 millj. kr. Kaupverð hlutafjár er því 9.172 millj. kr. sem getur þó hækkað um allt að 1.000 millj. kr. vegna afkomu Olís á árinu 2017. Heildarvirði DGV ehf. var 1.040 millj. kr. og vaxtaberandi skuldir 640 millj. kr. Kaupverð hlutafjár DGV er 400 millj. kr. og heildarkaupverð hlutafjár  því 9.572 millj. kr. Kaupverð verður annars vegar greitt með afhendingu á 111 milljónum hluta í Högum og hins vegar með reiðufé.

Ef öllum fyrirvörum verður aflétt munu áhrif viðskiptanna á samstæðu Haga verða þó nokkur. Velta samstæðunnar, miðað við ársreikninga 2016 hjá Lyfju og Olís og ársreikning 2016/17 hjá Högum, verður um 121 ma. kr. eða um 50% hærri en fyrir viðskiptin. EBITDA sameinaðs félags hækkar um 2,7 ma. kr. eða 44%. EBITDA-hlutfall fer úr 7,5% í 7,2%. Eignir samstæðunnar verða um 57 ma. kr. eftir viðskiptin og eigið fé um 23 ma. kr. Eiginfjárhlutfall verður því um 40%. Skuldsetning samstæðunnar mun aukast um 7,3-8,3 ma. kr. og nettó vaxtaberandi skuldir sem hlutfall af EBITDA verður um 2,1-2,2. Vaxtaberandi skuldir samstæðunnar verða því samtals um 20 ma. kr. með yfirteknum skuldum nýrra félaga.

 

Arðgreiðslustefna félagsins

Arðgreiðslustefna Haga leggur áherslu á að félagið skili til hluthafa sinna, beint eða óbeint, þeim verðmætum sem skapast í rekstrinum á hverju ári, umfram nauðsynlegar fjárfestingar í rekstrarfjármunum. Þá er stefnt að því að Hagar greiði hluthöfum sínum árlegan arð, sem nemi að lágmarki 50% hagnaðar næstliðins rekstrarárs. Að auki mun félagið, ef tækifæri gefast, kaupa eigin bréf og kaupa fasteignir á hagstæðu verði sem nýtast félaginu í starfsemi sinni. Félagið stefnir að reglubundnum arðgreiðslum og kaupum á eigin bréfum, skv. formlegri endurkaupaáætlun, í þeim tilgangi að lækka hlutafé félagsins, sé svigrúm til þess.

Samhliða kaupum félagsins á öllu hlutafé í Lyfju og Olíuverzlun Íslands hefur stjórn Haga ákveðið að víkja frá áður samþykktri arðgreiðslustefnu og leggja til við aðalfund félagsins í júní nk. að ekki verði greiddur út arður til hluthafa árið 2017.

 

Bónus og Hagkaup veita samtals 10 milljónir króna í styrki til góðra málefna

Í tilefni af góðu uppgjöri félagsins munu Bónus og Hagkaup styrkja góð málefni fyrir samtals 10 milljónir króna. Bónus mun veita eftirfarandi samtökum styrk sem er að fjárhæð 1 milljón hver: Uncief og Fatímusjóðurinn, Neistinn – styrktarfélag hjartveikra barna, Alzheimersamtökin, Stígamót og Vin – bata og fræðslusetur Rauða krossins. Hagkaup mun einnig veita eftirfarandi samtökum styrk sem er að fjárhæð 1 milljón hver: Breið bros, Einhverfusamtökin, Hugarafl – Pieta samtökin, Gleym mér ei – styrktarfélag og Göngum saman – rannsóknir á brjóstakrabbameini.

 

Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og hluthafa

Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og hluthafa verður haldinn á skrifstofu Haga, 3. hæð í Smáralind í Kópavogi, þriðjudaginn 16. maí kl. 8:30 en þar mun Finnur Árnason forstjóri Haga kynna afkomu félagsins og svara spurningum ásamt stjórnendum félagsins.

Kynningarefni, ásamt upptöku af fundinum, verður aðgengilegt að honum loknum á heimasíðu Haga, www.hagar.is.

 

Fjárhagsdagatal 2017/18

Aðalfundur 7. júní 2017

 

1. ársfjórðungur (1. mars – 31. maí): 28. júní 2017

2. ársfjórðungur (1. mars – 31. ágúst): 24. október 2017

3. ársfjórðungur (1. mars – 30. nóvember): 11. janúar 2018

4. ársfjórðungur (1. mars – 28. febrúar): 16. maí 2018

 

Nánari upplýsingar veitir Finnur Árnason, forstjóri félagsins, í síma 530-5500.


Frettatilkynning Hagar arsuppgjor 280217.pdf
Hagar Arsreikningur 28 2 2017 isl_m nofnum.pdf