Icelandic
Birt: 2017-05-04 10:45:04 CEST
Kvika banki hf.
Aðrar upplýsingar sem birtar eru í samræmi við reglur Kauphallarinnar

Kvika banki hf.: Ármann Þorvaldsson ráðinn forstjóri Kviku

Fréttatilkynning
4. maí 2017

Ármann Þorvaldsson ráðinn forstjóri Kviku

Ármann Þorvaldsson hefur verið ráðinn forstjóri Kviku banka hf. og Marinó Örn Tryggvason aðstoðarforstjóri bankans.

Ármann hefur starfað hjá Virðingu frá árinu 2015, síðast sem framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar. Áður var hann framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar Kaupþings frá 1997 til 2005 og framkvæmdastjóri Kaupþings Singer & Friedlander í Bretlandi frá 2005 til ársins 2008. Áður en Ármann hóf störf hjá Virðingu starfaði hann sem framkvæmdastjóri hjá fasteignalánafélaginu Ortus Secured Finance í London. Ármann útskrifaðist með MBA gráðu frá Boston University árið 1994 og er með BA gráðu í sagnfræði frá Háskóla Íslands.

Marinó hefur starfað hjá eignastýringu Arion banka og forvera bankans frá árinu 2002, síðast sem aðstoðarframkvæmdastjóri eignastýringar frá 2014. Marinó sat í stjórn Varðar Trygginga frá 2016 til 2017. Marinó er með BSc í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum. 

Ármann tekur til starfa hjá Kviku 15. júní næstkomandi og Marinó 1. ágúst. Magnús Ingi Einarsson framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs Kviku verður staðgengill forstjóra þar til Ármann kemur til starfa.

Magnús hefur starfað hjá Kviku og forverum bankans frá árinu 2006 er hann hóf störf í áhættustýringu. Fram til loka árs 2014 gegndi hann stöðu forstöðumanns útlánaáhættu, áhættustýringar og fjárstýringar.  Frá þeim tíma hefur hann starfað sem framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs. Magnús er með BSc í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands og MSc gráðu í vélaverkfræði frá Virginia Tech í Bandaríkjunum.  

Um Kviku banka hf.

Kvika er eini sjálfstæði og sérhæfði fjárfestingabanki landsins. Bankinn sinnir þörfum viðskiptavina á afmörkuðum syllum með fagþekkingu og sérhæfðu vöruframboði. Burðarás Kviku er öflug eignastýring og veitir bankinn sparifjár- og innlánseigendum alhliða fjármálaþjónustu.
 
Hjá Kviku starfar samhentur hópur 83 sérfræðinga sem nær árangri í krafti menntunar, markaðsþekkingar og víðtækrar reynslu. Eignarhald Kviku er gagnsætt og er hann eini bankinn sem er að fullu í eigu einkaaðila s.s. lífeyrissjóða, fyrirtækja og einstaklinga. Nánar á: www.kvika.is.