Icelandic
Birt: 2017-04-26 20:00:39 CEST
Hagar hf.
Innherjaupplýsingar

Hagar hf. kaupa allt hlutafé í Olíuverzlun Íslands hf. og DGV ehf.

- vikið frá arðgreiðslustefnu félagsins að sinni

Hagar hf. hafa í dag, 26. apríl 2017, undirritað kaupsamning um kaup á öllu hlutafé Olíuverzlunar Íslands hf. (Olís) og fasteignafélagsins DGV ehf.

Olíuverzlun Íslands sérhæfir sig í sölu og þjónustu með eldsneyti og aðrar olíuvörur, auk ýmissa nauðsynjavara til einstaklinga og fyrirtækja. Dreifinet félagsins er víðtækt og starfrækir það um 115 starfsstöðvar á um 50 stöðum á landinu, aðallega undir merkjum Olís, ÓB og Rekstrarlands. Þá á Olís 40% í Olíudreifingu ehf. DGV ehf. er fasteignafélag sem á um 3.000 m2  fasteign auk lóðaréttinda sem ekki tengjast rekstri Olís. Heildarvelta Olíuverzlunar Íslands var um 31 milljarður árið 2016.

Heildarvirði Olís er 15.100 m.kr. og vaxtaberandi skuldir 5.928 m.kr. Kaupverð hlutafjár er því 9.172 m.kr. Endanlegt kaupverð getur þó tekið breytingum vegna afkomu Olís á árinu 2017. Verði EBITDA Olís rekstrarárið 2017 hærri en 2.100 m.kr. kemur til hækkunar kaupverðs. Kaupverð getur þó að hámarki hækkað um 1.000 m.kr. ef EBITDA félagsins rekstrarárið 2017 verður 2.300 m.kr. eða hærri. EBITDA fyrir rekstrarárið 2016 var 1.908 m.kr. Kaupverð verður greitt annars vegar með afhendingu á 111 milljón hlutum í kaupanda og hins vegar með reiðufé. Sá hluti kaupverðsins sem greiddur er með reiðufé verður að hluta til fjármagnaður með öflun lánsfjár. Við útreikning á kaupverði er miðað við gengi Haga 47,5. Seljendur skuldbinda sig til að hvorki selja né framselja þá hluti sem þeir fá afhenta í 12 mánuði frá afhendingu. Heildarvirði DGV er 1.040 m.kr. en vaxtaberandi skuldir eru 640 m.kr. Kaupverð hlutafjár DGV er 400 m.kr. og heildar kaupverð viðskiptanna því 9.572 m.kr.

Kaupsamningurinn er gerður með fyrirvara um niðurstöður áreiðanleikakönnunar, samþykki hluthafafundar fyrir aukningu hlutafjár og samþykki Samkeppniseftirlitsins. Gangi þeir fyrirvarar eftir má gera ráð fyrir að gengið verði frá viðskiptunum undir lok þessa árs.

Ráðgjafi Haga í viðskiptunum var Arctica Finance.

Samhliða kaupunum, og áður tilkynntum kaupum félagsins á Lyfju hf., hefur stjórn Haga ákveðið að víkja frá áður samþykktri arðgreiðslustefnu félagsins og leggja til við aðalfund í júní nk. að ekki verði greiddur út arður árið 2017.

   

Finnur Árnason, forstjóri Haga:

„Þessi samningur er sérstaklega ánægjulegur og skapar fjölmörg tækifæri til að bæta þjónustu við okkar viðskiptavini. Rekstur Olís fellur mjög vel að rekstri Haga og skapar einstakan grundvöll til sóknar og ekki síður til aukinnar hagkvæmni í breyttu samkeppnisumhverfi.“

 

Baldvin Þorsteinsson, stjórnarformaður Olís:

„Við teljum það farsælt skref til framtíðar fyrir Olís að staðsetja það undir öflugum fyrirtækjahatti Haga hf. Í þessu felast mikil tækifæri fyrir starfsfólk Olís til að auka og efla þjónustu við viðskiptavini félagsins. Olís lítur samstarfið björtum augum.“

 

  

Nánari upplýsingar veitir Finnur Árnason, forstjóri Haga hf., í síma 530-5500.