Icelandic
Birt: 2017-03-14 09:51:33 CET
Sýn hf.
Flöggun

Fjarskipti hf. : Fjarskipti hf. og 365 miðlar hf. undirrita endanlegan kaupsamning

Fjarskipti og 365 miðlar hafa undirritað samning um kaup Fjarskipta á öllum eignum og rekstri 365 miðla, að undanskildum eignum er varða útgáfu Fréttablaðsins. Hinar keyptu eignir eru meðal annars fjarskipta-, sjónvarps- og útvarpsrekstur 365 miðla auk vefmiðilsins Vísis. Helstu sjónvarpsstöðvar eru Stöð 2, Stöð 2 Sport, Stöð 3 og Bíórásin. Helstu útvarpsstöðvar eru Bylgjan, FM957 og X-ið. Fréttastofa 365 miðla, að undanskilinni ritstjórn og rekstri Fréttablaðsins, er hluti hins keypta. Aðilar hafa áður upplýst um gang viðræðna með tilkynningum þann 31. ágúst 2016 og 22. desember 2016. Helsta breytingin frá því sem áður hefur verið tilkynnt er að Vísir og fréttahluti ljósvakamiðla eru nú hluti af kaupunum sem hækkar kaupverð frá áður tilkynntum forsendum.

Með viðskiptunum eignast Fjarskipti öflugasta fjölmiðla- og afþreyingarfyrirtækið hér á landi. Velta sameinaðs félags mun nema um 22 milljörðum króna og skila um 5 milljörðum króna í EBITDA þegar samlegðaráhrif eru að fullu komin fram. Með viðskiptunum verður til leiðandi fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtæki á Íslandi, sem mun veita yfir 500 manns atvinnu og bjóða upp á fjölbreytt vöruframboð og enn betri þjónustu til sinna viðskiptavina.

Samkvæmt áætlun Fjarskipta mun hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) hins keypta, með fullum samlegðaráhrifum, nema um 1.750 milljónum króna á ársgrundvelli, en um 60% af þeirri tölu mun koma til vegna áætlaðrar kostnaðarsamlegðar. Ríflega helmingur samlegðaráhrifa er vegna hagkvæmari tæknireksturs hjá sameinuðu félagi. Gert er ráð fyrir að samlegð verði komin fram að fullu innan 12-18 mánaða frá afhendingu.

Kaupverð er á bilinu 3.125-3.275 milljónir króna og mun endanlegt kaupverð ráðast af rekstrarárangri hins keypta fram að afhendingu. Kaupverð verður greitt annars vegar með 32.380.952 hlutum í Fjarskiptum á genginu 52,5 krónur á hlut, og hins vegar 1.425-1.575 milljónum króna með reiðufé. Einnig yfirtekur kaupandi vaxtaberandi skuldir að fjárhæð 4.600 milljónir króna.

Viðskiptin verða til umfjöllunar á aðalfundi Fjarskipta þann 16. mars næstkomandi, en leitað verður eftir samþykki fundarins fyrir heimild til handa stjórn til að framkvæma hlutafjáraukningu í því skyni að inna af hendi hluta kaupverðsins. Kaupin eru með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins (og eftir atvikum annarra eftirlitsaðila) og fer afhending fram eftir að samþykki liggur fyrir. Rekstur 365 miðla fram að afhendingu verður með óbreyttu sniði. 

Ráðgjafar Fjarskipta í viðskiptunum voru Íslandsbanki, Landslög, KPMG og Capacent.

Fjarskipti bjóða fjárfestum og markaðsaðilum á opinn fund þar sem Stefán Sigurðsson, forstjóri, og aðrir stjórnendur, munu kynna viðskiptin. Fundurinn verður haldinn í dag, þriðjudaginn 14. mars, kl. 12:00 á Hótel Íslandi, Ármúla 9. Kynningarefni fundarins er aðgengilegt á vefsíðu Fjarskipta, https://vodafone.is/vodafone/fjarfestatengsl/fjarfestayfirlit/.

 
Stefán Sigurðsson, forstjóri Vodafone:

"Það er afar ánægjulegt að samkomulag hafi náðst um kaup Fjarskipta á ljósvakamiðlum og fjarskiptaþjónustu 365 miðla. Sameinað félag verður stærra og öflugra og mun auka hagkvæmni og áhættudreifingu í rekstri sem mun gefa okkur færi á að bjóða viðskiptavinum enn betri þjónustu og hagkvæmari verð. EBITDA Fjarskipta mun aukast um 50% eftir að samlegð er komin að fullu fram. Sjónvarpsrekstur, sem hefur verið vaxandi tekjustoð Fjarskipta undanfarin misseri, er stærstur hluti yfirtekins reksturs og starfsmenn sameinaðs félag verða yfir 500.  

Ljósvakamiðlar verða rekin sem ný og sérstök rekstrareining innan Fjarskipta. Hugmyndin að baki kaupunum er ekki að binda sjónvarpsþjónustu eingöngu við kerfi Fjarskipta enda teljum við mikilvægt að vernda þá grunnreglu að viðskipavinir þurfi ekki að færa sig á milli fjarskiptafyrirtækja til að njóta gæðaefnis.

Við berum mikla virðingu fyrir fjölmiðlum 365 og gerum okkur fyllilega grein fyrir ábyrgð okkar þegar kemur að kaupum á fjölmiðli sem rekur eina öflugustu fréttastofu landsins. Við munum haga skipulagi á þann máta að sjálfstæði fréttastofu verði tryggt. Þeir fjölmiðlar sem um ræðir eru mikilvægir fyrir upplýsingamiðlun og menningu á Íslandi og því er það mikið kappsmál fyrir okkur að vanda mjög til verka þegar kemur að rekstri þeirra. Hér er um góðar fréttir að ræða fyrir fjarskipta- og fjölmiðlamarkaðinn, hluthafa Fjarskipta, viðskiptavini beggja fyrirtækja og landsmenn alla."


Nánari upplýsingar veitir Guðfinnur Sigurvinsson, verkefnastjóri samskiptamála Vodafone, í síma: 6699330.

Meðfylgjandi er kynningin sem farið verður yfir á fundinum í dag.


Kaup a eignum og rekstri 365 mila hf..pdf